Bæjarstjóri læknar flensu með kæstri skötu
Bæjarstjórinn í Garði er farinn að stunda lækningar. Hann segist geta læknað flensu með kæstri skötu. Hann fór í húsvitjun fyrir hádegið og hugðist lækna starfsmenn Braga Guðmundssonar húsasmíðameistara sem vinnur að stækkun Gerðaskóla.
Í verkfæraskúr á skólalóðinni setti Ásmundur Friðriksson upp lækningatól sín, sex eldavélarhellur. Í tvo potta setti hann kæsta skötu, kartöflur í tvo, rófur í einn og hamsatólg í einn pott. Allt var þetta soðið eða hitað eftir kúnstarinnar reglum og á slaginu klukkan tólf á hádegi var starfsmönnum Braga smalað í kæsta skötu, sem Ásmundur fullyrðir að eigi að geta læknað menn af flensu.
Í meðfylgjandi myndskeiði er stutt en árangursríkt viðtal við Ásmund um ástæður þess að hann skellti skötu í potta í dag.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson