Bráðnauðsynlegt að rannsaka rekstur sparisjóðanna
Um leið og næst samkomulag við kröfuhafa Sparisjóðsins í Keflavík er ríkinu ekkert að vanbúnaði að endurfjármagna stofnunina.„Það mun kosta mikla fjármuni, en við munum gera það samt,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra í samtali við Víkurfréttir. „Þetta er spurnig um líf eða dauða fyrir sparisjóðakeðjuna í landinu en þó fyrst og síðast þarf að vera hér öflug fjármálastofnun. Um leið og þetta gengur upp þá klárum við það verkefni að endurfjármagna sparisjóðinn.
Ríkið mun setja 20 milljarða króna, eða meira, sem nýtt stofnfé inn í sparisjóðakerfið í heild sinni, segir Steingrímur og hann vonar að þeirri endurreisn ljúki nú á allra næstu vikum eða einum til tveimur mánuðum.
Fjármálaráðherra telur að það sé bráðnauðsynlegt að rannsaka rekstur sparisjóðanna. Hann segir að þarna séu hlutir sem þurfi að gera upp með nákvæmlega sama hætti og hjá stóru bönkunum og hann vill að sú rannsókn fari af stað sem fyrst.
Sjá viðtal við fjármálaráðherra í meðfylgjandi myndskeiði.