Fimmtudagur 30. desember 2010 kl. 16:01

Ágæt jólaverslun í Reykjanesbæ

Jólaverslun virðist hafa verið með ágætum á Suðurnesjum. Verslunareigendur sem Víkurfréttir heyrðu í voru mjög sáttir.

„Síðustu dagana var mikil verslun svo þetta slapp fyrir horn og er ég bara þokkalega ánægður,“ sagði Sigurður Björgvinsson í K-sport. Kristín Kristjánsdóttir, eigandi Kóda var í óða önn að afgreiða þegar fréttamaður spurði hana um gang mála. „Við erum mjög sáttar miðað við ástandið á öllu í samfélaginu,“ sagði Kristín. Sigurður Björgvinsson í K-sport sagðist vera þokkalega sáttur en það hafi verið mikil verslun síðustu dagana fyrir jól. Vitað er að fleiri voru mjög sáttir með jólaverslunina þetta árið.