Fimmtudagur 13. október 2011 kl. 15:47

„Erum með lið til að berjast um titlana“ segir Helgi Jónas

Helgi Jónas Guðfinnsson þjálfari Grindvíkinga segir liðið stefna hátt í ár. Þeir hafa bætt við sig tveimur sterkum útlendingum og landsliðsmennirnir Jóhann Árni Ólafsson og Sigurður Þorsteinsson héldu bak við Þorbjörninn í sumar. Víkurfréttir ræddu við Helga á dögunum en liði hans er spáð 2. sæti í Iceland Express deildinni á komandi tímabili. Í kvöld taka Grindvíkingar svo á móti Keflvíkingum í fyrstu umferð deildarinnar klukkan 19:15.

Bjóstu við því að sjá Grindvíkinga efsta í spánni hjá KKÍ?

„Þetta er svosem það sem ég bjóst við, að okkur yrði spáð þarna uppi en okkur hefur ekkert gengið svo vel á undirbúningstímabilinu þannig að ég bjóst alveg eins við því að sjá okkur neðar á töflunni, en þetta er bara spá,“ segir Helgi Jónas þjálfari Grindvíkinga.

Grindvíkingar hafa styrkt sig gríðarlega síðan í fyrra og fengið inn nýja menn sem munu gegna stóru hlutverki hjá liðinu í vetur. „Það hefur gengið brösulega á undirbúningstímabilinu. Við erum að setja inn nýjan sóknarleik og menn hafa verið frá vegna meiðsla. Þetta er hins vegar að ganga hjá okkur hægt og rólega og allt er á réttri leið. Við erum með lið til þess að berjast um titlana á þessu tímabili og við stefnum hátt, það er engin spurning,“ segir Helgi Jónas en hann viðurkennir þó að margt þurfi að ganga upp svo að sú verði raunin.


Hvernig líst þér á þessa nýju leikmenn sem eru komnir til ykkar?

„Bara mjög vel og ég er gríðarlega sáttur við þá Jóa og Sigga, og svo er Watson nýkominn og annar erlendur leikmaður á leiðinni. Það er ekki spurning að Watson er mikill styrkur fyrir okkur og þetta er leikmaður sem við höfum leitað að, hann hefði reynst okkur vel í fyrra þegar við vorum að eltast við hann,“ sagði Helgi að lokum.