„Erum með samkeppnishæft lið“ segir Siggi Ingimundar
Loksins, loksins fer körfuboltinn af stað en leikar hefjast með stórleik í Iceland Express-deild karla í kvöld eftir að stúlkurnar riðu á vaðið í gær. Keflvíkingar fara þá í Röstina og mæta Grindvíkingum í fyrsta grannaslag tímabilsins og þar verður vafalaust hart barist. Sigurður Ingimundarson ræddi við Víkurfréttir eftir að kunngerð var spá fyrirliða, þjálfara og formanna deildarinnar á blaðamannafundi í vikunni en þar var Keflvíkingum spáð 5. sæti í vetur.
Tekurðu nokkuð mark á svona spám lengur?
„Nei, ætli það, en það er nú samt skemmtilegt og sýnir kannski stöðuna á liðunum eins og þau standa í dag. Ég man nú ekki í fljótu bragði í hvaða sæti okkur var spáð núna þannig að það sýnir kannski hvað mér finnst um þetta. Þetta gefur mynd af stöðunni í dag en mótið er ekki byrjað,“ segir Sigurður en Keflvíkingum er spáð 5. sæti í deildinni þetta árið.
Hver eru markmið ykkar fyrir tímabilið?
„Við höfum okkar markmið fyrir tímabilið sem vonandi koma í ljós hægt og rólega. En að sjálfsögðu viljum við að okkar lið sé samkeppnishæft og gott og það er það sem við erum að vinna í núna.“
Hvernig finnst þér núverandi leikmannahópur í samanburði við í fyrra?
„Þetta er ekkert líkt þeim hópi og flestir þeirra sem voru hér í fyrra farnir. Það eru komnir nýjir menn inn og þetta er mjög skemmtilegt lið. Meirihlutinn úr drengjaflokk eiga eftir að vera mjög góðir og þetta er flott verkefni að mínu mati.“
Hvernig líst þér á ungu strákana?
„Þeir verða fínir og það er bara vonandi að fólk komi að styðja þá í þessari baráttunni,“ segir Sigurður og honum líst líka nokkuð vel á þá erlendu leikmenn sem komnir eru til Keflvíkinga. „Þeir eru fínir og hafa verið góðir á æfingum. Þeir hafa svo sem lítið spilað en þeir eiga eftir að falla að okkar leik.“
Verða Keflvíkingar samkeppnishæfir í vetur?
„Já það er alveg klárt,“ segir þjálfari Keflvíkinga að lokum.