Eldur í fjölbýlishúsi í Reykjanesbæ - og reykræsting á Ásbrú
Eldur kom upp í sameign fjölbýlishúss við Tjarnabraut í Innri Njarðvík í kvöld. Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var kallað út ásamt lögreglu og sjúkraliði. Mikill hiti var í sameigninni en eldur var logandi í hægindastól sem þar var. Rúður höfðu m.a. sprungið vegna hitans.
Eldurinn var fljótlega slökktur og síðan var húsið reykræst. Reykur komst inn í íbúðir í húsinu og þykkur svartur reykur kom út um glugga á þriðju hæð þegar reykræsting hússins hófst.
Ekki er vitað hvort um íkveikju af ásetningi var að ræða eða hvort að glóð frá sígarettu hafi kveikt eldinn. Rannsóknardeild lögreglunnar fer með málið.
Slökkviliði hafði nýlokið störfum á Tjarnabrautinni þegar það var kallað að fjölbýlishúsi að Ásbrú. Þar þurfti að reykræsta eftir að eldamennska hafði farið úr böndunum.
Meðfylgjandi myndband var tekið í útkallinu á Tjarnabraut fyrr í kvöld.
VF-mynd: Hilmar Bragi