Alexandra og Rúnar syngja „Time to say goodbye“ á Reykjanesi
Nýtt myndband við hið fræga lag „Time to say goodbye“ í flutningu Alexöndru Chernyshovu, sópransöngkonu og tenórsins Rúnars Þórs Guðmundssonar hefur vakið athygli m.a. í hópnum „Syngjum veiruna burt“ . Lagið er eftir ítalann Sartori og er þekktast í flutningu Andrea Bocelli og Söru Brightman. Bæði Alexandra og Rúnar Þór hafa sungið þetta lag í einsöng undanfarin áratug, en fyrir þremur árum sungu þau það í fyrsta skipti í dúett á nýárstónleikum í Reykjanesbæ. Síðan hefur þetta verið á efnisskránni á tónleikum þeirra undanfarin ár.
Síðasta ár gerðu Rúnar Þór og Alexandra stormandi lukku með þetta lag á gala tónleikum í Noregi. Núna á kovid tímum kom upp sú hugmynd að gera myndband við lagið hjá eiginmanni Alexöndru, Jóni Rúnari Hilmarssyni, ljósmyndara. Hann fór út á Reykjanes í magnaða náttúru.
„Það er mikill kraftur í „Time to say goodbye”, eins og í náttúrunni á Reykjanesi og við vonum að það sé kominn tími á endalok veirunnar, eins og segir í laginu,“ sagði Alexandra.