Einar Sparisjóðsstjóri: Gríðarleg vonbrigði
Einar Hannesson, Sparisjóðsstjóri segir að niðurstaðan um að Spkef sparisjóður renni inn í Landsbankann séu gríðarleg vonbrigði. Það hafi verið unnið nótt við dag við endurreisn sjóðsins. Það þýðir þó ekki að horfa til baka heldur fram á veginn og með jákvæðum augum. Niðurstaða sé komin og nú sé bara að taka þeirri staðreynd og vinna úr henni á sem bestan hátt.
Hvað var það sem klikkaði í endurreisninni?
„Það hefur verið talað um að bilið á milli eigna og skulda hefur breikkað en ástæðuna má m.a. rekja til aðgerða stjórnvalda í skuldaaðlögun fyrirtækja og einstaklinga. Þetta hefur gert það að eignasafnið rýrnaði.“
Þú hlýtur að gagnrýna aðferðafræðina við gjörninginn. Hvorki þú né stjórn Spkef sparisjóðs voru með í ráðum þegar þetta var ákveðið?
„Ég get ekki sagt annað en að ég tel þetta ekki rétta aðferðafræði. Ég hefði talið að það hefði verið auðvelt að hafa samband við mig og stjórn um að taka þátt í þessu ferli og í raun óeðlilegt að það var ekki gert. Lekinn úr ríkisstjórn er virkilega gagnrýni verður. Maður skilur ekki hvað er í gangi þegar svona gerist“
Einar segir að unnið hafi verið mikið uppbyggingarstarf síðustu mánuði en vissulega hafi óljós staða með endurfjármögnun gert endurreisnina erfiðari.
Þetta hlýtur að hafa verið erfitt fyrir starfsfólkið?
„Já, það var erfitt fyrir mig að uppýsa um stöðu mála þegar ég hafði ekki upplýsingar sjálfur. Ég hitti fólkið og þakkaði því fyrir frábært starf við erfiðar aðstæður“.
Aðspurður um framtíð sína hjá Landsbankanum sagðist hann taka öllum breytingum jákvætt. „Maður fer inn á völlinn og berst eins og í kappleik. Annað liðið tapar, en við verðum að horfa fram á veginn. Við tökum þátt í endurreisn bankakerfisins og ef menn finna hlutverk fyrir mig er ég tilbúinn að taka þátt í því.“
Einar lengst t.v. með þeim Steinþóri Landsbankastjóra og Steingrími fjármálaráðherra.