Ásýnd stóriðjunnar í Helguvík
- Umfjöllun Sjónvarps Víkurfrétta um ásýnd iðnaðarsvæðisins í Helguvík
Kísilver United Silicon í Helguvík reis á árinu og var kveikt upp í fyrsta ofni þess í vikunni. Hæsti punktur bygginganna sem tilheyra kísilverinu er 27 metra hár og eru þær sjáanlegar víða að. Þær byggingar United Silicon sem þegar hafa verið reistar eru aðeins byrjunin á uppbyggingu stóriðju í Helguvík.
Þegar byggingu á verksmiðju United Silicon verður lokið verða þar fjórir brennsluofnar og bygging utan um hvern þeirra. Búið er að taka einn ofn í notkun núna í fyrsta áfanga. Gangi áætlanir eftir verður þremur ofnum bætt við á næsta áratug með tilheyrandi byggingum og verður verksmiðjan þá sú stærsta sinnar tegundar í heiminum.
Samkvæmt upplýsingum frá Reykjanesbæ, þá eru uppi hugmyndir um að reyna að draga úr ásýnd bygginganna eins og hægt er, til dæmis með gróðri. Þær hugmyndir velta hins vegar á fjármagni. Nú er unnið að gerð fjárhagsáætlunar hjá bæjarfélaginu og ekki ljóst hve mikið af áætlunum um gróður á iðnaðarsvæðinu komast í framkvæmd á næsta ári. Gert er ráð fyrir jarðvegsmönum og gróðurbeltum til lengri tíma en það mun þó ekki koma í veg fyrir að verksmiðjurnar sjáist.
45 metra hátt kísilver árið 2018
Á teikniborðinu er einnig kísilver í eigu Thorsil sem áætlað er að rísi í Helguvík árið 2018. Það verður staðsett á lóð við hliðina á kísilveri United Silicon, nær sveitarfélaginu Garði. Nú er unnið að fjármögnun á framkvæmdinni og samkvæmt fréttum á dögunum er ráðgert að henni ljúki síðar í þessum mánuði. Í maí síðastliðnum var undirritaður samningur við Landsvirkjun um rafmagn til kísilversins.
Kísilver Thorsil mun rísa á 15 hektara lóð. Í matsskýrslu Mannvits síðan í febrúar 2015 kemur fram að hæð bygginganna verði allt að 45 metrar og skorsteinar allt að 52 metrar. Til samanburðar má geta að Hallgrímskirkjuturn er 74,5 metrar. Í matsskýrslu Mannvits segir einnig að byggingarnar verði mest áberandi frá nyrðri hluta byggðar í Reykjanesbæ, það er frá götunum Heiðarbakka, Heiðarenda og Heiðarbergi en það er næsta byggð við kísilverið og er í um 1,6 kílómetra fjarlægð frá lóðarmörkum versins. Þá segir í skýrslunni að áhrif frá Garðskagavegi og þar um kring séu þau talin verulega neikvæð vegna nálægðar. Áhrif frá Vogum eru talin óveruleg vegna fjarlægðar en frá Njarðvík nokkuð neikvæð. Áhrifin eru öll talin bein og varanleg en þó afturkræf í þeim skilningi að hægt er að taka verksmiðjuna niður síðar.
Það hvað er sjónmengun er huglægt mat, sem lýsir neikvæðum áhrifum mannvirkja á umhverfi sitt. Í lögum um náttúruvernd segir að hönnun vega, virkjana, verksmiðja og annarra mannvirkja skuli þess gætt að þau falli sem best að svipmóti lands.
Í kísilverunum er unninn kísill úr kvarsi. Hann er notaður til framleiðslu á ýmsum vörum, svo sem tannkremi, sjampói, dekkjum, ýmsum kíttiefnum og sólarrafhlöðum.