Laugardagur 11. febrúar 2017 kl. 12:35

Dragúldin áskorun á lögguna

– lögreglumenn gúffuðu í sig surströmming eins og konfekti... eða ekki

Lögreglumennirnir Daði Þorkelsson og Guðmundur Sigurðsson eru helstu hlaupagikkir lögreglunnar á Suðurnesjum. Þeir hafa einnig farið fyrir kyndilhlaupi lögreglumanna á Íslandi í tengslum við Íslandsleika Special Olympics. Lögreglumenn og konur um allan heim hafa svo tekið þátt í því að hlaupa með logandi kyndil að keppnisstöðum þar sem eldur leika SPECIAL OLYMPICS er kveiktur. Markmið kyndilhlaupsins er að vekja athygli á leikum samtakanna. Þeir Daði og Guðmundur eru nú á leið erlendis þar sem þeir munu hlaupa með lögreglukyndilinn.
 
Snapptjattkóngar Suðurnesja, þeir Gæi og Balli hjá bílaleigunni Blue Car Rental, lögðust á árarnar með lögreglunni þegar kom að því að safna peningum fyrir Special Olympic. Þeir fóru mikinn á Snappinu og heimsóttu fjölda fyrirtækja til að fá áheit í pott sem yrði greiddur í söfnun lögreglunnar ef lögreglumennirnir Guðmundur og Daði myndu gæða sér á sænskri Surströmming. Það er síldarréttur sem hefur fengið að gerjast í tunnum í nokkra mánuði áður en síldinni er pakkað í niðursuðudósir þar sem hún heldur áfram gerjuninni. Svo þegar dósin er opnuð - tja - þá gýs upp verulega slæm lykt og bragðið mun vera á sömu nótum.
 
 
Meðfylgjandi er innslag úr Suðurnesjamagasíni Sjónvarps Víkurfrétta um Surströmming áskorunina.