Miðvikudagur 1. apríl 2015 kl. 12:13

„Átti ekki vona á því að lifa þetta af“

-segir Alexandra Ósk Magnúsdóttir, ung móðir á Ásbrú sem lenti í bílveltu. Tveir menn björguðu henni og tveimur börnum hennar.

„Það var erfitt að liggja föst undir bílnum og heyra börnin hágráta og hrædd. Ég vonaðist eftir því að einhver kæmi og bjargaði þeim en átti sjálf alveg von á því að vera að enda lífið þarna,“ segir Alexandra Ósk Magnúsdóttir sem missti bíl sinn út af í lausamöl á veginum við Ósabotna, milli Hafnavegar og Stafness. Hún er þakklát þeim Nikola Tisma og Najdan Ilievski sem komu að slysinu og lyftu bílnum af henni og kölluðu til lögreglu og slökkvilið til hjálpar.

Alexandra og Aron Arnbjörnsson, unnusti hennar, hittu björgunarmennina sem og lögreglu- og slökkviliðsmenn í húsnæði Brunavarna Suðurnesja á þriðjudagskvöld, til að þakka þeim. Þau færðu björgunarmönnum sínum viðurkenningarskildi og blóm en þeir Nikola og Najdan sem eru frá Serbíu komu líka með blóm til þeirra. Svo bakaði Aron pönnukökur og hópurinn fékk sér kaffi á slökkvistöðinni. „Þeir Nikola og Najdan voru ánægðir að sjá börnin okkar þau Díönu (3 ára) og Sigurð Mikael (1 árs) sem sluppu svo ótrúlega vel. Við erum þeim félögum svo óendalega þakklát,“ sögðu ungu hjónin.

Alexandra segir þegar hún er spurð út í óhappið að hún hafi strax fundið að hún réði ekki við neitt þegar hún missti bílinn útaf. „Ég man eftir fyrstu veltunni og svo eftir þá næstu flaug ég með hausinn út um bílrúðuna farþegamegin fram í og fann svo þakið detta ofan á hausinn á mér. Vinstri hendin lendi líka undir og þetta tvennt náði ég ekki að hreyfa en gat hreyft fætur og annað. Ég var að reyna að ná til barnanna og heyrði bara háværan grát og vildi því freista þess að róa þau. Það næsta sem ég man var þegar ég heyrði í björgunarmönnunum koma. Það gaf mér von. Svo var mikill léttir þegar þeir lyftu bílnum ofan af mér.“

Hún segist ekki vera alveg viss hvort hún hafi verið í öryggisbelti, hún hafi rætt það við prestinn eftir slysið. Hún hafi t.d. ekki losnað úr sætinu við fyrstu veltuna heldur í þeirri næstu. Hugsanlega hafi beltið gefið sig. „Ég var ekki í símanum þegar ég missti bílinn út af heldur að tala við dóttur mína og horfði á hana í baksýnisspeglinum. Börnin voru föst í sínum stólum aftur í og þau sluppu alveg ómeidd út þessu sem er ótrúlegt. Við vorum nýbúin að skipta um belti hjá stelpunni. Þau voru auðvitað mjög hrædd en sluppu alveg við meiðsli.“

Serbarnir, sem hafa búið og starfað á Suðurnesjum á annan áratug, sögðu þetta hafa tekið á andlega og þeir hafi verið í miklu uppnámi eftir slysið. Najdan segir að þeir hafi báðir grátið í bíl sínum á leið heim. Najdan segir að tengdadóttir sín hafi verið ólétt og við það að fæða í síðustu viku og hann hafi því eflaust verið viðkvæmari en áður. Afabarnið kom svo í vikunni og hann væri alsæll eins og unga fjölskyldan með hvað allt fór vel.

Ungu hjónin og börnin með þeim Nikola og Najdan og lögreglu og slökkviliðsmönnum.


Hér er viðtal Víkurfrétta við Alexöndru.