Laugardagur 17. september 2022 kl. 12:00
Alltaf Keflvíkingur
– segir Sævar Halldórsson en hann flutti til Suðureyjar í Færeyjum fyrir 42 árum. Kynntist færeyskri konu sinni þegar hún var að spila handbolta hér á landi. Gerir við gömul útvörp og sjónvörp og fær karla í kaffi og spjall á verkstæðið á hverjum degi.
Sævar Halldórsson var þekktur einstaklingur í Keflavík fyrir nærri hálfri öld og hélt m.a. úti um tíma verslun og viðgerðarþjónustu á sjónvarps- og útvarpstækjum á Hafnargötu 25 ásamt Ólafi Thorlacius Jónassyni. Sævar var í Keflavík yfir Ljósanótt og spjallaði við Víkurfréttir um lífið í Færeyjum og minningar hans frá Keflavík. „Það er ótrúlegt að sjá breytingarnar hérna, þetta er mikið stærra, í gamla daga þekkti maður næstum hver átti heima í öllum húsum bæjarins. Sú tíð er liðin en það er sami neisti og var í gamla daga í Keflavík,“ segir Sævar.