Alive - Tónleikar tveggja vinaþjóða í beinni útsendingu Víkurfrétta
Már Gunnarsson heldur stórtónleikana „Alive“ ásamt færustu hljóðfæraleikurum Póllands í Stapa föstudaginn 13. mars nk. Einn virtasti „producer“ Póllands, Hadrian Tabecki, kom hingað til lands í vikunni ásamt átta frábærum tónlistarmönnum sérstaklega fyrir þetta tilfefni.
Nær uppselt er á tónleikana en vegna ástands í heiminum og veirunnar sem getur valdið COVID-19 þá hafa fyrirtæki óskað eftir því að starfsmenn sínir taki ekki þátt í samkomum þar sem margir koma saman. Þannig hafa um 100 tónleikagestir boðað forföll á tónleikana á föstudagskvöld.
Til að bregðast við þessu og leyfa sem flestum að njóta góðrar kvöldstundar með frábæru tónlistarfólki tveggja vinaþjóða hafa Víkurfréttir tekið höndum saman með manni ársins á Suðurnesjum 2019, Má Gunnarssyni, og ætla að senda tónleikana út í beinni útsendingu á fésbókarsíðu Víkurfrétta.
Auk pólska tónlistarfólksins, sem leikur með Má, þá mun Ísold systir hans syngja og sérstök gestasöngkona er Sigríður Thorlacius. Þá er von á óvæntum gestum á svið.
Fyrir ykkur sem viljið upplifa tónleikana í Stapa, þá mun húsið og barinn opnar á slaginu 18:30 en sýningin hefst kl 19:30 og stendur yfir í tæpar 2 klst með 15 mínútna hléi. Miðaverð 3900 kr. og miðasala á tix.is.
Meðfylgjandi myndskeið var tekið upp á lokaæfingu fyrir tónleikana en æfingin fór fram í Ytri Njarðvíkurkirkju, þar sem tónlistarfólkið hefur æft síðustu daga.