Fimmtudagur 6. maí 2010 kl. 10:38

Er ekki sjálfstæðismaður í Vinstri grænum

Gunnar Marel Eggertsson leiðir framboðslista Vinstri grænna í Reykjanesbæ fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Framboð hans virðist hafa komið mörgum á óvart bæði vegna þess að hann hefur hingað til ekki verið áberandi á pólitískum vettvangi og á hinn bóginn virðast margir hafa haldið að hann væri allt annað en vinstri maður. Við spurðum Gunnar nánar út í það.

„Ég hef ekki haft mikinn tíma fram að þessu til að hugsa um pólitík. Að mestu leyti hef ég verið ópólitískur allt mitt líf. Ég er alinn upp af miklum vinstri mönnum en afi minn og faðir voru hryggjarstykkið í Alþýðubandalaginu í Vestmannaeyjum þannig að maður hafði þessar hugsjónir fyrir eyrum. Í móðurættina var afi minn sjálfstæðismaður þannig að maður hafði þverskurð af vinstri og hægri öflum,“ segir Gunnar Marel um pólitískan bakgrunn sinn.



En var eitthvað sérstakt sem varð til þess að hann ákvað að fara í framboð núna?


„Það var mikill þrýstingur og ég sagði nei alveg fram á síðasta dag. En þó get ég ekki neitað því að öðru hvoru hefur það dúkkað upp í kollinn að ráðast fram. En það er ekki fyrr en núna sem mér finnst vera einhver tími til þess…og eins og þjóðfélagið er í dag þá fannst mér ég ekki geta skorast undan að reyna að gera eitthvað til að bæta samfélagið,“ segir Gunnar.

Framboð hans virðist hafa komið mörgum á óvart, eins og áður segir, því einhverja hluta vegna virðist fólk hafa álitið Gunnar grjótharðan sjálfstæðismann. Hann segir það „algjörlega út í hött“ eins og hann orðar það sjálfur. Kvittur um frændsemi hans og Árna Sigfússonar, bæjarstjóra, virðist hafa rennt stoðum undir þessar ályktanir. Það er hins vegar misskilningur að þessir tveir ágætu menn séu frændur.

„Þessi saga um frændsemi okkar Árna var búin til fyrir um 15 árum af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Sagan hefur verið lífsseig en við Árni erum nákvæmlega ekkert skyldir. Hins vegar erum við Ingibjörg náskyld,“ svarar Gunnar.


Hvað ætla Vinstri grænir að leggja upp með í kosningabaráttuna?


„Við ætlum að leggja upp með heiðarleika og bjartsýni. Að tekið verði á málum með festu og gagnsæi. Okkur finnst hafa vantað töluvert upp á það…Vinstri grænir er eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi sem getur sagt að hann hafi staðið fyrir utan spillinguna eins og hún gerðist fyrir hrun.“