Þriðjudagur 20. september 2011 kl. 10:39

Alltaf markasúpa í 2. deildinni

Reynismaðurinn Jóhann Magni Jóhannsson skoraði 17 mörk í sumar í 2. deild karla í knattspyrnu og varð markahæstur ásamt Njarðvíkingnum Andra Fannari sem þó lék fleiri leiki en Magni. Hann segir að margir strákar í liðinu hafi verið að stíga sín fyrstu skref í 2. deildinni og því megi að miklu leyti kenna reynsluleysi um hvernig fór hjá Reynismönnum sem töpuðu 6-4 gegn Njarðvíkingum á laugardaginn. „Við skoruðum 4 mörk hér í dag og yfirleitt dugir það til sigurs, en við höfum verið þekktir fyrir að fá á okkur mörg mörk.“

Árni Þór Ármannsson var fyrirliði Njarðvíkur í leiknum gegn Reyni í fjarveru Einars Vals Árnasonar og hann segir sumarið hafa verið skemmtilegt þrátt fyrir að ekki hafi tekist að komast upp um deild. „Við getum sjálfum okkur um kennt, við vorum að gera skíta jafntefli og tapa á heimavelli og uppskárum eins og við sáðum, það er ekki hægt að treysta á aðra í þessu,“ sagði Árni m.a. í samtali við VF á laugardaginn.

Umfjöllun um leikinn

Í meðfylgjandi myndskeiði er rætt við þá Magna og Árna.