Ævintýri Tinna heilla Ingvar Georgsson
Slökkviliðs- og sjúkraflutningamaðurinn Ingvar Georgsson er mikill áhugamaður um Tinna og það er vel sýnilegt að heimili hans í Keflavík. Ingvar hefur verið aðdáandi teiknimyndahetjunnar frá því hann var barn en það eru bara fá ár síðan hann fór að safna bókunum og munum sem tengjast sögunum og þeim ævintýrum sem Tinni lendir í. Ingvar Georgsson er í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta í þessari viku þar sem hann sýnir áhorfendum safnið sitt. Tinnasafnið er reyndar ekki eina safn Ingvars. Hann safnar einnig knattspyrnubúningum, á stórt safn af litlum vínflöskum og varðveitir yfirgripsmikið safn af eldspítustokkum og lyklakippum. Þekktasta safnið sem Ingvar kemur að er samt örugglega Slökkviliðsminjasafnið sem staðsett er í Rammanum í Innri-Njarðvík en þar er að finna mikið magn gamalla slökkvibíla og margt annað sem tengist sögu íslenskra slökkviliða.
Kynntist Tinna fyrst sex ára
Ingvar segist hafa verið um sex ára gamall þegar hann byrjaði fyrst að lesa Tinna og eignaðist nokkrar bækur. Þær hafi glatast á einhverjum tímapunkti. Hann sá síðan viðtal við Keflvíkinginn Rúnar Hannah í Víkurfréttum fyrir nokkrum árum en Rúnar er mikill aðdáandi Tinnabókanna. Ingvar segist hafa rætt við Rúnar sem hafi aðstoðað hann. „Ég fór á fullt í þetta og er kominn með allar bækurnar og meira til,“ segir Ingvar í samtali við Víkurfréttir. Bækurnar eru til í nokkrum útgáfum og Ingvari vantar ennþá nokkrar bækur í mismunandi útgáfum.
Höfundur Tinna er Hergé. Það er dulnefni fyrir Georges Prosper Remi sem var belgískur skáti og teiknaði fyrir skátablað en var svo síðar ráðinn til tímarits til að teikna. Teiknimyndasögur um Tinna byrjuðu í vikublaði þar sem var ein síða í hverri viku en þessar sögur þróuðust síðan yfir í bækurnar sem við þekkjum.
„Tinni í Kongó og Tinni í Ameríku voru ekkert skemmtilegar. Svaðilför í Surtsey var hins vegar geggjuð því maður tengdi hana við Surtsey. Einnig Dularfulla stjarnan þegar Tinni kemur til Íslands,“ segir Ingvar þegar hann er beðinn um að lýsa upplifun sinni af bókunum úr barnæsku. Þegar Tinni kom til Íslands kemur hann við á Akureyri til að taka eldsneyti og þar kemur KEA við sögu í bókinni.
Ingvar segir að íslenska þýðingin á Tinna sé alveg einstök. „Tinni heitir í raun Tin Tin og það er einstakt að við fáum að búa til Tinna og breyta mörgu orðalagi í bókunum, sem gerir þær mjög skemmtilegar. Nú stoppar Hergé-stofnunin í Brussel að þú getir búið til þitt eigið skrifmál í bækurnar og það þarf að fá samþykki fyrir því í dag. Þessi stofnun er stórt batterí. Ég gæti ekki auglýst Tinnasafn á Íslandi, þá fengi ég væntanlega á mig her lögfræðinga.“
Tinni er súperhetja
– Hver er Tinni?
„Þegar Hergé byrjar að teikna Tinna þá er hann 21 árs gamall og segir að Tinni sé sextán ára unglingur. Tinni er líkur bæði Hergé og einnig bróður hans, sem er fimm árum yngri. Menn segja að hann sé að teikna sjálfan sig eða jafnvel bróður sinn og búa til hetju úr þeim. Svoleiðis lifir Tinni áfram. Hergé er að teikna hann í fimmtíu, sextíu ár en Tinni eldist aldrei. Menn hafa velt því fyrir sér hvort Tinni sé strákur eða stelpa. Er hann kannski eitthvað annað? Tinni er aldrei kenndur við kvenmann í bókunum. Þegar ég byrjaði að lesa Tinna þá fannst mér hann vera hetja. Mér fannst hann vera fullorðinn þá en í seinni tíð er hann bara krakki. Tinni kann allt. Hann flýgur og siglir. Tinni kann að keyra og hann fer til tunglsins. Tinni er súperhetja á þessum tíma.“
– Tinni er blaðamaður.
„Já, hann byrjar sem blaðamaður en fer svo úr því og yfir í ævintýramennsku og lendir í ýmsum ævintýrum.“
Auðvelt að ferðast með Tinna
Ingvar segir það skemmtilega við Tinna að það sé auðvelt að ferðast með honum í gegnum ævintýrin. Það er hægt að ferðast með honum til Sovétríkjanna, Afríku, Ameríku og svo fer hann til tunglsins löngu á undan Armstrong. Hann er til Austurlanda fjær og til Kína. Frá Suður-Ameríku fer hann til Skotlands. „Hann er út um allt og það er svo skemmtilegt við ævintýrin hjá honum,“ segir Ingvar.
Það er talað um að Tinnabækurnar séu tuttugu og fjórar. Svo er kvikmyndabókin Tinni og bláu appelsínurnar en hún er ekki talin með. Svo hefur verið gefin út bók sem Hergé var byrjaður á áður en hann deyr og í henni eru bara skissur að myndasögunni.
Ingvar safnar ekki bara bókunum um Tinna því hann á einnig ýmsa aðra muni tengda sögunum. Styttur og fígúrur ýmiskonar sem tengjast hverri sögu fá pláss með viðkomandi bók í sýningarskápum á heimilinu. Einnig eru myndir á veggjum, púðar með myndefni úr Tinnabókum, borðspil og myndefni á DVD. Þá áskotnaðist Ingvari nýlega vínilplata með Tinna. Hann á ennþá eftir að komast að því hvað í raun er á plötunni þar sem hann þarf að eignast plötuspilara.