Björgunarskipið óskemmt eftir að hafa rekið upp í fjöru
Björgunarskipið Jón Oddgeir er óskemmt eftir að það slitnaði upp í Njarðvíkurhöfn í morgun og rak upp í grýtta fjöru.
Kári Viðar Rúnarsson, formaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes, sagði í samtali við Víkurfréttir í kvöld að kafarar hafi skoðað bæði botn og skrúfur bátsins og allt sé eins og það eigi að vera.
Þá var farin reynslusigling út á Faxaflóa og ekki hafi komið neitt fram sem bendi til þess að skrúfur skipsins hafi skemmst og enginn leki kom að björgunarskipinu.
Hafnsögubáturinn Auðun kippti í Jón Oddgeir á síðdegisflóðinu og losnaði björgunarskipið strax af strandstaðnum í höfninni en báturinn skorðaði sig í morgun í grjótgarði við höfnina.
Ástæða þess að Jón Oddgeir strandaði var að báturinn sleit af sér allar landfestar snemma í morgun en þá var mikill veðurofsi í höfninni og mikil hreyfing á skipum og bátum.
Kári Viðar segir að í gærdag kl. 16:00 hafi landfestum verið fjölgað og þær voru síðan skoðaðar kl. 21:00 í gærkvöldi og aftur í nótt kl. 00:30 og þá hafi allt verið í góðu lagi.
Kári Viðar var svo á ferð um Njarðvíkurhöfn í morgunsárið og sá hvar báturinn slitnaði frá bryggju og rak upp í grjótið. Kári segir að báturinn hafi farið rólega upp og skorðað sig stax. Böndum hafi því verið komið á Jón Oddgeir til að tryggja að hann brotnaði ekki eða myndi leggjast á hliðina þegar fjaraði undan honum.
Í samtali við Víkurfréttir sagði Kári Viðar að björgunarsveitarmenn hefðu verið meðvitaðir um að ástandið í höfninni gæti orðið slæmt, eins og raunin varð. Þess vegna var vel fylgst með landfestum en ekki var tekin ákvörðun um að hafa vakt um borð í bátnum í nótt. Áhöfn Jóns Oddgeirs er skipuð sjálfboðaliðum.
„Við erum sáttir eftir daginn að skipið sé komið á flot og sé í toppstandi. Björgunaraðgerðin hefði ekki getað gengið betur,“ sagði Kári Viðar Rúnarsson, formaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes í samtali við Víkurfréttir í kvöld.
Meðfylgjandi ljósmyndir og myndband tók Hilmar Bragi með Nokia N8 á vettvangi í morgun og aftur síðdegis þegar skipinu var bjargað.