Ætlar sér að verða bestur
- Draumur Theodórs Más um að verða sterkasti maður heims
„Kannski gæti það tekið tíu ár í viðbót, en ég held bara áfram. Hvert og eitt markmið leiðir að öðru,“ segir Theodór Már Guðmundsson sem stefnir að því einn daginn að verða sterkasti maður heims. Theodór, sem er 24 ára gamall og 2,08 metrar á hæð, segist hafa fengið brennandi áhuga á aflraunum eftir að hafa séð Ekkert mál fyrir Jón Pál og gert sér grein fyrir því að hávaxnir drengir ættu ekki einungis heima í körfubolta.
Síðan árið 2011 hefur Theodór bætt á sig sextíu kílóum af vöðvamassa og segir töluna fara hækkandi, enda reyni hann að borða um átta þúsund kaloríur á dag. Aðspurður hvernig hann hafi farið að því að þyngjast svona mikið á þessum tíma segir Theodór lykilatriði að borða nóg og æfa vel. „Þetta tekur tíma og ég tók þetta stigmagnandi. Ég byrjaði fyrst í „Body Building“ en fyrir einu og hálfu ári síðan fór ég í meiri styrktarþjálfun og fór þá að hugsa meira um kaloríur og að borða meira af þeim. Þá fór ég að þyngjast mikið meira.”
Sýnir frá lífinu á samfélagsmiðlum
Samhliða því að æfa fjórum sinnum í viku og hugsa um mataræðið leyfir Theodór fólki að fylgjast með á hliðarlínunni. Hann er virkur á streymiveitunni YouTube og öðrum samfélagsmiðlum, s.s. Instagram, en þar sýnir hann frá sínum lífstíl og lífi sínu almennt.
„Ég var búinn að fylgjast lengi með „Fitness YouTube“-urum og mér fannst þetta ótrúlega skemmtilegt og áhugavert efni og mig langaði að prófa sjálfur. Ég byrjaði að gera þetta allt saman á íslensku en hef núna fært mig yfir í enskuna, aðallega til að höfða til erlends markaðar,“ segir Theódór, en hann telur fleiri tækifæri í sportinu erlendis, þar sem aflraunir séu ekki beint vinsælasta íþróttin meðal Íslendinga.
Aðspurður um viðbrögð fólks við myndböndunum á YouTube segir hann rásina fara hægt og rólega rísandi. „Margir sem eru raunverulega að fylgjast með mér hafa sent mér skilaboð um að ég hafi hvatt þau áfram og mér finnst ótrúlega gott að heyra það. Það er ástæðan fyrir því að ég er að þessu, til að hvetja annað fólk áfram í að bæta sig og líða betur.“
Sigraði sterkustu menn landsins
Aflraunir eru stærsta áhugamál Theodórs, en sumarið 2017 keppti hann við sterkustu menn landsins í aflraunamótinu Vestfjarðavíkingurinn, þar sem hann vann fyrstu tvær greinar mótsins. Þeim árangri hefur enginn nýliði náð og hvað þá yngsti keppandi mótsins. Theodór endaði í fimmta sæti á mótinu.
„Þarna var ég búinn að æfa í einhverja fjóra, fimm mánuði og mig langaði bara að prófa svo ég gerði það. Ég var að deyja úr stressi á leiðinni, hélt ég væri bara að fara að gera mig að fífli, en svo endaði ég á að vinna fyrstu tvær greinarnar. Það var svolítið gaman að vinna menn sem höfðu keppt í Sterkasti maður heims. Þarna hugsaði ég að ég ætti kannski einhverja framtíð í þessu.“
Nóg af salti
Það kostar nú sitt að borða um átta þúsund kaloríur á dag, en Theodór eyðir yfir hundrað þúsund krónum í mat á mánuði. „Allt sem tengist þessu sporti er dýrt, allt þetta magn af mat og fæðubótarefni, þetta kostar allt sitt.“
Síðustu mánuði hefur Theodór reynt að þjálfa sig upp í að borða þennan mikla kaloríufjölda, nú borðar hann um sex máltíðir á dag, sem innihalda oft hakk, annað kjöt og hrísgrjón, kjúklingasoð yfir og nóg af salti. „Ég bæti smám saman við máltíðirnar. Núna er líkaminn orðinn vanur þessu. Ég er búinn að standa svolítið lengi í stað í þyngd og ég þarf að gera eitthvað í mínum málum,” segir hann. Theodór á þó sína svindldaga eins og aðrir og segist til að mynda stundum borða einn líter af ís á dag til að ná kaloríufjöldanum upp.
Aðspurður hvort þessi lífstíll krefjist ekki mikils skipulags svarar hann því játandi. Hann sé hins vegar orðinn vanur því og finnist þetta ekkert tiltökumál. „Þetta er orðið ótrúlega eðlilegt fyrir mér. Ég er búinn að vera svo lengi í þessu að þetta er ekki lengur neitt þvingað.“
Óþarfi að hræðast öryggisvörðinn
Í dag starfar Theodór sem öryggisvörður hjá Advania, sem hann segir henta sér vel. Hann hefur í gegnum tíðina starfað annað slagið sem dyravörður á skemmtistöðum og segist finna mikinn mun á viðmóti annarra, áður og nú, orðinn rúmir tveir metrar á hæð og 150 kíló. „Ég vann sem dyravörður árið 2014 þegar ég var svona grannur og þá fékk ég bara enga virðingu. Svo vann ég aftur sem dyravörður fyrir hálfu ári síðan og þá var fólk bara smeykt við mann, þó ég myndi nú aldrei gera neinni manneskju neitt. En það er gaman að fá þessa virðingu, þannig séð,“ segir hann. Aðspurður hvort fólk hafi einhverja ástæðu til að hræðast hann skellir Theodór upp úr og þvertekur fyrir það. „Ég vil öllum vel.“
Kemur sterkur til leiks innan skamms
Draumurinn er að verða sterkasti maður heims, en þó með einu skrefi í einu. Aðspurður um markmið er Theodór ekki lengi að svara því að hann langi að verða bestur og ætli sér að gera það. „Akkúrat núna er ég bara að reyna að styrkja mig eins mikið og ég get og þyngja mig. Vonandi fer ég að gera einhverja hluti í sportinu hérna heima eftir svona eitt til tvö ár.“
-Sólborg Guðbrands