Fá afleiðingar umferðarslyss beint í æð
- Sjónvarp Víkurfrétta á fyrirlestri Benna Kalla með nemendum Holtaskóla
Berent Karl Hafsteinsson eða Benni Kalli lenti í alvarlegu mótorhjólaslysi árið 1992 á Akranesi. Hann var að spyrna við félaga sína og var á yfir 200 kílómetra hraða þegar hann missti stjórn á hjólinu.
Í slysinu kastaðist Benni Kalli langar leiðir og hafnaði í grjótgarði og úti í sjó. Í slysinu brotnaði um fimmtungur beina í líkamanum og um tíma var honum vart hugað líf. Hann dvaldi lengi á sjúkrahúsi þar sem meðal annars þurfti að taka vinstri fót hans af rétt neðan við hné.
Þrátt fyrir alvarlega áverka í slysinu þá skaddaðist mæna Benna Kalla ekki og það þakkar hann meðal annars réttum viðbrögðum félaga sinna á vettvangi slyssins. Hann hafnaði úti í sjó með marga brotna hryggjarliði og hálsliði. Félagi hans bjargaði honum frá drukknun en hélt honum í sjónum þar til sjúkraflutningamenn komu á staðinn. Það er talið hafa komið í veg fyrir að Benni Kalli hefði lamast.
Endurhæfing Benna Kalla hefur tekið mörg ár og enn í dag segist hann vera nokkurs konar tilraunadýr varðandi gervifætur og fleira. Þá líður ekki sá dagur sem hann er ekki með verki í líkamanum vegna þeirra áverka sem hann hlaut.
Síðasta áratuginn hefur Benni Kalli miðlað lífsreynslu sinni og verið með umferðarforvarnir fyrir nemendur í 10. bekk í grunnskólum landsins. Þar brýnir hann fyrir unga fólkinu að fara varlega í umferðinni með reynslusögu sinni sem hann styður með fjölmörgum áhrifaríkum ljósmyndum. Benni Kalli hefur m.a. heimsótt 10. bekkinga á Suðurnesjum og hafa þær heimsóknir verið í boði bæði HS Orku og Isavia, sem greiða laun Benna Kalla í átakinu hér suður með sjó.