Mánudagur 20. mars 2017 kl. 12:12

Bláa Lónið opnar nýja heilsulind og hótel í heimsklassa

- Auglýst eftir stjórnendum og starfsmönnum í 165 stöður á næstunni

Bláa Lónið opnar í haust nýtt upplifunarsvæði, hágæða hótel og veitingastaði þar sem áhersla verður lögð á einstaka upplifun gesta. Fyrirtækið undirbýr nú ráðningar á starfsfólki í tengslum við verkefnið. Á annað hundrað fjölbreytt störf verða til í tengslum við uppbygginguna. 

Framkvæmdir  við upplifunarsvæðið og hótelið, sem staðsett er í hraunbreiðunni vestan við núverandi lón, eru vel á veg komnar. Áhersla er lögð á að skapa einstakt umhverfi og upplifun sem byggir á jarðsjó og náttúrulegu umhverfi Bláa Lónsins. Nafn hótelsins er Moss Hotel og heilsulindin mun bera heitið Lava Cove. Nýr hágæðaveitingastaður, Moss Restaurant, verður einnig starfræktur á hótelinu ásamt Lava Cove Restaurant.

 
Spennandi atvinnutækifæri í einu af undrum veraldar
 
Um 165 manns munu starfa við hótelið og heilsulindina og verða störfin afar fjölbreytt. Bláa Lónið hefur auglýst eftir móttökustjórum og móttökustarfsmönnum, stjórnendum og starfsfólki í herbergisþjónustu- og þrifum, einkaþjónum og starfsfólki gestamóttöku. Þjálfun og starfsþróun eru mikilvægir þættir í mannauðsstefnu Bláa Lónsins og fá allir starfsmenn þjálfun er lýtur að hágæðaþjónustu.
 
Bláa Lónið er í dag eitt þekktasta vörumerki Íslands og hefur National Geographic valið Bláa Lónið sem eitt af 25 undrum veraldar.

    
Heilsulind og hótel í heimsklassa
 
Moss Hotel verður 62 herbergja  hótel og verður í hærri gæðaflokki en áður hefur þekkst á Íslandi. Öll þjónusta og aðbúnaður miða að því að gestirnir njóti þess besta í mat, gistingu og upplifun í umhverfi Bláa Lónsins. 
Heilsulindin Lava Cove verður einnig einstæð í sínum flokki. Gestir fara undir yfirborð jarðar þar sem þeir munu njóta spa upplifunar sem byggir á virkum efnum Bláa Lónsins. Þaðan hafa gestir aðgang að nýju lóni sem er umlukið háum hraunveggjum. Á veitingastaðnum Moss Restaurant verður áhersla á hágæða upplifun og þjónustu. Íslenskt hráefni verður í hávegum haft og gestir munu njóta útsýnis yfir  umhverfi Bláa Lónsins.

    
„Opnunin á nýju upplifunarsvæði og hóteli næsta haust verður mikilvægur áfangi í starfsemi Bláa Lónsins. Með þessu erum við að þróa og breikka starfsemi okkar. Lykillinn að þeim árangri sem við höfum náð á undanförnum árum byggir á einstakri náttúru Bláa Lónsins og einlægum vilja starfsfólks okkar til að veita gestum frábæra þjónustu og skapa ógleymanlegar minningar. Á næstu vikum munum við leita að fólki sem hefur brennandi áhuga á að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu með okkur,“ segir Dagný Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Bláa Lónsins.

 
Tvö hönnunarteymi
 
Hönnun á byggingum Bláa Lónsins hefur vakið athygli frá því það var opnað á nýjum stað í hrauninu í Grindavík árið 1999. Nú þegar verið er að byggja glæsihótel og nýja baðaðstöðu er sem fyrr lögð áhersla á hönnunina. „Við erum með tvö hönnunarteymi í vinnu við þetta verkefni. Annars vegar arkitektar okkar sem hanna bygginguna út frá landinu og þá erum við með ítalska hönnuði sem hugsa hönnunina út frá augum gestsins og upplifun hans. Svo vinna þessi tvö teymi saman og þurfa að láta hagsmuni allra smella saman og ég get sagt að það er oft fjör á þeim fundum. Útkoman hefur oft verið trufluð,“ segir Dagný Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Bláa Lónsins og bætir við: „Það er alveg einstakt við svæðið okkar að sjá steinsteypuna blandast við hraunið, mosann og bláa vökvann. Ég hef verið á staðnum í áratug og get ekki fengið leið á því.“

 
Norræn matarupplifun á Moss
 
Það verður norræn stemmning í háklassa matargerð á nýjum veitingastað sem fær nafnið Moss. Á þessum veitingastað sem fær nafn sitt eftir mosanum verður meðal annars boðið upp á „chefs table“ eða borð matreiðslumeistarans en staðurinn mun geta tekið á móti 60 manns í mat. „Við ætlum að leggja mikið upp úr þessum stað. Núna eru fjögur ungmenni sem munu stýra matreiðslunni á staðnum að bæta við kunnáttu sína í útlöndum, einn er m.a. í læri á Michelin veitingastað í Færeyjum. Þetta fólk okkar mun bjóða upp á það besta þegar Moss opnar. Þar verður glæsilegt útsýni út í hraunið og upplifunin verða einstök. Hugmyndin er að búa til magnaða veröld þannig að maður gleymi daglegu stressi,“ segir Dagný.
 


Herbergin frá 100.000 krónum
 
Dagný segir að ánægðustu viðskiptavinir Bláa Lónsins séu þeir sem hafa keypt mestu og dýrustu þjónustuna sem í boði hefur verið og við það hafi verið miðað í nýju uppbyggingunni. Herbergin á Moss hótelinu verða minnst 40 fermetrar og mun nóttin kosta frá 100.000 krónum. Þá verða sex stórar svítur á hótelinu, þar á meðal Bláa Lóns svítan. Allar verða þær með sér baðlóni og einkaþjóni. Þá verður nýja baðaðstaðan, Spa-ið, glæsilegt. „Starfsmenn Bláa Lónsins hafa mikla ánægju af því að veita frábæra þjónustu í einstöku umhverfi. Það er ljóst að með þessum nýjungum mun það færast á enn hærra stig. Við munum áfram leggja áherslu á að byggja á okkar persónulegu þjónustu í mögnuðu umhverfi. Við munum ekki herma eftir asískri þjónustu eða frá stórborgum. Þetta verður einstakt.“