Sunnudagur 16. september 2018 kl. 10:30

Draumurinn rættist á Snæfellsnesi

Helgu Magneu Birkisdóttur langaði að opna kaffihús í Keflavík en endaði á Snæfellsnesi og rekur nú kaffihús á Hellnum og veitingastað á Arnarstapa



„Mig langaði að opna kaffihús í Keflavík en var tvístígandi. Þegar tækifæri á Hellnum á Snæfellsnesi kom upp í hendurnar á mér í gegnum vinkonu mína fluttist þessi draumur minn þangað,“ segir Helga Magnea Birkisdóttir en hún og eiginmaður hennar, Ólafur Sólmundarson hafa síðustu fimm árin verið í veitingarekstri á Hellnum og Arnarstapa á Snæfellsnesi.
 

„Ég fór og skoðaði og hreifst strax af aðstæðum. Þetta var veturinn 2014 og við opnuðum kaffihús fyrir páska. Ólafur Haukur, rithöfundur og leikskáld hafði rekið kaffihús með nafninu Primus Kaffi og við ákváðum að halda því. Fyrsta árið var erfitt. Við vorum bara með hluta af kaffihúsinu og svilkona mín var með mér og svo kom Óli um helgar en hann var þá að vinna í blikksmiðju í Keflavík,“ segir Helga Magnea þegar hún rifjar upp byrjunina á Snæfellsnesi en fyrsta árið bauð hún upp á súpur, smurbrauð og kökur. Byrjaði smátt að hennar sögn eftir að hafa legið yfir uppskriftum og hugmyndum með vinum sínum.



Mikil áskorun á Hellnum

Óli sem hafði unnið á Blikksmiðju Ágústar Guðjónssonar tekur undir orð eiginkonu sinnar og segir að þetta hafi verið mikil áskorun, ekki síður fyrir hann að koma úr smiðjunni inni í eldhús. „Það var brjálað að gera þegar komu 15-20 manns og maður fékk í magann þarna í byrjun en þetta hafðist allt. Við vorum á hlaupum. Það var verið að baka og elda og þjóna frammi í sal, við hjónin og ein önnur manneskja. Við kippum okkur ekki upp við það þó það komi núna nokkrar rútur með á annað hundrað manns. Við rúllum við því upp,“ segir Óli og bætir því við að hann hafi lært mikið og nýja hluti í veitingamennsku. „Nú getur maður bjargað sér sjálfur, ekki háður Helgu eða mömmu,“ segir hann og hlær.

Fyrsta haustið reyndu þau að hafa opið eftir að hafa kíkt heim á Ljósanótt en ferðamenn létu ekki sjá sig svo Prímus Kaffið lokaði yfir veturinn. Þau byrjuðu aftur vorið 2015 og þá var húseigandinn búinn að stækka veitingasalinn um helming og nú var hægt að gera meiri hluti og taka á móti stærri hópum. Reksturinn gekk vel og þau þurftu að bæta við starfsfólki og voru með opið þrjá daga í viku yfir veturinn. Vorið 2016 fóru hlutirnir virkilega í gang með mikilli aukningu.



Á hlaupum allt sumarið

„Við vorum á hlaupum allt sumarið,“ segir Helga og hlær og segir að á aðeins tveimur árum hafi starfsmannafjöldi farið úr 2-3 í 15. Því fylgdu augljósir vaxtaverkir og segja þau bæði að dagarnir hafi verið langir á Snæfellsnesi þetta ár. Móttökurnar voru mjög góðar og maturinn á Prímus Kaffi rann ofan í gesti sem eru í meirihluta útlendingar. Þau buðu upp á þrjár gerðir af súpum, sjávarrétta-, kjötsúpu og sveppasúpu, plokkfisk en einnig bökur, kökur og drykki, kaffi og vínveitingar. Alltaf hefur verið lögð áhersla á að gera matinn frá grunni á staðnum. Helga og Óli segja að traffíkin hafi jafnast en sé þó ennþá góð. „Þetta eru ekki alveg sömu læti en samt mjög góður gangur. Aðstaðan til að taka á móti fólki í Primus Kaffi er góð og stór. Þar eru þrír salir og hægt að afgreiða allt að 160 manns í einu. Þar sem fólk situr með veitingar í kaffihúsinu voru áður fjárhús. Það er því skemmtilegt sveitastemmning og útsýni út um gluggana.



Stapinn á Arnarstapa

Í lok sumars í fyrra ákváðum við að byggja annan stað sem væri öðruvísi. Það var ákvörðun sem við tókum út frá ákveðinni óvissu með samninga varðandi húsnæðið sem hýsir Primus Kaffi. Við vildum eignast okkar eigin stað,“ segir Helga.

Veitingastaðurinn Stapinn opnaði vorið 2017 en hann er á Arnarstapa, nokkra kílómetra frá Hellnum. Nafnið er með vísun í marga staði, Stapann í Njarðvík, fjallið Stapafell í nágrenninu, Stapann á Vatnsleysuströnd og svo auðvitað Arnarstapa. Í góðu veðri situr fólk úti á pallinum fyrir utan staðinn með einn kaldan á kantinum og jafanvel djúpsteiktan þorskhnakkann. Sólin var ekki dugleg að sýna sig fyrri part sumars en gerði það í ágúst. „Grunnhugmyndin í Stapnum er önnur en á Prímus Kaffi. Við bjóðum upp á æðislegan fisk og franskar með þorskhnakka, flotta grillaða hamborgara, kökur og ís og bjór á krana. Þetta er meiri skyndistaður en kaffihúsið á Hellnum. Við höfum fengið góðar móttökur og viljum þróa staðinn meira. Mig langar mikið til að hafa litla tónleika af og til svona af því ég dansaði nú oft í Stapanum í Njarðvík,“ segir hún og hlær.

Magnað umhverfi

En hvaðan koma viðskiptavinirnir á staðina þeirra?

„Þetta eru 90% útlendingar en einnig fólk úr nærliggjandi bæjum, t.d. Ólafsvík og Hellisandi. Það koma margir eldri borgarar þaðan, taka rúnt og fá sér kaffi hjá okkur. Okkur finnst það æðislegt. Útlendingarnir eru mjög ánægðir með matinn okkar, ekki síst heimagerða rétti og súpur en líka fisk og franskar,“ segja þau bæði.



En hvað er það sem heillar ferðamenn á Snæfellsnesi?

„Fólk er mjög hrifið af náttúrunni. Snæfellsjökullinn er magnaður en líka fjallgarðurinn allur, sjórinn og skemmtileg höfnin, klettaströndin, fuglalífið og falleg gönguleiðin milli Hellna og Arnarstapa. Fólk sem kemur í fyrsta skiptið verður orðlaust, ekki síst í góðu veðri.“

En hvernig sjá hjónin framtíðina. Ætla þau að halda áfram á Snæfellsnesi eða liggur leiðin heim til Keflavíkur?

„Þetta er skemmtilegt og við verðum hér áfram en við ætlum að eldast í Keflavík, okkar heimabæ. Ég elska minn heimabæ og gæti alveg hugsað mér að opna einhvern veitingastað á Suðurnesjum þó svo slík hugmynd sé ekki komin á teikniborðið,“ segir Helga og Óli tekur undir það.

Viðtal og myndir: Páll Ketilsson



Fjöldi gesta í mat á Primus Kaffi á góðviðrisdegi í sumar.



Kaffihúsið er á skemmtilegum stað á Hellnum.



Umhverfið er magnað og útlendingar sækja mikið í það.



Þrír vinsælir réttir á Primus Kaffi, plokkfiskur, nautakjötsbollur og pastaréttur.



Jökullinn lengst til vinstri í dulúðu umhverfi skýjabólstra.



Veitingahúsið Stapinn með Stapafellið í baksýn.



Hjónin eru ánægð á Snæfellsnesinu.



Helga með hluta af starfsfólkinu en stór hluti þeirra eru útlendingar.