Mánudagur 5. febrúar 2018 kl. 12:00

Draugagisting í sögufrægu húsi

- Bakki var „fótósjoppaður“ á Hesteyri

Kvikmyndin „Ég man þig“ sem byggð er á sögu Yrsu Sigurðardóttur naut mikilla vinsælda á síðasta ári. Gult, ryðgað og gamalt hús setti sinn svip á myndina en húsið nefnist Bakki og er staðsett í Grindavík. Tæknibrellur voru notaðar til þess að „færa“ húsið á Hesteyri en þar gerist sagan að stórum hluta. Húsið er í eigu Minja- og sögufélags Grindavíkur en framkvæmdir við uppbyggingu þess eru hafðar og húsið hefur skemmtilega sögu að geyma.

Festi sirka 1973. Mynd- Facebook síða Minja-og sögufélags Grindavíkur

Minja- og sögufélag Grindavíkur var stofnað í desember 2013 og telur félagið um fimmtíu meðlimi. Upphaf félagsins má rekja til þess að Hallur J. Gunnarsson og Lúðvík Baldursson heitinn voru að safna alls kyns dóti en Hallur byrjaði að safna munum þegar hann var sjómaður á Hrafni Sveinbjarnarsyni. Þeir voru, og eru, báðir miklir áhugamenn um gamla muni og árið 2013 voru þeir boðaðir á skrifstofu Grindavíkurbæjar til að segja frá þeim hlutum sem þeir voru með í geymslu. Þá voru þeir með aðstöðu til að geyma gamla muni í áhaldahúsi Grindavíkur og hafði Hallur verið að mynda munina og skjalfesta þá. Margir merkilegir munir voru í geymslunni meðal annars frá Einari í Garðhúsum, ífærur og annað í hákarlaveiði, gamlir munir frá Þorbirni og margt fleira. Félagið var skráð hjá Ríkisskattstjóra í desember 2013 og verður því fjögurra ára á þessu ári.

Frá uppbyggingu Bakka

Vildu eignast Bakka
Þegar félagið var stofnað var ákveðið að festa kaup á Bakka. „Það var eiginlega ákveðið fljótlega eftir að við stofnuðum félagið á bæjarskrifstofunni. Einar Lár, Örn Sigurðsson og ég vorum forsprakkarnir af félaginu og svo var Róbert, þáverandi bæjarstjóri, ritari. Við vorum strax farnir að tala um það að kaupa Bakka af Sævari heitnum og fórum að hitta hann, vorum eiginlega komnir með kaupverðið og áttum eftir að skrifa undir, við hittum hann á föstudegi og ætluðum að ganga frá kaupunum á mánudegi, en þá féll hann frá blessaður. Þannig að við keyptum húsið af dánarbúinu.“
Félagið vildi eignast Bakka og gera húsið upp því það er ein af elstu sjóverbúðunum hér á Suðurnesjum. „Okkur langaði að halda í hana og við viljum gera hana upp eins og hún var upprunalega. Í verbúðinni voru sennilega átta kojur, það voru tvö herbergi uppi, þá var Gauji, Guðjón í Bakka, með herbergi niðri og svo voru ráðskonur með herbergi innan úr eldhúsinu. Við náðum einmitt smá viðtali við hana Petru heitna, en hún var síðasta ráðskonan á Bakka – það er gaman af því.“

Gamli bærinn. Mynd- Facebook síða Minja-og sögufélags Grindavíkur.

Húsið „fótósjoppað“ á Hesteyri
Kvikmyndateymið í kringum myndina „Ég man þig“ hafði verið að leita að húsnæði til að hafa í myndinni. Húsið þurfti að hafa ákveðinn sjarma og Bakki hafði hann. Félagið var byrjað að endurbyggja Bakka og frestuðust þær framkvæmdir um ár vegna myndarinnar. „Maður að nafni Heimir hringdi í mig eftir að hann hafði verið í Grindavík og séð Bakka. Við mælum okkur mót seinnipart sama dag, honum líst vel á húsið, hringir í leikstjórann og strax daginn eftir er hann, ásamt leikstjóranum og þremur aðalleikurum myndarinnar, kominn til Grindavíkur og við semjum um leigu á húsinu og það er notað í myndinni.“

Draugagisting
Ýmsu var bætt inn í húsið, meðal annars settir skorsteinar, og er hugmyndin að halda í hluta af leikmyndinni þegar húsið verður byggt upp að innan. Einnig hefur borist í tal að bjóða fólki að horfa á myndina í húsinu og gista svo í því eftir sýninguna, svokallaða „draugagistingu“. Félagið hefur þrisvar sinnum sótt um og fengið styrki í Uppbyggingarsjóð Suðurnesja og hafa þeir farið í uppbyggingu Bakka. Þegar framkvæmdum að utan lýkur verður ráðist í breytingar innanhúss, forstofan verður meðal annars rifin í burtu en hún er ekki hluti af upprunalega húsinu og hurð verður bætt við að aftan. Öll þessi vinna fer fram í sjálfboðavinnu og eru vaskir menn sem sjá um það.

Unnið er að því að klæða Bakka

Gömul og merkileg hús í Grindavík
Þegar Hallur er spurður að því hvort mörg gömul hús séu í Grindavík segir hann að það séu mörg gömul og merkileg hús í bænum. „Þar má meðal annars nefna Krosshús, Garðhús en þar er búin að vera flott uppbygging, læknisbústaðurinn hans Sigvalda Kaldalóns en það hús er kallað Hamraborgin, prestbústaðurinn og Gesthús.

Vantar geymslupláss
Minja- og sögufélagið varðveitir stóra muni sem því hefur verið gefið og er meðal annars gamla kvikmyndasýningarvélin úr Festi í vörslu þess. „Við höfum ekki pláss fyrir þessa hluti vegna stærðar þeirra og þurfum að fá bæinn í lið með okkur. Félagið á litla peninga og allir eru í sjálfboðavinnu, ef við fáum pening eða styrki þá eru þeir fjármundir eyrnamerktir ákveðnum verkefnum.“
Facebook-síða félagsins hefur notið mikilla vinsælda en Hallur skannar inn gamlar myndir og setur þær á síðuna. „Myndirnar koma frá fólki héðan og þaðan í bænum, síðan merki ég þeim myndirnar sem sendi þær, þannig að ég er ekki að eigna mér þær. Fólki finnst mjög gaman að skoða gamlar myndir héðan úr Grindavík.“

Samkoma Lions í Kvennó. Mynd- Facebook síða Minja- og sögufélags Grindavíkur.

Opið hús einu sinni í viku
Gamla hverfið í Grindavík er að gangast undir Verndarsvæði í byggð og það þýðir að þá má ekki byggja hvar sem er í gamla bænum. Þá eru einnig gamlar minjar verndaðar og svo framvegis. Reynt verður að halda í gamla stílinn og ef fólk ætlar að byggja eða laga hús þá þarf það að vera eins og upprunalegar teikningar.

„Það er mikið að gera hjá okkur þótt kaupið sé lágt,“ segir Hallur og hlær en það er augljóst að honum er annt um sögu Grindavíkur og minjar frá gömlum tíma. „Við erum alltaf með opið hús hér í Kvennó á miðvikudagskvöldum kl. 20, þá getur fólk komið, fengið sér kaffi og spjallað saman. Kvennó er merkilegt hús en það var byggt árið 1930 af Kvenfélagi Grindavíkur þegar félagið vildi fá gott samkomuhús. Konurnar í félaginu tóku sig saman, fengu hlut, skilst mér frá eiginmönnum og útgerðinni sem þeir seldu og þær notuðu þann pening til að byggja húsið. Þetta var mikið verk fyrir konur á þeim tíma en Ingibjörg Jónsdóttir, sem meðal annars stofnaði Skógrækt Grindavíkur, var forsprakkinn af þessu öllu saman – hún var hörkukvendi.“

Menningarvika Grindavíkur hefst 10. mars og er meðal annars hugmynd að segja sögu Ingibjargar, Sigvalda Kaldalóns, séra Brynjólfs og Einars í Krosshúsum á meðan á henni stendur. „Það eru komnar þó nokkuð margar hugmyndir fyrir vikuna og það verður nóg um að vera hjá okkur.“