Ánægðar í sveitakyrrðinni
-Lúxus suður með sjó
Hvað á fólk að gera sem getur ekki eignast húsnæði því það er of tekjulágt til þess að standast greiðslumat frá bankanum? Frænkurnar, Gyða Björk Hilmarsdóttir og Margrét Sif Sigurðardóttir, fundu lausn á þessu máli sem fleiri gætu kannski tekið sér til fyrirmyndar. Þær tóku sig saman, sendu inn sameiginlegar tekjur í greiðslumat, fengu grænt ljós frá bankanum og gátu keypt sér saman einbýlishús í Garðinum.
Þreyttar á leigumarkaði
„Ég leigði af Íbúðalánasjóði, þetta var íbúð sem ég missti í hruninu en fékk að leigja hjá þeim áfram. Þeir voru samt alltaf að anda köldu ofan í hálsmálið mitt, senda mér bréf reglulega og segja mér að nú færi íbúðin á sölu, hvort ég vildi leigja áfram. Mér fannst þeir alltaf vera að fá mig til að skjálfa, hækkuðu leiguna reglulega og svona. Þetta var mjög óþægilegt og mig langaði að flytja í meira öryggi. Það er svo vont að hafa ekki öruggt húsaskjól,“ segir Margrét Sif, verkstjóri í flugeldhúsi Icelandair, sem átti heima í Reykjanesbæ áður en hún flutti í Garðinn.
„Það var búið að segja mér upp leigunni í Hafnarfirði og ég átti að fara út eftir þrjá mánuði. Við Magga frænka vorum búnar að vera tala um þetta óöryggi og hvað það væri gott að eiga heima í eigin húsnæði. Við fórum að kíkja á fasteignavefinn. Sagan er þannig að við vorum á rúntinum og vorum að koma úr Sandgerði þar sem við skoðuðum hús. Þá hringir síminn og fasteignasalinn spyr hvar við séum og hvort við séum tilbúnar að bíða í hálftíma til að fá að skoða þetta hús hér. Hjónin sem áttu húsið komu og sýndu okkur það. Okkur leist strax rosalega vel á þetta hús. Við vorum með vin okkar með okkur sem er smiður og hann skoðaði allt mjög vel,“ segir Gyða, kennari við Háaleitisskóla á Ásbrú.
„Við löbbuðum inn og sögðum báðar vá hvað þetta er flott og góður andi hér inni. Við prófuðum að bjóða í það, aðeins lægra en uppsett verð og bjuggust ekki við neinu. Tilboðinu var tekið og þegar við vorum komnar út í bíl frá fasteignasalanum þá urðum við svo spenntar og glaðar. Við vorum að kaupa okkur hús, sögðum við báðar í kór. Þetta gerðist allt mjög hratt,“ segir Margrét Sif.
Saman stóðust þær greiðslumat
„Ég stóðst ekki greiðslumat og heldur ekki Magga en saman rúlluðum við í gegn. Bankastarfsmaðurinn sagði: „Já, já þetta er ekkert mál,“ allar dyr opnuðust og við eignuðumst heimili. Þetta var eins og í ævintýri,“ segir Gyða.
Húsið er 187 fermetrar að stærð með bílskúr, heitum potti og glerskála. Garðurinn er stór með útsýni til sjávar bakatil. Þær frænkur eru barnabörn Kára heitins Þórðarsonar, rafveitustjóra í Keflavík. „Við höfum alltaf verið mjög nánar frænkur og leigt saman áður. Það gekk vel en það var fyrir mörgum árum þannig að okkur fannst ekkert mál að búa saman aftur. Nú erum við með sitthvora dóttur með okkur og ég er einnig með tvo hunda en áður vorum við með eldri börnin okkar sem eru fullorðið fólk í dag. Núna vorum við svona þrjá mánuði að aðlagast því við höfum báðar búið einar undanfarin ár og ráðið okkur sjálfar. Kannski er það aldurinn einnig? Maður þarf að læra að búa með öðrum, sérstaklega þegar við höfum verið einar með líf okkar. Nú þurfum við að taka meira tillit en það er allt í lagi. Þetta er allt að venjast en við erum hreinskilnar hvor við aðra, það þarf. Kostirnir við svona sambúð eru svo miklu fleiri en ókostirnir. Húsið, staðsetningin og Garðurinn er bara æði,“ segir Margrét Sif og brosir.
„Það er svo gaman að vera í svona stóru, fallegu húsi, fjárhagslega mun léttara hjá okkur. Okkur finnst það líka miklu meira öryggi að eiga okkar eigið heimili. Við ræðum saman hlutina og erum sammála um hvernig við viljum hafa þetta. Við erum farnar að þekkja pirringsmörk hvor annarrar, einlægni er lykillinn. Mér finnst frábært að Magga eldar matinn því það er ekki uppáhalds hjá mér. Dóttir mín er alveg að fíla þetta því nú fær hún alltaf heimilismat en ég viðurkenni að ég gat verið löt að elda frá grunni,“ segir Gyða og hlær.
Hvað finnst dætrunum?
Frænkurnar eru með tvær dætur með sér í sambúðinni. Okkur lék forvitni á að vita hvað þeim fyndist um þessa sambúð. Dagbört Líf Hafþórsdóttir, 21 árs, er dóttir Margrétar. Jónína Surada Thirataya Gyðudóttir er þrettán ára.
„Það var erfitt fyrst að venjast því að vera fleiri á heimilinu því við mamma höfum verið tvær síðan ég var átta ára. Núna finnst mér gaman að við búum svona margar saman. Þetta er meira heimili svona. Margir við matarborðið. Svona vil ég hafa þetta. Mér finnst þetta æðislegt. Alltaf einhver heima. Bara mjög notalegt. Við erum líka með bröns reglulega á sunnudögum og þá bjóðum við systur minni og börnum hennar, ömmu og frænku,“ segir Dagbjört.
„Mér fannst þetta erfitt fyrst en aðallega út af skólanum, ég var kvíðin að þurfa að flytja frá vinum mínum í Hafnarfirði og var hrædd við að byrja í nýjum skóla. Nú hef ég eignast marga vini í skólanum hér. Dagbjört hefur hjálpað mér mikið og mér gengur betur. Mig langaði alltaf í hund og núna búum við með tveimur hundum, það er gaman,“ segir Jónína.
Er þetta framtíðin?
„Við styðjum hvor aðra og ef önnur okkar er að vinna frameftir þá er alltaf einhver heima. Þetta gæti verið leið fyrir fólk í framtíðinni, að fólk taki sig saman og leysi húsnæðisvanda sinn svona. Einu sinni bjuggu fleiri ættliðir saman á heimili, kannski þurfum við að byrja á því aftur? Mig hafði alltaf dreymt um svona líf og sá alltaf fyrir mér stórfjölskylduna saman á einum bletti, á einu landi þar sem margir byggðu sér lítil hús fyrir sig, ræktuðu eigin mat og svona,“ segir Margrét Sif.
„Já, þetta er draumur Möggu en minn er að sitja úti í náttúrunni og mála myndir. Og nú er ég farin að gera það hérna í glerskálanum okkar,“ segir Gyða og bætir við þegar hún horfir út á sólpallinn þar sem heiti potturinn er staðsettur, að þeim finnist líka æðislegt að vera með heitan pott. Allan þennan lúxus fengu þær frænkurnar suður með sjó.