Fara saman í bandarískan háskóla á sundstyrk
-Þröstur og Íris Ósk eru ungt og upprennandi sundfólk
Sundparið Þröstur Bjarnason og Íris Ósk Hilmarsdóttir keppti á Íslandsmeistaramótinu í 25 metra laug í sundi á dögunum. Þröstur varð sjöfaldur Íslandsmeistari og Íris náði lágmarki fyrir Norðurlandamótið. Þau æfa bæði með ÍRB og eru á leiðinni til Bandaríkjanna í háskólanám næsta haust á skólastyrk sem þau fengu út á sundið. Þau eru spennt fyrir því að fara saman út, en sundlið skólans er sterkt og tiltölulega nýtt, svo það er aldrei að vita nema Þröstur og Íris hjálpi liði skólans að komast á kortið. Sjónvarp Víkurfrétta hitti á þessa afrekssundmenn á leið í laugina og fengu að forvitnast um framhaldið ásamt því að fá að fylgjast með æfingu.
Þröstur, sjö Íslandsmeistaratitlar, hvernig var tilfinningin?
Hún var mjög góð, það var mjög gaman að að vinna svona margar greinar. Ég er búinn að sigra í mörgum greinum undanfarið ár og lagði upp með að bæta við mig einni núna en auk þess bættust boðsundin við. Við fengum nokkra stráka með okkur til að vinna boðsundin sem hefur ekki verið gert í mörg ár og settum tvö Íslandsmet. Annars vegar í 4x100m fjórstundi og hins vegar í 4x100m skriðsundi en þar bættum við okkar eigin met.
Íris, þú náðir lágmarki fyrir Norðurlandamótið, varstu sátt með þinn árangur?
Já, já, hann var bara alveg ágætur.
Hvað þarf að leggja á sig til að ná góðum árangri í sundi?
„Það þarf að æfa vel og hafa gaman að þessu. Ég hef mjög gaman að þessu,“ segir Þröstur. „Auk þess þarf að huga vel að mataræðinu og svefninum til þess að halda líkamanum gangandi en ekki síst andlegu hliðinni,“ segir Íris. „Þetta skiptir allt miklu máli.“
Hve mikið æfið þið?
„Það eru níu sundæfingar í viku, fjórar lyftingaæfingar og svo förum við í jóga einu sinni í viku,“ segja þau.
Verður þetta aldrei leiðinlegt?
„Jú, jú, þetta getur verið mjög erfitt og stundum leiðinlegt. En það skiptir miklu máli að halda áfram þá, því þetta er allt þess virði þegar öll vinnan skilar sér í góðum árangri,“ segir Þröstur.
Eigið þið ykkar fyrirmyndir í sundinu?
„Ég fylgist með sundmótum og þá aðallega kanadíska sundmanninum Ryan Cochrane. Hann er virkilega góður í löngum skriðsundum og það er gaman að fylgjast með honum,“ segir Þröstur. „Já, það eru mjög margar, bæði hérlendis og erlendis. Eygló Ósk er með baksundið sem hennar aðalgrein eins og ég og ég hef lengi litið upp til hennar,“ segir Íris.
Af hverju byrjuðuð þið að æfa sund?
„Mamma vildi að ég myndi geta bjargað mér sjálf í vatni. Svo fannst mér þetta mjög gaman og hélt áfram,“ segir Íris. „Já, mér fannst þetta spennandi og vildi alltaf vera í lauginni,“ segir Þröstur.
Hvað er á döfinni?
„Það er ekkert stórmót á næstunni en við hjá ÍRB erum á leið til Danmerkur í janúar. Það verður örugglega mjög gaman. Síðan er það bara næsta Íslandsmeistaramót í apríl. Þá er planið að setja allt á fullt og ná sjö öðrum Íslandsmeistaratitlum í safnið,“ segir Þröstur.
Fyrir okkur sem höfum ekki æft sund, hvernig fer sundæfing fram?
„Það er mjög mismunandi. Það fer eftir því fyrir hvað við erum að æfa og hvort það sé stutt í mót eða við jafnvel nýbúin að keppa eins og núna. Núna er til dæmis frekar róleg æfing þar sem Íslandsmeistaramótið er nýbúið. En hefðbundin æfing samanstendur af upphitun, aðalsetti og niðursundi. Aðalsettið er það sem við einbeitum okkur mest að og það getur verið erfitt tæknilega eða þreklega, það er mismunandi,“ segir Íris.
Þið eruð á leið í bandarískan háskóla á sundstyrk. Hvað vitið þið um skólann og hvernig leggst þetta í ykkur?
„Skólinn heitir McKendree University og er í Illinois. Við erum mjög spennt fyrir þessu og finnst gaman að vera að fara saman. Þetta eru blendnar tilfinningar. Við höfum ekki farið og skoðað skólann en nýlega fórum við til Flórída og skoðuðum annan skóla þar, við höldum að það sé svipað, sá skóli var mjög flottur. Sundlið skólans er mjög sterkt en tiltölulega nýtt samt sem áður. Þau eru að vaxa og vinna í því að koma sér á kortið. Við höfum ekki ákveðið hvað við ætlum að læra ennþá. Það er hægt að byrja að taka almenna áfanga og ákveða svo aðalfag þegar líður á,“ segja þau Íris og Þröstur.
Hafið þið leitt hugann að því hvað ykkur langar að gera eftir háskólann? Stefnið þið á atvinnumennsku?„Það fer allt eftir því hvað gerist þarna. Ef sundið gengur vel þá kannski heldur maður áfram þar. Það eru mjög fáir atvinnumenn í sundi svo það væri ekki nema maður yrði það góður,“ segir Þröstur.
Steindór Gunnarsson, yfirþjálfari ÍRB er ánægður með árangurinn á Íslandsmeistaramótinu og stoltur af hópnum. Hann segist gleðjast mikið með Þresti og Írisi og hlakkar til að fylgjast með þeim næstu fjögur árin. Steindór tók við stöðu yfirþjálfara hjá ÍRB í fyrra en Anthony Kattan hafði gengt þeirri stöðu undanfarin fimm ár.
Sögulegur árangur ÍRB á Íslandsmeistaramótinu, 21 titill af 44 mögulegum. Hvað liggur að baki svo góðum árangri?
Það er erfitt að segja í stuttu máli en það er góður andi hérna í félaginu, mikil og rík hefð fyrir góðum árangri í sundi. Hér er lögð áhersla á að æfa vel og undirbúa sig vel og það er mikið kapp í þessum krökkum. Þau kunna að taka á því og fara eftir því sem er lagt fyrir þau. Þau eru skipulögð og góðir námsmenn líka, þetta eru rosalega flottir krakkar og til fyrirmyndar í öllu.
Þetta er ungt og upprennandi fólk og ég gleðst ofsalega fyrir þeirra hönd að þau séu að skrifa undir samning við bandarískan háskóla. Ég er reyndar smá svekktur að missa þau á þessum tímapunkti en þau fara náttúrulega ekki fyrr en næsta haust. Þau eiga framtíðina fyrir sér og ég bíð spenntur eftir að sjá hvað gerist næstu fjögur árin hjá þeim því þetta er það sem hefur vantað upp á hjá íslensku sundfólki, það er oft að hætta 20 ára gamalt þegar líkaminn er loksins orðinn fullþroskaður og tilbúinn fyrir alvöru átök og hugurinn einnig orðinn tilbúinn fyrir erfiðari aðstæður og svo framvegis. Ég er því ofsalega spenntur að sjá hvað gerist hjá þeim. Við eigum mörg góð dæmi um sundmenn sem hafa farið til Bandaríkjanna í háskóla og staðið sig gríðarlega vel. Ég gleðst mjög fyrir þeirra hönd að fá skólastyrk því við getum sagt að það séu góð vinnulaun fyrir allt sem þau eru búin að leggja á sig í sundlauginni. Vinnan á bak við allar æfingarnar verður borguð til baka þarna.