Eygló dró hátíðarfánann að húni
Eygló Alexandersdóttir dró hátíðarfánann að húni á þjóðhátíðardaginn 17. júní í Keflavík eftir að skátar og lúðrasveitarfólk hafði gengið með hann frá Keflavíkurkirkju að lokinni messu, inn í skrúðgarð samkvæmt gamalli hefð. Þessi viðburður er jafnan upphaf þjóðhátíðardagskrár í Reykjanesbæ.
Fjöldi bæjarbúa mætti í góðu veðri í skrúðgarðinn en Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, kynnti Eygló og sagði frá hennar störfum þegar hún hafði dregið þennan stærsta þjóðfána landsins að húni með hjálp skátafélaga úr Heiðabúum.
Dagskráin var nokkuð hefðbundin og flutti Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, forseti bæjarstjórnar, setningarræðu dagsins. Bryndís María Kjartansdóttir, dúx úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja, flutti ávarp fjallkonu og las ljóðið Hver á sér fegra föðurland. Forseti bæjarstjórnar kynnti síðan útnefningu Listamanns Reykjanesbæjar 2022–2026 en þann heiður féll í skaut Karenar J. Sturlaugsson að þessu sinni. Dagskrá í skrúðgarði lauk með hátíðarræðu dagsins en hana flutti Albert Albertsson, verkfræðingur, hugsuður og starfsmaður Hitaveitu Suðurnesja og HS Orku.
Skemmtidagskrá var síðan í fjórum hverfum bæjarins og einnig í Ungmennagarðinum við 88 húsið þar sem Öllavöllur var vígður. Þá var kaffisala hjá nokkrum félögum og félagasamtökum víða.
Myndasafn frá deginum fylgir í fréttinni.
Karen J. Sturlaugsson, listmaður Reykjanesbæjar 2022-2026 og handhafi fálkaorðunnar.
Bryndís María Kjartansdóttir, dúx úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja, flutti ávarp fjallkonu.
Albert Albertsson flutti hátíðarræðuna.