Þriðjudagur 18. október 2011 kl. 16:46

Einar Árni: Verður fjör að mæta Stórveldinu á föstudaginn

Annar af þjálfurum Njarðvíkinga í Iceland Express deild karla, Einar Árni Jóhannsson var kátur í leikslokin í Ljónagryfjunni í gær enda er lið hans á toppnum eftir sigur á Haukum í gær. Hann segir liðið ekki hafa miklar áhyggjur af sóknarleiknum enda hefur liðið skorað yfir 100 stig í báðum leikjum sínum til þessa.

„Sóknarleikurinn er eitthvað sem við þurfum ekki að hafa áhyggjur af, við erum með fullt af strákum sem geta skorað,“ segir Einar en hann er virkilega sáttur með frammistöðu Cameron Echols í gær, en hann skoraði 40 stig. „Hann gefur okkur þetta jafnvægi sem okkur skorti á undirbúningtímabilinu og hann var frábær hér í kvöld.“

Einar var ekki alveg sáttur við varnarleikinn og fráköstin í fyrri hálfleik en það lagaðist þegar leið á leikinn. „Þéttari varnarleikur og betri vinna í fráköstum í síðari hálfleik skilaði okkur góðum sigri hér í kvöld,“ sagði Einar en nánara viðtal má sjá við þjálfarann í meðfylgjandi myndskeiði.