Er sameining Keflavíkur og Njarðvíkur möguleg?
Gunnar opnaði pandóruboxið
Gunnar Örlygsson opnaði á umræðu um sameiningu Keflavíkur og Njarðvíkur í eitt íþróttafélag með færslu á Facebook í síðustu viku. Færsla Gunnars hefur fengið mikil viðbrögð og hann ræddi við Víkurfréttir um sínar vangaveltur í þeim málum – kosti og galla sameiningar.
„Í fyrsta lagi er þetta búið að vera svolítið áberandi umræða í bæjarfélaginu, ég held að allir geti tekið undir það,“ segir Gunnar í upphafi samtalsins. „Ég ákvað að opna umræðuna á fésbókinni þannig að menn sæju á prenti að verið væri að ræða þetta almennt. Ég tók ekki neina persónulega afstöðu heldur vildi ég leita til vina minna á fésbókinni og fá að vita hvaða hug þeir bera til þess að íþróttafélögin verði sameinuð. Það er eins og ég hafi opnað eitthvað pandórubox því það fór allt af stað og margar athugasemdir komnar fram, allar hafa sitt gildi. Það sem ég hef tekið eftir er að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem leggja orð í belg eru á því að það eigi að sameina félögin.“
Gunnar, sem var stjórnarmaður í Njarðvík til margra ára, segist gera sér fulla grein fyrir rekstrarlegum áhrifum þess að sameina félögin. „Samlegðaráhrifin yrðu mikil, þetta er brothætt starf í dag.“ Hann bendir á að það eru fáir sem koma að starfinu í dag, allt sjálfboðaliðar, og það þurfi að safna fé með því að halda marga viðburði. „Þetta er tímafrekt. Þetta er allt fólk í vinnu, þetta er fjölskyldufólk, og ég tek hattinn ofan fyrir öllu þessu fólki sem ár eftir ár hefur staðið vaktina en þetta eru ansi margar klukkustundir sem þau leggja í verkið – en í sameinuðu félagi eru kannski helmingi fleiri um sama verkið.“
Stærra félag líklegra til afreka
Rekstur íþróttafélaga sem vill vera í fremstu röð er stöðugt að verða kostnaðarsamari og Gunnar segir að allir séu að bítast um sömu krónurnar þegar kemur að styrkjum fyrirtækja; þar fyrir utan þarf að halda stóra viðburði, standa í söfnunum og þá þarf að manna umgjörð leikja.
„Ég held líka að þetta sé svolítið flókin staða fyrir bæjarfélagið. Hvernig á að koma að starfinu, að vera með tvo stóra, sögufræga klúbba fyrir framan sig – bæði þegar kemur að uppbyggingu mannvirkja, hvort sem það er fótbolti, körfubolti eða aðrar greinar.“
Gunnar tekur fram að stærra félag sé líklegra til afreka eins og staðan er í dag. Hann bendir á að samkeppnin um góða leikmenn sé orðin það mikil að félögin eru að missa leikmenn frá sér. „Það er meiri peningur í þessu en fyrir tuttugu árum þegar ég var sjálfur að spila og ég skil þessa ungu menn sem eru komnir með unga fjölskyldu, að þeir elti aurinn og hugsi um sína framtíð. Það er bara eðlilegt og ábyrgt fyrir þá gagnvart sinni fjölskyldu.
Menn tala um þennan gamla ungmennafélagsanda – hann er ennþá til, bara ekki í sömu mynd og áður.“
Þarf að vanda til verka
Gunnar segir að það þurfi að virða allar skoðanir og vanda til verka ef til þess kæmi að fara þá leið að sameina félögin. „Ef það er samhugur í bæjarfélaginu, ef það er yfirgnæfandi meirihluti sem vill gera það, þá þarf að horfa til allra þátta. Það þarf að horfa til sögunnar hjá klúbbunum og yngri flokkana. Ég þekki aðeins til sögunnar í Vestmannaeyjum. Þar byrjuðu menn á að sameina meistaraflokkana, allt annað var óbreytt. Það einfaldaði samt reksturinn gríðarlega.
Ef við horfum á körfuknattleiksdeildirnar hér, báðar með karla- og kvennalið í efstu deild. Þannig að við erum með fjögur lið í efstu deild, það er mikið af erlendum leikmönnum að koma inn til að halda þessum stalli – að vera í efstu deild. Þetta er þungt þegar kemur að húsnæði, bílum og öðru slíku. Þetta myndi náttúrlega nærri helmingast og hafa gríðarleg áhrif á rekstur deildanna.“
Gunnar segist ekki hafa komið jafn mikið að rekstri knattspyrnudeildanna en fyrirtæki hans hefur styrkt þær jafnt og aðrar deildir í gegnum árin. „Auðvitað er það sama uppi á teningnum þar þegar kemur að rekstrarlegum forsendum.“
Viljum við fóðra önnur félög í landinu á frábærum leikmönnum?
„Ef við horfum t.a.m. á krakkana. Það er fullt af krökkum sem vilja taka þátt í íþróttum, og við viljum að sem flestir taki þátt í íþróttum, en það er kannski ákveðinn hópur sem vill ná virkilega langt. Þá komum við að afreksstefnunni, það þarf kannski aðeins öðruvísi umgjörð í kringum þá krakka. Hérna erum við með krakka sem vilja ná langt og hafa kannski burði til þess en við myndum aldrei láta það bitna á þeim sem vilja taka þátt í íþróttaiðkun og njóta samverunnar, félagsskaparins og þess heilbrigðis sem fylgir því að stunda íþróttir. Það er hægt að halda utan um þetta allt saman með markvissri stefnu – og það er auðveldara að gera það saman í sama bæjarfélagi heldur en í sitthvoru lagi.“
Gunnar bendir á að í Reykjanesbæ búi rétt rúmlega tuttugu þúsund manns og þar sé hátt hlutfall innflytjenda. Hann spyr hvort hægt sé að gera eitthvað átak til að virkja þá til íþróttaiðkunar. „Að börn innflytjenda á Íslandi verði mjög virk í íþróttastarfi, ég held að það séu tækifæri þar.“
„Þarna kemur bærinn svolítið að þessu öllu saman að mínu mati. Þó að bærinn segi að þetta sé íþróttafélaganna að ákveða, sem er rétt, þá held ég að það sé metnaður hjá bæjarfélaginu að taka af skarið í þessu máli og jafnvel koma saman fólki frá báðum félögunum, einhverri nefnd, til þess að ræða kosti og galla sameiningar. Svo í kjölfarið væri hægt að gera könnun meðal íbúa til málsins.“
Verðum að spyrja bæjarbúa
Gunnar segir að mörg sjónarmið séu að koma fram í kringum þessa umræðu. „Einn góður maður sagði við mig að þetta væri afleit hugmynd. Hann sagði að við ættum frekar að vera með tvö lið í neðri deildunum og einbeita okkur að yngri flokka starfinu. Það er alveg gild skoðun en hvað verður? Reykjanesbær verður svona útungunarstöð fyrir frábæra leikmenn sem fara annað. Við verðum bara að spyrja bæjarbúa að því hvort það sé það sem við viljum. Viljum við eingöngu vera með frábært yngri flokka starf og fóðra önnur félög í landinu á frábærum leikmönnum? Því við getum ekki keppt um þessa leikmenn þegar þeir eru komnir á meistaraflokksstig, þetta er alveg gild hugmynd. Eða viljum við ná utan um hvorutveggja, vera með frábæra afreksstefnu, halda utan um yngri flokka starfið þannig að jafnvel fleiri iðkendur komi inn en líka verið með frábæra meistaraflokka og afreksstefnu og metnað til að ná titlum fyrir bæjarfélagið? Ef ég ætlaði að vera algjörlega eigingjarn í þessari umræðu þá myndi ég segja; á rekstrarlegu forsendunum er þetta betra. Sameinum félögin, þetta er bara vitleysa. Minnugur þess þegar ég var að alast upp og titlarnir voru að hrannast upp í kringum 1980 og uppúr. Þá var ég tíu ára strákur í körfuboltanum í Njarðvík. Þetta var stórkostleg upplifun. Langar mig að upplifa þetta aftur? Já, mig langar að upplifa þetta aftur,“ sagði Gunnar en lengra og ítarlegra viðtal við hann er í Sjónvarpi Víkurfrétta.