Áformin þurfa að ganga upp og leiða til sparnaðar
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, vonast til að hægt verði að milda þær niðurskurðartillögur sem lagðar hafa verið fyrir m.a. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hann segir ráðuneytin vera að fara yfir málaflokkinn eftir að hafa heimsótt allar heilbrigðisstofnanir í landinu. Með heimsóknum var reynt að kortleggja með hvaða hætti mætti fara mildara í niðurskurðinn.
„Það þarf að endurskipuleggja heilbrigðisþjónustuna á Íslandi, leggja áherslu á nærþjónustuna og tryggja að hún sé allsstaðar til staðar. Heilsugæsla, hjúkrun, lyflækningar, öldrunarþjónusta, endurhæfing og annað slíkt. Síðan verðum við væntanlega að sætta okkur við að dýru og sérhæfðu þjónustuna verðum við að veita á færri stöðum,“ segir Steingrímur í viðtali við Víkurfréttir.
Fjármálaráðherra segir þó að stjórnvöld muni halda sig við þá grundvallar stefnumótun sem unnin hafi verið sem miði að því að færa dýrari og sérhæfðari verkefni á færri staði en efla á móti heilsugæslu kringum landið.
„Auðvitað þurfa áformin að ganga upp og leiða til sparnaðar. Ef þau gera það ekki þurfa menn að hugsa sinn gang, þá eru menn ekki á réttri braut“, segir ráðherra m.a. í viðtali við Víkurfréttir sem má bæði sjá og heyra í meðfylgjandi myndskeiði.