Mánudagur 7. mars 2011 kl. 18:35

Ætlum að læra af Sparisjóðnum segir Landsbankastjórinn

„Það sem skiptir máli núna er að viðskiptavinirnir fái bara sömu gömlu góðu þjónustuna sem þeir voru vanir að fá hjá Sparisjóðnum. Sparisjóðafólkið sem var er núna hluti af Landsbankanum. Við vorum með fund með þeim í morgun þar sem við buðum þau velkomin. Þetta ber allt brátt að. Það var leiðinlegt að þetta lak út í fréttir áður en þetta var raunverulega klárað. Okkar ætlun var að starfsmannafundur hér yrði raunverulega byrjunin að kynna þetta fyrir starfsfólki og síðan yrði fréttamannafundur á eftir. Því miður fór það ekki þannig. Þau eru öll núna hluti af Landsbankaliðinu og núna skiptir bara máli að spila saman og hafa engar gjár á milli. Það fólk á að vera jafnvel sett og fólkið sem var fyrir í Landsbankanum ef og þegar til einhverra breytinga kemur á þeirra högum,“ segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, í viðtali við Víkurfréttir í dag.

- Heldurðu að þú eigir ekki talsverða vinnu í að sannfæra viðskiptavini Sparisjóðsins um að vera í Landsbankanum?

„Það verður svolítið skrýtið fyrir marga að tala um og heyra Landsbankinn. Ég held að það sem skiptir máli er að fjármálafyrirtækin eru til að veita góða þjónustu, þannig að ef við náum að halda þeim anda og því þjónustustigi sem var hjá Sparisjóðnum áfram og veita kröftuga fjármálaþjónustu inn á svæðið, þá held ég að það skipti ekki alveg öllu máli hvaða merki er utan á húsinu“.

- Nú hefur Sparisjóðurinn verið mjög sterkur í styrkjum til íþrótta og menningar og í rauninni verið með önnur viðskiptaleg gildi. Hvernig verður þessu háttað hjá ykkur?

„Við ætlum að læra af Sparisjóðnum. Allir samningar sem Sparisjóðurinn gerði eru í fullu gildi. Við munum skoða þetta og sjá. Við gerum okkur grein fyrir því að Sparisjóðurinn var hornsteinn í héraði. Við þurfum bara að fylla það skarð,“ segir Steinþór Pálsson m.a. í viðtali við Víkurfréttir. Lengri útgáfa af viðtalinu er hér í Sjónvarpi Víkurfrétta.