Eldfjallið heldur björgunarsveitinni í bænum
Þorbjörn og Þórkatla eru Suðurnesjamenn ársins 2021
Víkurfréttir hafa valið félaga í Björgunarsveitinni Þorbirni og Slysavarnadeildinni Þórkötlu í Grindavík Suðurnesjamenn ársins 2021 fyrir fórnfúst starf í Grindavík í aðdraganda eldgossins í Fagradalsfjalli og fyrir þá vinnu sem fram fór á meðan gaus.
Mikið hefur mætt á björgunarsveitarfólki í Grindavík allt síðasta ár og í raun lengur, því atburðarásin hófst í raun í lok janúar 2020 þegar land tók að rísa vestan við fjallið Þorbjörn, skammt frá byggðinni í Grindavík. Þá var lýst yfir óvissustigi Almannavarna.
Björgunarsveitin Þorbjörn var þegar virkjuð og í hönd fór fimmtán mánaða vinna í aðdraganda eldgoss. Frá því eldurinn braust upp á yfirborðið hefur vinnan svo margfaldast hjá björgunarsveitarfólkinu í Grindavík og bakvarðasveit þeirra, Slysavarnadeildinni Þórkötlu.
Í viðtali við Sjónvarp Víkurfrétta lýsir Bogi Adolfsson formaður björgunarsveitarinnar því að eldfjallið haldi í raun björgunarsveitinni í bænum.
Víkurfréttir hittu þau Boga Adolfsson, Otta Rafn Sigmarsson og Guðrúnu Kristínu Einarsdóttur að máli í björgunarstöðinni í Grindavík þar sem þau fengu blómvendi frá Víkurfréttum og ræddu starfið í sínum deildum. Bogi er formaður í Þorbirni, Guðrún Kristín fer fyrir Þórkötlu og Otti Rafn er björgunarsveitarmaður úr Þorbirni og var á síðasta ári kjörinn formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Þörfin fyrir að hjálpa til
Til hamingju með útnefninguna. Þið eruð almennt ekki að fá mikið af viðurkenningum nema að viðurkenningin felst bara í að fá að vera í björgunarsveit, er það ekki?
Bogi: „Það er fyrst og fremst markmið björgunarsveitarmannsins að vera partur af þjóðfélaginu og vinna fyrir það – en það er alltaf gaman að fá hrósið.“
Hvað fær menn til að ganga í björgunarsveit frekar en að fara t.d. í golf eða fótbolta?
Otti: „Ætli það sé ekki fyrst og fremst þessi þörf fyrir að bara að hjálpa til og gera eitthvað. Vera úti og taka þátt í félagsstarfi, almennu félagsstarfi, en svo verður þetta stundum kannski svolítið meira en bara félagsstarf.“
Þið eruð með flottar græjur hérna í björgunarstöðinni.
Bogi: „Þetta er ævintýramennskan líka. Þetta er spennandi, það verður aldrei tekið af þessu. Við erum að gera hluti sem er venjulega ekki verið að gera og fólki finnst það spennandi. Svo vill það bara prófa og sjá hvað það getur og hvað það getur lagt af mörkum. Það geta allir gert sitt gagn í þessu starfi og fundið sitt hlutverk.“
Er þetta það stærsta sem þið hafið tekist á hendur, að fá eldgosið hér í bakgarðinum ykkar í Grindavík?
Bogi: „Ég ætla að vona það og ætla að vona að verði ekki eitthvað stærra. Jú, þetta er náttúrlega stærsta verkefni sveitarinnar, held ég, bara frá upphafi. Sveitin á sína sögu og er vel þekkt fyrir vissa hluti, eins og fluglínutæki og annað, en þetta er án efa stærsta einstaka verkefnið.“
Nánast beðið eftir gosi
Það voru búnar að vera jarðhræringar í meira en ár áður en það fór að gjósa. Voru þið vel undirbúin?
Otti: „Við segjum það oft að við vorum mjög vel undirbúin og það var allt klárt, það vantaði ekki, og það var nánast beðið eftir gosi. Það sem við áttuðum okkur ekki alveg á var allt fólkið sem kom að heimsækja svæðið. Það var það sem skapaði vandamálin, allur þessi fólksfjöldi. Annars vorum við klár í eiginlega hvað sem var.“
Bogi: „Ég held að það sé hægt að undirstrika allt fólkið, ég held að allir hafi komið, en við unnum þetta bara fínt.“
Þeir félagar áttu kannski ekki von á því að þetta myndi vekja svona mikinn áhuga og að það kæmu svona margir.
Bogi: „Ég held við höfum bara ekki fattað hvað þetta var nálægt okkur. Það hafi verið stærsta vandamálið hjá okkur sjálfum, að kveikja á perunni að eldgosið var í bakgarðinum hjá okkur. Þar af leiðandi var stutt fyrir alla að fara.“
Otti: „Já, þó að þetta séu náttúruhamfarir þá voru þetta engar svakalegar hamfarir með ösku eða einhvers konar flóði eða eitthvað slíkt. Þetta var svona hentugt gos, þokkalega aðgengilegt og það var kannski staða sem við vorum ekkert að spá í fyrir gos.“
Það hefur komið fram að eldgosið var mest sótti staðurinn á Íslandi á síðasta ári, með hundruð þúsunda heimsókna og Ísland hefur verið vinsælt síðasta áratuginn.
Otti: „Við þökkum fyrir það að þegar byrjaði að gjósa, 19. mars 2021, voru bara örfáir ferðamenn á landinu. Það gerði það að verkum að það var náttúrlega mikið af Íslendingum til að byrja með og svo breyttist það yfir í erlenda ferðamenn sem voru að koma til landsins. Ef þetta hefði gerst á sama tíma a 2019, þá veit ég ekki hvernig þetta hefði farið.“
Covid hélt aftur af erlendum ferðamönnum í upphafi goss
Þeir félagar Bogi og Otti segjast lítið geta þakkað Covid í starfi björgunarsveitarinnar, þar sem veiran hefur haft mikil áhrif á félagsstarfið innan sveitarinnar. Þeir þakka þó að Covid hélt aftur af erlendum ferðamönnum í upphafi gossins og að það kæmu upp stór vandamál.
Lentuð þið í skrítnum uppákomum með fólk í fjallinu?
Bogi: „Já, það var nóg til af því en það voru líka mörg skemmtileg augnablik með fólki sem við þekktum ekki neitt uppi í fjallinu og fólk var almennt bara kurteist við okkur. Það skemmtilegasta við þetta voru afbrigðilegheitin og tengslin sem maður var að mynda við þjóðfélagið. Við vorum að kynnast Íslandi, maður fyrir mann.“
Málaði sjálfsmynd í geimbúningi og flaug henni í gíginn
Otti: „Það er líka eitt sem er gaman að segja frá. Það kom ungur maður frá Bretlandi. Hann dröslaði þarna upp að gosstöðvunum trönum, stórum spegli, striga og ramma. Hann stillti sér upp fyrir framan spegilinn í geimbúningi með kúlu á hausnum þrjá daga í röð. Hann horfði í spegilinn og málaði sjálfsmynd af sér við gosið. Þegar hann hafði lokið við myndina var hún rifin niður og sett á dróna sem hann flaug svo í gíginn. Þetta var örugglega einhver gjörningur hjá honum.“
Það var töluverð vinna hjá björgunarsveitarfólki að sækja fólk sem var að slasa sig við eldstöðvarnar. Þeir félagar segja að enginn hafi þó slasað sig lífshættulega. Eitt tilfelli hjartaáfalls hafi komið upp en sá einstaklingur var ótrúlega heppinn hvar hann var staddur þegar það gerðist. Annars voru engin alvarleg meiðsl þó svo það hafi verið nokkur ljót beinbrot. Þeir segja að á tímabili hafi verið röð útkalla á sömu slóðir en í samráði við aðila sem málið varðaði var farið í að laga aðstæður. Með því að laga göngustíga, bæta merkingar og með áróðri í fjölmiðlum þá lagaðist ástandið. Þeir rifja upp að í byrjun ágúst hafi þeir farið í sautján útköll á tólf dögum á sama staðinn þar sem fólk var að brotna illa. Það reyndi aðeins á mannskapinn en gönguleiðin var lagfærð og þá hættu slysin.“
Bogi: „Helsta vandamálið var að eldgosið hélt alltaf áfram og hraun var að renna yfir það sem við vorum búin að gera og laga. Hægt og rólega tók það af okkur aðgengi og gönguleiðir og við þurftum alltaf að vera að vinna með það líka.“
Í dag eru tvær gönguleiðir í boði. Gamla A-leiðin og svo C-leiðin. Önnur er í návígi við hraunið en hin býður upp á meiri yfirsýn. Þeir Bogi og Otti segja þetta skemmtilegt útivistarsvæði til framtíðar.
Gerðuð þið ykkur fljótlega ljóst að Björgunarsveitin Þorbjörn gæti ekki sinnt þessu verkefni ein og óstudd?
Otti: „Það sem við áttuðum okkur fljótt á, eftir stóra íbúafundinn í janúar 2020 sem haldinn var íþróttahúsinu, var það að ef það færi að gjósa hér við byggðina þá gerðum við ekki neitt nema að koma okkar fólki í burtu og sinna eigin fjölskyldum. Það var alveg ljóst frá fyrstu skrefum að við þyrftum að fá einhverja með okkur í lið.“
Börgunarsveitarfólk á Suðurnesjum var öflugast í að aðstoða félaga sína í Grindavík í eldgosinu á síðasta ári en auk þess voru að koma hópar björgunarsveitarfólks af öllu landinu til aðstoðar í Grindavík. Vel á annað þúsund björgunarsveitarfólks hefur komið að verkefninu.
Bogi: „Þetta er það sem björgunarsveitirnar gera. Við svörum bara kallinu, hvaða sem það kemur.“
Gekk allt eins og smurt
Bogi segir að stjórnkerfið hjá björgunarsveitunum sé það þróað í dag að allt hafi gengið smurt þegar kom að skipulagi vegna eldsumbrotanna. Björgunarsveitirnar eru með svæðisstjórnir og það skipulag var virkjað strax í upphafi goss og það stjórnkerfi tók yfir alla skipulagsvinnuna.
Voru þetta vaktir allan sólarhringinn á tímabili?
Otti: „Fyrstu dagana vorum við með meira en eitt hundrað manns á ferðinni á sólarhring. Suðurstrandarvegurinn lokaðist skömmu fyrir gosið í sterkum jarðskjálfta og það gerði þetta miklu flóknara og umferðin færðist nær bænum. Fólk þurfti að ganga lengra og það voru engin bílastæði. Fyrsti tvær vikurnar í gosinu voru krítískar með þetta að gera.“
Bogi: „Það lagaðist svo mikið eftir að umferðin komst aftur á Suðurstrandarveginn og þá tók að draga úr öngþveitinu í bænum.“
Björgunarsveit þarf mikið af tækjum og tólum – og hvernig eignist þið þetta allt saman?
Bogi: „Það er bæjarfélagið og fyrirtækin í kringum okkur sem sjá til þess að við erum starfhæf.“
Otti: „Það er þessi velvild í samfélaginu sem skiptir máli. Við seljum flugelda og við seljum Neyðarkallinn og það er það sem færir okkur tekjur til að kaupa tæki og tól. Björgunarsveitarmenn þurfa að kaupa gallann og hjálminn sinn sjálfir og það er töluverður útlagður kostnaður í því. Í eldgosinu kom það sem við gerðum ekki ráð fyrir í ljós en það var þetta gríðarlega álag á tækjabúnað og fatnað. Þegar við vorum búnir að vera í eldgosinu í mánuð voru allir skór búnir hjá félagsmönnum og þá þurfti sveitin að fara að kaupa skó handa öllum. Búnaður í bílum slitnaði líka og þetta tók vel á.“
Bogi: „Viðhald á tækjum jókst. Sem dæmi þá fóru fimm loftdælur í kringum jeppana okkar, nýlegur jeppi er á öðrum dekkjagangi frá því að gosið hófst.“
Viljum verðlauna okkar fólk
Þegar þið horfið til baka á þetta tæpa ár frá því gosið hófst, hafið þið hugsað hvort það væri eitthvað sem þið vilduð hafa gert öðruvísi?
Bogi: „Eina sem ég vildi hafa geta gert betur í þessu starfi er að vera laus við þetta Covid-ástand og geta þá verðlaunað fólkið í sveitinni betur fyrir sína vinnu og haft einhverja hittinga eða pepp. Við höfum þurft að bíta í það súra epli að geta ekki haft félagsstarfið 100%.“
Otti: „Við höfum stefnt að því að gera eitthvað fyrir okkar fólk frá því í haust en það eru alltaf einhverjar takmarkanir og við viljum ekki setja sveitina í hættu.“
Bogi segir að eldgosinu hafi hálfpartinn verið aflýst seint á síðasta ári en fljótlega sett aftur á dagskrá, þannig að það megi segja að það sé hangandi yfir björgunarsveitinni að það geti mögulega gosið aftur.
Bogi: „Það má segja að eldfjallið haldi okkur í gíslingu og svo er Covid ofan á það. Það er erfitt að reyna að hrósa mannskapnum í þessu ástandi eins og staðan er í dag. Við getum gert það í orðum eins og staðan er núna en þetta fólk sem er að vinna hér hefur lagt á sig alveg hellings óeigingjarnt starf og á alveg skilið vel hrós fyrir það.“
Það eru karlar og konur í björgunarsveitinni og svo eru þið með bakvarðasveit sem er Þórkatla, slysavarnadeildin ykkar, og það þarf að fæða þennan mannskap þegar hann er að störfum.
Bogi: „Sem þær gerðu af einskærri snilld. Það má ekki gleyma að þakka þeim fyrir það. Það er félagsstarf hjá þeim og það þarf að takmarka umgengni um húsið vegna Covid.“
Otti: „Það er þetta sem skiptir máli. Þegar það byrjaði að gjósa og við förum úr húsi að vesenast í þessu þá líður bara örstuttur tími þar til það eru komnar fleiri björgunarsveitir að hjálpa okkur. Þegar við komum til baka þá er bara búið að elda ofan í mannskapinn, allt orðið hreint og fínt hérna og tekið vel á móti okkur í húsinu. Svo fór maður heim og hvíldi sig. Svo komu næstu dagar og þetta var alltaf eins, konurnar í Þórkötlu voru alltaf klárar að taka á móti okkur. Þær eru alveg geggjaðar og frábærar.“
Bogi: „Það er ekki hægt að lýsa því hvað þetta er þægilegt.“
Nóg um að vera á nýju ári
Það er ekki alltaf eldgos. Þið voruð rétt búnir að loka flugeldasölunni í upphafi árs 2022 þegar veðurguðirnir létu til sín taka og það varð mikið flóð hér á hafnarsvæðinu.
Bogi: „Já, já. Þetta verður hérna við við dyrnar hjá okkur. Það heldur áfram að taka á móti okkur árið, það byrjar vel.“
Otti: „Já, árið er nýbyrjað en það er þegar komið nokkuð af útköllum hjá okkur og sveitum víða um landið. Tilfinningin er eins og það séu meiri öfgar í veðrinu en það er allavega nóg um að vera og nóg af verkefnum.“
Bogi: „Það eru tvö ár síðan það voru svona flóð síðast en vanalega er lengra á milli svona hamfara.“
Grindavíkurbær og fyrirtækin hér í Grindavík hugsa hlýtt til ykkar?
Bogi: „Já, þau hafa alltaf gert það og verið rosalega góðir bakhjarlar. Verkalýðsfélögin, bæjarfélagið og sjávarútvegsfyrirtækin. Við kunnum alveg óendanlega að meta þetta.“
Otti: „Vandamálið núna er að það er líklegt að eitthvað gerist aftur. Það er fólk að þvælast þarna uppfrá. Á gamlársdag fórum við í útkall þarna uppeftir þar sem fólk hafði labbað yfir nýtt hraunið. Og hvað svo? Hvar endar þetta? Það er enginn alvarlega slasaður eða látinn hingað til en það getur verið stutt í að eitthvað gerist.“
Bogi: „Þetta er heitt svæði og ef að það fer eitthvað af stað þarna, þá er munurinn á því núna og síðast sá að í byrjun var ekkert fólk á staðnum. Núna er fólk á staðnum. Það gerir það mun erfiðara fyrir okkur að ætla að rýma svæðið. Eldgosið tók af okkur fullt af akstursleiðum. Þetta er stærsta áskorunin ef þetta gerist aftur.“
Eruð þið með annað plan ef það fer að gjósa aftur?
Bogi: „Það heitir að gera sitt besta. Við erum að fylgjast með ferðum fólks um svæðið. Eins og traffíkin er núna þá fer vonandi að gjósa fyrir níu að morgni eða eftir klukkan fjögur síðdegis.“
Otti: „Ef það fer að gjósa aftur, þá vonandi gerist það bara á sama stað. Þá er þetta þægilegra að eiga við það en þetta verður alltaf áskorun. Eins og Bogi segir, þá erum við að gera okkar besta.“
Bogi: „Við getum sagt að það yrði rosalega tillitsamt af eldgosinu að byrja á sama stað fyrst við settum gönguleiðir þarna.“
„Stöndum alltaf saman þegar eitthvað kemur upp á“
– segir Guðrún Kristín Einarsdóttir, formaður Slysavarnadeildarinnar Þórkötlu.
Slysavarnadeildin Þórkatla í Grindavík er nokkurs konar bak-varðasveit björgunarsveitarinnar Þorbjarnar. Helsta verkefni Þórkötlu í gegnum tíðina hefur verið að afla fjár fyrir björgunarsveitina Þorbjörn auk þess að sjá um slysavarnir í Grindavík. Það eru konur sem skipa Þórkötlu, sú yngsta er 21 árs og sú elsta á tíræðisaldri. Guðrún Kristín Einarsdóttir, Gunna Stína, er formaður Slysavarnadeildarinnar Þórkötlu í Grindavík.
Hvað gerðu konurnar í Þórkötlu þegar það fór að gjósa við Grindavík?
„Þá sáum við um að gefa öllu björgunarsveitarfólki, lögreglu og öðrum sem komu að þessu að borða. Við vorum með vakt nánast allan sólarhringinn – að sjá um mat, taka á móti mat og elda, þetta snerist nánast allt um mat. Ég hef sagt að það hafi bara nánast opnað mötuneyti hér í björgunarstöðinni sama dag og eldgosið hófst. Við vorum með mötuneyti hér á efri hæðinni í björgunarstöðinni og veit að það voru nokkrir sem slepptu því að fara heim að borða og voru bara í mat hjá okkur, það var svo vinsælt.“
Langar vaktir
Gunna Stína segir að vaktirnar hafi verið langar. Þórkötlur voru mættar fyrir níu á morgnana og fóru heim undir miðnætti. Þær sáu til þess að það væri alltaf nægur matur og að mannskapurinn gæti einnig fengið sér að borða á nóttunni, því það var vakt í húsinu allan sólarhringinn vegna gossins.
„Við sáum til þess að það væri alltaf til nóg af mat, kaffi og brauði – og svo heitur matur. Það var alltaf heitur matur í hádeginu og á kvöldin. Við sluppum mestmegnis við að elda sjálfar og fengum mikla aðstoð, bæði frá fyrirtækjum og einstaklingum í bænum og öðrum deildum í kringum okkur sem stóðum líka vaktina með okkur.“
Slysavarnardeildirnar í Reykjavík og Reykjanesbæ sáu m.a. um að elda mat sem svo var borinn fram í björgunarstöðinni í Grindavík. Gunna Stína er þakklát fyrir aðstoðina og segir að þær í Þórkötlu hefðu ekki getað gert þetta einar. Þá fékk Þórkatla góðan stuðning frá slysavarnadeildum víðsvegar að af landinu sem lögðu inn fjárframlög. Það hafi bjargað miklu en Gunna Stína segir að slysavarnadeildin Þórkatla standi mjög vel fjárhagslega og það sé bæjarbúum og fyrirtækjum í Grindavík að þakka sem hafa stutt starfið í gegnum tíðina.
6.000 pulsum sporðrennt í eldgosinu
Pulsur eru það vinsælasta sem Þórkatla býður upp á. Á gosvaktinni sporðrenndi björgunarsveitarfólk um 3.000 pulsum og þegar Ellubúð, sölugámur Þórkötlu, var opinn í maímánuði við gönguleiðina að eldgosinu þá keyptu ferðamenn annað eins magn af pulsum. Ferðamenn voru einnig duglegir að koma í gáminn og styðja við starfið með fjárframlögum án þess að kaupa nokkuð. Sölugámurinn var ekki opinn í allt sumar og segir Gunna Stína ástæðuna þá að erfitt hafi verið að manna sölustörfin, enda nóg hjá Þórkötlukonum að gera í mötuneytinu í björgunarstöðinni.
Í mötuneyti björgunarsveitarmanna var alltaf tvíréttað í heitum mat, þannig að þar voru pulsur og svo annar heitur réttur. Flestir fengu sér pulsu í forrétt og svo aðalrétt. Pulsupotturinn er reyndar alltaf til staðar í björgunarstöðinni þannig að björgunarsveitarfólk getur alltaf gripið í pulsur.
Ein helsta fjáröflun Slysavarnadeildarinnar Þórkötlu er rekstur Ellubúðar, sem er sölugámur sem settur er upp á Sjóaranum síkáta. Þar er seldur ýmiskonar varningur og einnig sykurflos, poppkorn og sælgæti. Nú hefur Sjóarinn síkáti ekki verið haldinn síðustu tvö ár og þannig hefur Þórkatla orðið af tekjum. Gunna Stína segir að það hafi hjálpað að deildin stóð vel. Hún hefur alltaf getað staðið við bakið á björgunarsveitinni og mun sjá til þess að það verði áfram.
Ganga að stuðningi vísum
Þið eruð að vinna gott starf hérna hjá björgunarsveitinni og slysavarnadeildinni í þessu 3.500 manna samfélagi sem Grindavíkurbær er. Finnur þú samstöðuna í samfélaginu um þetta starf ykkar?
„Já og við höfum séð það í gegnum tíðina, í öll þessi ár sem ég hef verið að starfa í þessu, að í öllum fjáröflunum hefur alltaf verið stutt vel við bakið á okkur. Við höfum alltaf getað gengið að því vísu að fyrirtækin styrki okkur. Svo sýndi það sig í gosinu að bæði einstaklingar og fyrirtæki voru að koma hingað með mat til okkar. Það er bara þannig að við stöndum alltaf saman þegar eitthvað kemur upp á.“
Hvernig upplifir þú tilfinningu bæjarbúa fyrir þessum jarðhræringum og eldgosi?
„Þetta er náttúrlega búið að vera erfiður tími fyrir suma, í kringum mig eru sumir orðnir hræddir við þetta – en það bara þannig að við búum á svona svæði og verðum náttúrlega bara að standa og lifa með því. Þetta er erfitt fyrir suma.“
(Myndir úr einkasafni Björgunarsveitarinnar Þorbjörns.)