Fimmtudagur 31. mars 2011 kl. 15:11

Bassasöngvari frá Suðurnesjum á leið í frekara nám erlendis

Bragi Jónsson, bassasöngvari frá Sandgerði, hélt burtfararprófstónleika 25. mars sl. í Guðríðarkirkju í Grafarholti. Bragi var að ljúka burtfararprófi í söng frá Söngskólanum í Reykjavík en hann hefur lært þar söng í rúm 5 ár og á þeim tíma hefur Bergþór Pálsson leiðbeint honum í fjóra vetur. Mikill fjöldi fólks mætti á tónleikana og heppnuðust þeir eins og í sögu að sögn Braga.

„Þetta var ótrúlega skemmtilegt og mætingin framar vonum. Nú er stefnan sett á frekara nám erlendis en það er ekki alveg ákveðið hvert. Ég er búinn að fá inngöngu í söngskóla í London en fer í lok maí í inntökupróf í Tónlistarháskólann í Vínarborg,“ sagði Bragi. „Vínarborg heillar mikið, mikil saga þar og mikil menning. Óperuhús og tónleikasalir eru þar á hverju strái en tíminn mun svo bara leiða í ljós hvert framhaldið verður.“

Í vetur hefur Bragi sungið reglulega á hádegistónleikum ungra einsöngvara sem hefur verið á vegum Íslensku Óperunnar í hverjum mánuði. Einnig kom hann fram á tónleikum með Óp-hópnum í Salnum í febrúar þar sem hinar ýmsu óperusenur voru fluttar. Þá kom hann fram á hátíðartónleikum Ljósanætur í september og söng þar meðal annars hlutverk Figaró í atriði úr Brúðkaupi Fígarós.

[email protected]


Bragi Jónsson ásamt Krystinu Cortes, undirleikara og Bergþóri Pálssyni, kennara.