Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 12. apríl 2021 kl. 10:34

Endalaus ljósmyndatækifæri og gígarnir breytast daglega - nýtt drónavideo frá gosinu

„Gígarnir breytast dag frá degi og sömuleiðis hraunflæðið frá þeim, jafnvel miklar breytingar með nokkurra mínútna millibili. Það er ótrúlega gaman að hafa svona náttúru ævintýri í bakgarðinum hjá sér,“ segir Jón Hilmarsson, ljósmyndari en hann hefur verið á gosvakt fyrir Víkurfréttir frá fyrsta degi og búinn að fara mörgum sinnum á gosstöðvar.

„Í gær (10. apríl) var hraunflæðið frá gíg nr. 2 í áttina að Geldingadölum. Aðfaranótt laugardagsins opnaðist nýr gígur ekki langt frá gíg nr. 2. Hann er heldur minni en er samt áhugaverð viðbót við gígaröðina sem er orðin núna nokkur hundruð metra löng.

Þetta myndskeið er tekið með dróna af gígnum sem myndaðist annan í páskum. Í þetta sinn var farið aðeins nær gígnum og reynt að ná þeim krafti sem náttúruna er að leysa úr læðingi í Fagradalsfjalli.

Landslagið er síbreytilegt eftir því hvernig virknin er og gosið hegðar sér, hraunstraumar breyta um farveg á skammri stundu og bjóða upp á endalaus ljósmyndatækifæri,“ segir Jón.