Bjartir tímar framundan
Við áramót - Ásgeir Elvar Garðarsson
Þegar ég fer yfir árið 2016 í huganum stendur stórsókn bæjarfélagsins upp úr. Atvinnuleysi er svo gott sem horfið, flugvöllurinn orðinn einn stærsti vinnustaður á landsins, aukin aðsókn ferðamanna að svæðinu og mjög bjartir tímar framundan í atvinnumálum bæjarfélagsins.
Hver finnst þér hafa verið mest áberandi Suðurnesjamaðurinn á árinu 2016?
Knattspyrnumaðurinn okkar Arnór Ingvi Traustason tók árið 2016 með trompi. Kom sterkur inn í landsliðshópinn í byrjun árs og fór eðli máls samkvæmt með liðinu á Evrópumótið í Frakklandi. Þar sýndi hann hvað í honum býr og stóð þar „markið“ klárlega upp úr. Gagnvart Suðurnesjunum tók Arnór Ingvi það á sig að sameina Keflvíkinga og Njarðvíkinga sem Reykjanesbæinga þegar rifrildin um „rætur“ hans stóðu hvað hæst. Þá var hart að honum vegið að velja á milli sem hann gat að sjálfsögðu ekki með góðu móti gert.
Hver fannst þér vera stærstu málin á Suðurnesjum 2016?
Stærsta mál ársins þótti mér vera að atvinnuleysi í bæjarfélaginu fór undir landsmeðaltal. Uppgangurinn í bæjarfélaginu hefur verið mjög góður, fasteignaverð er farið að hækka og ímynd Suðurnesja er farin að bætast töluvert. Aðdráttarafl flugvallarins og starfa, tengdum honum, leynir sér ekki og „masterplan“ Isavia um þróunaráætlun flugvallarins felur í sér mikla fjárfestingu og mikinn fjölda starfa sem munu koma af því. Á heildina litið er því kominn góður gangur á hlutina hér á Suðurnesjunum.
Hvernig sérðu Suðurnesin á nýju ári?
Varðandi nýja árið á Suðurnesjum þá, eins og oft áður, verður besta veðrið í Sunny Kef, Keflavík sigrar 1. deildina, Njarðvík endar í topp 5 í 2. deildinni, aukin fjölbreytni verður í veitingarekstri bæjarins og Ásbrúarsvæðið mun taka miklum breytingum. Ég vona að bæjarbúar taki auknum áhuga á Suðurnesjunum fagnandi og að við munum sjá aukna fjárfestingu á svæðinu sem mun setja nýjan svip á bæjarfélagið.