Aldintré og berjarunnar í Aldingarði æskunnar
Aldingarður æskunnar var formlega tekinn í notkun á Sumardaginn fyrsta við skrúðgarðinn í Keflavík. Nokkur ungmenni gróðursettu fyrstu plönturnar undir leiðsögn stjórnarfólks úr Suðurnesjadeild Garðyrkjufélags Íslands.
Þetta nýja verkefni verður unnið í samvinnu garðyrkjustjóra Reykjanesbæjar og leikskóla sveitarfélagsins varðandi skipulag, ræktun og umhirðu reitsins auk viðburða sem tengjast ræktunarstarfi í þágu æskunnar. Meðal þess sem ræktað verður í reitnum eru berjarunnar og ávaxtatré en auki almennings hefur aukist á slíkri ræktun. Nú þegar fer fram vísir að slíku ræktunarstarfi á leikskólanum Tjarnarseli, elsta leikskóla Reykjanesbæjar.
Hugmyndin er kannski fyrst og fremst sú að vekja athygli æskunnar á ræktun og einnig því góða starfi sem fer fram á leikskólum bæjarins en á einum þeirra er ræktun hluti af starfinu. Suðurnesjadeild Garðryrkjufélagsins er virk og hún hefur verið að vekja athygli á ræktun með fræðslu til Suðurnesjamanna. Það hefur gengið nokkuð vel. Hér erum við í þessum nýja gróðurreit að sá ungviðinu, fræjunum sem síðan vaxa og taka við. Það er hugmyndin með þessum garði. Við settum niður fjögur aldintré og tvo berjarunna en aldin á að vísa til ungviðisins okkar og framtíðarinnar,“ sagði Konráð Lúðvíksson, formaður Garðyrkjudeildarinnar en hann hefur verið duglegur í margs konar ræktun á svæðinu og þykir vera með afar grænar hendur.
Víkurfréttir sýndu myndir frá vígslu garðsins og viðtal við Konráð í Suðurnesjamagasíni vikunnar.