Ekki til nægt rafmagn fyrir gagnaver
-Verðum af tækifærum vegna skorts á rafmagni, - segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku
„Núna er mikill skortur á rafmagni. Hann birtist fyrst og fremst á sviði gagnavera. Þau vilja meira rafmagn. Gagnaver hafa vaxið í landinu. Ekki kannski eins mikið og einu sinni var spáð en þau hafa vaxið töluvert og nota í dag nokkra tugi megavatta í landinu. Við erum að selja hluta af því. Við erum því miður mjög oft og iðulega að segja: „Nei, því miður“ við gagnaverin. „Við eigum ekki rafmagn fyrir ykkur“. Þá fara þau með sín viðskipti eitthvað annað, til annarra landa. Við verðum af tækifærum út af þessu, segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku en hann segir orkuþörf landsins mikilvægt mál.
Vantar á annað hundrað megavött
Orkuþörf landsins er afar mikilvægt mál. Í endurútgefinni raforkuspá sem var frá 2015 og kom út núna í sumar er talið að á næstu árum, nokkrum árum, inn á næsta áratug, þá þurfi almenni markaðurinn sem við köllum, það er að segja heimili og allt svona hefðbundið atvinnulíf án stórnotenda, á annað hundrað megavött í viðbót inn á næsta áratug.
Þessi orka er ekki til í dag og það er ekki verið að byggja orkuver til þess að mæta þessari þörf í dag, nema mjög litlu leyti. Við erum ekki að framleiða rafmagn hérna, virkja fyrir okkur, heldur til að mæta þörfum samfélagsins og það eru fleiri sem gera það líka, við erum bara hluti af þeim markaði. Við kappkostum að hafa það framboð sem viðskiptavinir þurfa og vilja.
Við erum að tala um mjög umhverfisvæn fyrirtæki, eins og gagnaverin?
Jú, við erum að tala um þjónustu sem við notum öll, í gegnum þessi veflægu tölvukerfi, samfélagsmiðla. Við tölum um Facebook, Snapchat, Instagram og hvað þetta heitir, notar allt saman gagnaver. Við öll sem erum að nota snjallsíma og tölvur, við erum að nota gagnaver, við bara vitum ekki af því. Við vitum kannski ekki öll af því, en við erum að nota þau. Einhvers staðar verða þau að vera. Þau leita meðal annars eftir sanngjörnu raforkuverði og hreinni orku. En framboðið fyrir þau á Íslandi er ekki nægjanlegt. Þau hröklast þá frá og staðsetja sig annars staðar. En þau eru vaxandi á Íslandi og gætu vaxið meira.
Sjónvarp Víkurfrétta ræddi við Ásgeir Margeirsson, og birtist viðtalið í tvennu lagi í þættinum Suðurnesjamagasíni 28. sept. og 5. okt. SMELLIÐ HÉR TIL AÐ SJÁ VIÐALIÐ Í HEILD Í VEFTÍMARITI VF.