Björgunarfólk í hættu vegna hraðaksturs við slysstað
Alltof algengt er að ökumenn aki of hratt framhjá slysavettvangi þar sem lögreglu- og sjúkraflutningamenn eru að störfum. Lögreglumenn höfðu orð á þessu um liðna helgi á vettvangi tveggja umferðarslysa á Reykjanesbraut. Á vettvangi var flughált en þrátt fyrir það óku margir alltof hratt framhjá vettvangi og settu björgunarfólk í hættu.
Ein af meginreglum umferðarlaga er að vegfarandi skal sýna tillitssemi og varúð sem að eigi leiði til hættu eða valdi tjóni eða óþægindum.
Eitt það fyrsta sem viðbragðsaðilar gera þegar þeir koma á vettvang er að koma í veg fyrir frekara slys. Það gera menn t.d. með því að leggja björgunartækjum upp með þeim hætti að það skýli björgunarmönnum og svo eru notuð viðvörunar- og neyðarljósin og eftir atvikum umferðinni stýrt af lögreglu.
Ökumenn eiga ávallt að sýna ítrustu varkárni þar sem þeir sjá blá blikkandi ljós og hægja vel á sér við slysstaðinn, segir í upplýsinum frá lögreglu.
Meðfylgjandi ljósmynd er frá slysstað í Hvassahrauni en myndskeiðið var tekið við slysstaðinn á Strandarheiði. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi