Erlent starfsfólk í glæsilegar vistarverur
– Öll starfsemi Vísis hf. flutt til Grindavíkur og hátækni fiskvinnsla opnuð
„Verkefnið hefur gengið vonum framar og hér hefur verið tekið vel á móti fólkinu. Það fór strax á íslenskunámskeið og allar þær kynningar sem hægt var að bjóða upp á. Þá tók bæjarfélagið vel á móti þessu fólki,“ segir Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf. spurður um hvernig gengið hafi að flytja starfsemi fyrirtækisins til Grindavíkur frá starfsstöðvum á Djúpavogi, Húsavík og Þingeyri. Fjöldi erlendra starfsmanna fyrirtækisins hefur flutt frá þessum stöðum og sest að í Grindavík.
Þegar Vísir hóf starfsemi í haust eftir sumarstopp voru 125 starfsmenn hjá fyrirtækinu í Grindavík en stefnt er á að þeim fjölgi í 150. Í þessari viku fékk starfsfólkið svo nýtt heimili í Grindavík þegar MAR Guesthouse opnaði formlega. Þar eru 18 tveggja manna stúdíóíbúðir og 15 tveggja manna herbergi. Aðstaðan er öll til fyrirmyndar og segist Pétur vera stoltur yfir því að geta boðið starfsfólkinu upp á þessa aðstöðu. Þá hefur fjölskyldufólk sem flutti til Grindavíkur til að starfa hjá Vísi fengið íbúðir í „blokkinni“, hæsta fjölbýlishúsi Grindavíkur sem hefur staðið nær autt við innkomuna í bæinn í nokkur ár.
„Fólk sem er fjarri sínu heimalandi og sínum fjölskyldum er mjög ánægt hér í dag að geta flutt inn í svona glæsilegar vistarverur og það er eiginlega mesta ánægjuefnið í dag,“ segir Pétur.
Húsnæðið sem um ræðir er sögufrægt og á m.a. langan fiskvinnsluferil að baki. Þar hefur verið unninn fiskur, rækja og þar var niðursuðuverksmiðja. Þá var líkamsræktarstöð í húsinu undir það síðasta. Húsið var afhent nýjum eigendum um sjómannadagshelgina og stefnan var sett á að ljúka framkvæmdum 1. september. „Það var mikil bjartsýni en við erum komin inn núna og fólk er mjög ánægt og því ekki hægt að segja annað en að verkefnið hafi gengið mjög vel“.
Með breytingum á rekstri Vísis er gert ráð fyrir að bæjarbúum í Grindavík fjölgi um næstum 100 manns og því mikilvægt að samfélagið í Grindavík taki vel á móti þessum nýju íbúum sem eru að koma langt frá heimahögum.
Rekstri MAR Guesthouse verður háttað þannig að þar verður tvinnuð saman ferðaþjónusta og svo íbúðahald fyrir starfsfólk Vísis. Þegar starfsmenn Vísis fara í frí yfir jól eða í sumarfrí, þá er gert ráð fyrir að hægt sé að leigja út herbergin til ferðaþjónustu. Í raun má segja að starfsmenn Vísis búi þar eingöngu í um 9 mánuði á ári en Vísir lokar vinnslunni hjá sér í þrjá mánuði yfir sumarið. Þá tekur ferðaþjónustan við húsnæðinu. Starfsmenn Vísis hafa hins vegar geymslur í húsinu fyrir það sem þeir vilja geyma hér á meðan þeir fara til síns heima.
Nú er unnið að því að flytja landvinnslu sem Vísir var með á Djúpavogi, Húsavík og Þingeyri til Grindavíkur og það verkefni gengur vel. Miklar breytingar hafa verið gerðar á húsakosti Vísis í Grindavík til að koma hluta vinnslunnar fyrir þar og þá hefur einnig verið opnað nýtt vinnsluhús á hafnarbakkanum í Grindavík þar sem verður fjölþætt hátækni fiskvinnsluhús. Þar verður unninn ferskur, frystur og léttsaltaður fiskur. Pétur segir húsið verða aflmikið hús með mikinn sveigjanleika. Hann segir fyrirtækið vera að bregðast við breyttum markaðsaðstæðum. Vísir er að vinna úr 17.000 tonnum af hráefni á ári en stefnan er sett á 20.000 tonna ársvinnslu í tveimur húsum í Grindavík og gert er ráð fyrir að sú stærðargráða verði komin innan árs. Þrátt fyrir að vinnslan sé öll komin til Grindavíkur þá er hráefninu landað víða um land og því svo ekið til Grindavíkur. Skipstjórarnir sækja á bestu fiskimiðin hverju sinni sem þýðir að um helming ársins er löndunarhöfnin utan Grindavíkur.