Mánudagur 22. ágúst 2016 kl. 10:00

Bílaleigur eru nýjasta stóriðja Suðurnesja

Myndband: Viðtöl við heimamenn í bílaleigugeiranum

Gríðarlegur vöxtur í bílaleigubransanum hefur varla farið framhjá nokkrum Suðurnesjamanni. Frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar streyma daglega hundruðir bíla út á land. Suðurnesjafyrirtæki í geiranum hafa vaxið ört á undanförnum árum og þeim fjölgar sífellt. Víkurfréttir tóku tali nokkra heimamenn sem lifa og hrærast í bílaleigubransanum.

Svæðið við flugstöðina er sprungið

Bílaleigan Blue Car Rental hefur verið starfandi frá árinu 2010 og byrjaði með níu bíla. Núna sex árum síðar eru bílarnir orðnir þúsund talsins. „Núna á háannatímanum er nánast allt í útleigu, við erum eiginlega í vandræðum og nánast yfirbókaðir,“ segir Þorsteinn Þorsteinsson framkvæmdastjóri Blue. Hér áður fyrr var það svo að yfir sumarmánuðina var mesti annatíminn. Nú hefur teygst á umferðinni og betur gengur að leigja bíla út á vorin og haustin. „Tímabilið er að lengjast og síðustu vetur hafa verið góðir.“ Hjá Blue starfa 55 manns og segir Þorsteinn að þokkalega gangi að ráða inn fólk yfir sumarið. „Við erum þó að finna fyrir því núna að það að manna stöðurnar, er að verða erfiðasti hlutinn af því að reka fyrirtæki. Það er að þyngjast gríðarlega.“

Þessi mikli vöxtur undanfarin nokkur ár getur tekið á og krefst mikillar vinnu að vera í takt við ferðamannastrauminn. „Auðvitað hefur þetta verið svolítið sérstakt undanfarið og maður er að upplifa öðruvísi tíma en fyrir nokkrum árum. Þetta er breytilegt og vex hratt. Við höfum sömuleiðis vaxið hratt en þar býr mikil vinna að baki.“ 

Bílaleigurnar hafa yfir að ráða mjög stórum bílaflotum sem þær endurnýja reglulega. Það verður sífellt erfiðara að selja alla bílana á almennum markaði þar sem bílaleigubílum fjölgar umfram það sem hinn almenni markaður þarf. „ Húsnæðið sem við erum í við flugvöllinn getur bara tekið við ákveðnu magni af bílum. Ef við viljum stækka meira, hvað þá? Ekki viljum við fara héðan enda erum við á besta stað. Það er allt þetta landsvæði í kringum okkur en enginn má byggja eða gera eitt né neitt. Þetta svæði er gjörsamlega sprungið,“ segir Þorsteinn og bætir því við að þetta sé erfiður markaður og reksturinn fjárfrekur.
„Ef þú ert að fara út í að kaupa alla þessa bíla þá er eins gott að þú leigir þetta út. Við erum vakandi og sofandi yfir þessu alla daga ársins.“

Þessar bílaleigur þurfa mikla þjónustu og er hún að mestu leyti sótt í heimabyggð. Þannig myndast fjölmörg afleidd störf frá bílaleigunum. Einnig versla leigurnar hérna mikið við bílasölur og umboð á svæðinu. Samkeppnin er hins vegar hörð eins og gefur að skilja. „Það er virðing á milli okkar sem erum í þessu á svæðinu og við hjálpumst reglulega að en það er brjáluð samkeppni í gangi.“

5% aukning milli ára bærilegri en 50%

Bílaleigan Geysir er líklega elsta bílaleigan í eigu heimamanna en hún hóf starfsemi árið 1973. Árið 1991 kemur Garðar K. Vilhjálmsson til starfa hjá fyrirtækinu. Hann er eigandi fyrirtækisins í dag og rekur það ásamt fjölskyldu sinni. „Þetta voru þá 100 bílar og það þótti svakalega mikið fyrirtæki,“ segir Garðar sem nú hefur 700 bíla til umráða á leigunni.

Starfsmannafjöldinn hefur farið ört vaxandi hjá Geysi en þar eru nú um 50 starfsmenn. Flotinn stækkaði um 50% frá síðsta ári, frá 500 bílum í 700. „Það tekur á að stækka svona hratt en það hefur blessunarlega gengið. Sumarið er algjört met hvað varðar leigur og nýtingu og svosem líka hvað varðar tekjur og kostnað.“

Garðar hefur ýmsa fjöruna sopið í þessum geira en hann segir að þróunin í bílaleigugeiranum hafi verið hægfara alveg fram að hruni. „Í rauninni er það hrunið sem býr til ferðaþjónustu á Íslandi og ferðaþjónustan kemur okkur svo út úr hruninu.

Það sem fer hratt upp fer líka oft hratt niður eins og við þekkjum. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist núna eftir að pundið hefur fallið. Hvað mun það þýða varðandi heimsóknir Breta hingað? Hvað mun það svo þýða fyrir okkur ef íslenska krónan nær álíka styrk og fyrir hrun? Það mun hafa veruleg áhrif í ferðaþjónustu svo ekki sé meira sagt.“

Garðar telur að fjöldi bíla á leigumarkaði sé orðinn slíkur að hinn almenni markaður geti vart tekið við fleiri bílum. Þurfa finni ráð til þess að koma bílunum aftur úr landi ef sú þróun heldur áfram. Hann segir að nú hafi hafi verið erfitt að fá fólk til starfa hjá Geysi. „Í fyrsta sinn í ár þurftum við að fá erlenda starfsmenn hingað í gegnum starfsmannaleigu en það var einfaldlega ekki fólk að fá hérna á markaðnum,“ segir Garðar.

Þá hafi síðasti vetur verið ólíkur öllum öðrum. „Það var gríðarleg aukning og við vorum að sjá mánuði sem voru 100% betri en árinu á undan. Stór hluti af þeirri umferð var frá Bretlandi og ég hef smá áhyggjur af því að það dragi verulega úr fjöldanum þaðan. Ef ég ætti að velja þá væri 5% aukning milli ára bærilegri en 50%,“ sagði Garðar.

Sumarið alveg geggjað

Guðmundur Valgeirsson tók við rekstri Touring cars á Íslandi síðasta haust en fyrirtækið sérhæfir sig í leigu á húsbílum. Hann rekur einnig bílasöluna GE bíla. „Finnarnir leituðu að aðila sem hafði vilja og áhuga á að taka við rekstri íslenska hlutans af keðjunni.  Ég þekkti til þeirra, hafði unnið talsvert fyrir fyrirtækið. Það kom mér skemmtilega á óvart þegar þeir buðu mér að taka við útibúinu á Íslandi, og hefur þetta verið mikið og krefjandi verkefni síðan,“ segir Guðmundur.
„Fyrsta sumarið hefur verið alveg geggjað. Aukning á útleigum húsbílanna okkar hefur verið talsvert meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir.“ Flotinn hefur stækkað og telur nú 80 bíla, 65 fullbúna húsbíla og 14 sendibíla þar sem tvær manneskjur geta gist aftur í. Bara dýna og miðstöð, en það hefur verið vinsælt að sögn Guðmundar. „Þeir sem leigja húsbílana eru ekki endilega fólk sem er vant því að ferðast um á húsbílum heldur meira fólk sem vill prófa þetta og vill ekki þurfa að binda sig á hótelum.“ Yfir sumarið eru starfsmenn 14 en í vetur verða þeir sex. Guðmundur segir að þörfin á endurnýjun sé ekki eins tíð þegar kemur að húsbílum, það sé gert á fjögurra ára fresti.
„Þetta er auðvitað áhættusamur bransi, maður veit ekkert hvort það gjósi. Við erum partur af erlendri keðju og öll okkar verð eru í evrum. Núna hefur evran veikst og það hefur að sjálfsögðu haft áhrif á reksturinn. Umfang starfseminnar er eins og við viljum hafa hana og sjáum fyrir okkur, og einsetjum okkur að veita bestu þjónustu sem völ er á“ segir Guðmundur en nýtingin hefur verið um 95% á bílunum í sumar. „Við prófuðum að opna í apríl, en það hefur ekki verið gert áður hjá Touring Cars, og kom það vel út. Október er líka að koma sterkur inn.“

  
Með 30% aukningu ferðamanna skapast tækifæri ný fyrirtæki 


Nokkrir galvaskir Njarðvíkingar stofnuðu bílaleiguna Lava í vor en hún er til húsa að Iðavöllum. „Með 30% aukningu ferðamanna skapast mörg tækifæri fyrir ný fyrirtæki í ferðaþjónustunni. Við byrjuðum í maí á þessu ári og við erum búin að vera uppbókaðir í næstum allt sumar. Þetta tekur tíma að koma sér inn á markaðinn en á meðan við erum ekki það stórir hjálpar það að taka róleg skref og vaxa,“ segir Davíð Páll Viðarsson, einn af eigendum Lava. Flotinn telur 34 bíla og eru starfsmenn fjórir þetta fyrsta sumar.

„Við erum alltaf að læra meira og meira, reka okkur á hluti sem er eðlilegt þar sem við erum það nýir. Við erum í góðu samstarfi með öðrum bílaleigum. Stundum lendir það þannig að við erum yfirbókaðir og þá höfum við lagt áherslu á að mæla með bílaleigum sem eru héðan af svæðinu.“ Veturinn leggst vel í Davíð og er fólk þegar farið að bóka. „Bókanir fyrir veturinn eru að þéttast og þá er fólk aðallega að leigja fjórhjóladrifna bíla. Við erum að meta stöðuna núna, erum að velta fyrir okkur hvernig við höfum veturinn.“ Davíð sér sóknarfæri fyrir ferðamennina á Suðurnesjum. „Það er mikilvægt að láta þá koma inn í bæinn en ekki bara keyra framhjá. Það er mjög algengt að fólk gisti síðustu nóttina í Reykjanesbæ en við reynum að benda þeim á hluti til að gera á svæðinu. Oftast er fólk þó búið að skipuleggja ferðina sína fyrirfram, en það eru talsverð sóknarfæri fyrir fleiri afþreyingarfyrirtæki hér á svæðinu.“

Snýst ekki bara um að bóka bíla og rétta lykla

Jón Sigurðsson hjá Orange bílaleigu hefur verið viðloðandi bíla frá því hann man eftir sér en hann er lærður bílamálari og rak m.a. bílasölu fyrr á árum. „Sumarið hefur gengið vel en maður veit svo ekki hvernig veturinn verður, þetta er nýtt fyrir okkur,“ segir Jón en hjá Orange starfa tíu starfsmenn en leigan fór af stað í vor. Bílaleigan er með 110 bíla og hefur sumarið verið afar annasamt. „Þetta er margfalt meiri vinna en maður bjóst við og erfiðara en maður hélt. Það þarf að bregðast við tjónum og ýmis vandamál geta komið upp. Þetta snýst ekki bara um að bóka bíla og rétta lykla,“ segir Jón. Hann veit ekki með framtíðina hvað varðar stækkanir eða slíkt en staðan verður tekin þegar líður á veturinn. Jón segist hafa tekið eftir því að fólk er talsvert að bóka bíla á síðustu stundu, jafnvel í flugvélinni á leiðinni. Jón gefur sér tíma til þess að spjalla við viðskiptavinina sem eru ánægðir með land og þjóð flestir hverjir. „Þeir ferðamenn sem gefa sér tíma til þess að skoða svæðið okkar eru ánægðir og ég hef heyrt ánægju með Gunnuhver, brúnna milli heimsálfa og nýja kaffihúsið í gamla vitanum á Garðskaga. Ég er duglegur að spjalla við fólkið og benda þeim á skemmtilega staði hér í nágrenninu.“