Bókin sem vantaði í kynfræðsluna á Íslandi
„Kynfræðsla í skólum landsins er enn af skornum skammti og því þarf að breyta. Það hefur verið krafa ungs fólks í áratugi að kynfræðslan sé aukin en ennþá virðist það vera sem svo að fullorðið fólk taki ekki mark á ungu fólki. Ungt fólk eru engir vitleysingar. Þau vita um hvað þau eru að tala. Þau vita hvað þau vilja og þurfa til að gera heiminn að betri stað. Það væri því svo auðvelt að leyfa þeim að feta veginn sjálf og fylgja þeim eftir. Það þarf bara viljann til þess,“ skrifar Sólborg Guðbrandsdóttir í inngangi bókarinnar FÁVITAR sem hún er að gefa út núna fyrir jólin. Bókin er að fá góðar viðtökur og er þegar þetta er skrifað í öðru sæti á metsölulista Forlagsins.
Fávitar er samfélagsverkefni Sólborgar gegn stafrænu og annars konar kynferðisofbeldi en það hófst á samnefndri Instagram-síðu árið 2016. Sólborg hefur starfað sem fyrirlesari undanfarin ár og haldið fyrirlestra fyrir þúsundir barna og unglinga þar sem hún svarar spurningum þeirra meðal annars um kynlíf, ofbeldi, samskipti, líkamann og fjölbreytileika. Verkefnið hefur verið nýtt í skólum víðs vegar um landið með góðum árangri. Átakið Fávitar birtist nú í bókaformi þar sem Sólborg hefur tekið saman spurningar sem henni hafa borist síðastliðin ár og svör við þeim, eins og segir í bókarkynningu.
– Hvað ertu að segja í þessari bók?
„Þetta er samantekt á spurningum sem ég hef fengið sendar til mín á fyrirlestrum og samfélagsmiðlum síðustu ár. Þetta eru spurningar um kynlíf, um ofbeldi, líkamann, fjölbreytileika og ýmislegt svoleiðis. Þetta er samansafn af þeim pælingum sem unglingar hafa verið að deila með mér.“
– Þú hefur verið að halda marga fyrirlestra og heimsótt mikið af ungmennum um landið. Eru spurningarnar frá þeim?
„Þetta eru aðallega spurningar frá ungu fólki. Þær eru nákvæmlega eins og þau orða þetta og ég vildi hafa bókina heiðarlega.“
– Það er ýmislegt í þessari bók sem ekki hefur sést áður í íslenskri bók, jafnvel tabú, eitthvað sem fólk er almennt ekki að tala um, margt í kringum kynlíf til dæmis. Hvernig var þetta að birtast þér þegar bókin var að verða til. Varstu alveg örugg um að þú værir að gera rétta hluti?
„Já, ég held að þessi bók sé það sem vantaði í kynfræðsluna á Íslandi. Unglingar í dag eru með sömu pælingar og þegar ég var unglingur og eftir tíu ár verða unglingar líka með þessar pælingar. Mér fannst mikilvægt að koma þessu öllu saman í eina bók, þannig að ég væri ekki að vísa fólki í ólíkar áttir eftir eftir ólíkum svörum, heldur að þetta væri þannig að þú finnur allt sem þú þarft að vita um þessa hluti á sama stað. Ég held að það sé mikilvægt að við séum að tala um þessa hluti eins og þeir eru en ekkert að skafa utan af því og reyna svolítið að tala eins og unglingarnir eru að tala sín á milli.“
„Unglingar í dag eru með sömu pælingar og þegar ég var unglingur og eftir tíu ár verða unglingar líka með þessar pælingar...“
– Hafa unglingar verið óhræddir að ræða þessi mál? Greinilega samkvæmt því sem er í bókinni.
„Já, já, já. Mér finnst æðislegt að þeir skuli treyst mér fyrir því sem eru oft feimnismál. Það að ég sé að fá þessar spurningar til mín sýnir líka skýrt að það vantar svör og þau vita ekki hvert á að leita. Það er því líka mikilvægt að við fullorðna fólkið leitum okkur upplýsinga og reynum að svara þeim eins og við getum því þessi fræðsla skiptir rosalega miklu máli. Það að þau fái fræðslu um t.d. eðlilegt kynlíf getur komið í veg fyrir kynferðisofbeldi og ef við getum minnkað ofbeldi í samfélaginu okkar þá held ég að við ættum að reyna eins og við getum að gera það.“
– Eru þetta spurningar sem þú hefur fengið sendar til þín eða eru krakkarnir óhræddir að spyrja þig á fyrirlestrum þínum?
„Þau eru oftast að spyrja mig nafnlaust eða í öruggara umhverfi á bak við skjáinn með einkaskilaboðum á Instagram. Á hverjum fyrirlestri býð ég upp á nafnlausar spurningar í lokin og þau tengja sig nafnlaust við mig í gegnum símann sinn. Það er öruggt svæði fyrir þau að koma með spurningar um hluti sem þau hafa verið takast á við í einrúmi. Það er dýrmætt að þau hafi einhvern svona stað.“
– Við höfum heyrt umræðu eftir að bókin kom út hvernig kynfræðslu er háttað í skólum. Það er alveg ljóst að það er himinn og haf milli kynfræðslunnar í skólum og því sem kemur fram í þessari bók. Sérðu fyrir þér að það væri hægt að nota þessa bók í skólum?
„Já, og ég veit að nokkrir skólar eru þegar búnir að kaupa hana og eru byrjaðir að kenna hana í kynfræðslu eða stefna á að gera það. Það finnst mér rosalega magnað að ég, og hver er ég, sé að fara að kenna krökkum þetta í skólum. Það sýnir bara hvað þetta hefur vantað og það hefur verið mikil þörf fyrir þetta lengi. Unglingar hafa verið að óska eftir aukinni kynfræðslu í mörg ár. Við vorum að óska eftir þessu sem unglingar og ég skil ekki hvar þetta er að stoppa. Þarna ber að þakka einstaka kennurum sem vilja gera þetta vel og eru að standa sig rosalega vel innan skólanna. Þetta má ekki vera eftir hentisemi einstakra kennara heldur þarf þetta að vera kerfisbundið að við séum að tryggja að öll börn séu að fá þessa fræðslu.“
– Við sjáum að myndirnar eru að spila stórt hlutverk í þessari bók. Þú fékkt heimafólk af Suðurnesjum með þér í lið.
„Já, ég fékk besta fólkið af Suðurnesjum með mér í þetta. Hann Ethorio teiknaði myndirnar og ég vildi ekki fá neinn annan en hann til að gera þetta. Hann teiknaði líka kápumyndina en Davíð Óskarsson gerði útlit kápunnar og svo sá Hilmar Bragi á Víkurfréttum um uppsetningu á bókinni og ég er mjög kát með lokaútkomuna.“
– Þú hefur fengið góðar viðtökur og þér hefur gengið vel að selja bókina. Áttir þú von á því?
„Ég veit bara ekki hverju ég átti að eiga von. Ég var í hausnum á mér að reyna að gera þetta eins vel og ég gat og þegar ég var búin að koma þessu út í cosmosið þá hefði ég verið sátt með hvað sem er en viðtökurnar hafa farið fram úr mínum björtustu vonum. Bókin er núna í fimmta sæti á metsölulista Eymundsson, er í fyrsta sæti á lista fræðibóka og er í öðru sæti á metsölulista Forlagsins, þannig að þetta er algjör heiður og ég er glöð að ég sé að ná þessum árangri.“
– Þú ert búin að vera að sá fræjum fyrir þessari bók undanfarna mánuði og ár.
„Já, eiginlega. Það er búið að vera dýrmætt að hitta fólkið sem ég hef verið að tala við í gegnum samfélagsmiðla og er uppspretta t.d. þeirra spurninga sem eru í bókinni.“
– Hverjir eru að kaupa bókina, er það unga fólkið eða foreldrar?
„Það er allur gangur á því. Unga fólkið er að spyrja mig hvernig það geti keypt bókina án þess að mamma og pabbi viti. Einhverjum finnst vandræðalegt að kaupa bókina. Það er mikilvægt að taka fram að þetta er engin dónabók sérstaklega. Það er eðlilegt að vera unglingur og vilja fræðast um þessa hluti. Svo hef ég heyrt að foreldrar og ættingjar vilja gefa þetta til unglinga eða ungs fólks í fjölskyldunni í gjafir eða annað, svo það er allur gangur á því hverjir eru að kaupa þetta. Það er mikilvægt að taka fram að þessi bók getur líka frætt fullorðna fólkið. Hún getur kennt þeim sjálfum og líka sýnt þeim hvaða pælingar eru í gangi hjá unglingum í dag um þessa hluti.“
– En nafnið á bókinni, það er svolítið sérstakt.
„Fávitar, það eru þeir sem fátt vita og við þurfum að fræða þá og ætlum að sjá til þess að þeir fái þá fræðslu með þessari bók“.
Vegna samkomutakmarkana hefur Sólborg ekki verið að árita bækur í bókabúðum. Hún stefnir að þátttöku í Bókakonfekti Bókasafns Reykjanesbæjar síðar í nóvember en sá viðburður verður á netinu. Þá mun hún láta sjá sig í bókabúðum þegar nær dregur jólum.