Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 12. febrúar 2022 kl. 07:28

Ætlaði ekki að láta pabba fara - segir dóttirin

Elsa Albertsdóttir sýndi mögnuð viðbrögð þegar Albert faðir hennar fór í hjartastopp. 
Tveimur klukkustundum síðar var búið að þræða og fóðra Man. Utd. aðdáandann sem tapaði búningum í öllum látunum.

„Hún gerir nú lítið úr þessu en viðbrögð hennar björguðu lífi mínu. Þrjú skyndihjálparnámskeið sem hún hafði sótt komu að góðum notum þegar hún þurfti að hnoða og bjarga kallinum,“ segir Albert Eðvaldsson, 57 ára fjölskyldufaðir úr Njarðvík, en Elsa, tuttugu og eins árs dóttir hans, er talin eiga stærstan þátt í því að hann er enn meðal vor eftir að hafa farið í hjartastopp í lok ágúst í fyrra. Þetta afrek Elsu hefur heldur betur vakið athygli því hún var valin Skyndihjálparmaður ársins á Íslandi. 

Sunnudagurinn 22. ágúst byrjaði vel hjá Alberti sem er rafmagnstæknifræðingur hjá Verne Global gagnaverinu á Ásbrú. Albert er áhugasamur kylfingur og fór níu holur um morguninn og svo lá leið hans til föður hans, Eðvalds, sem býr nánast í næsta húsi í Njarðvíkunum, til að fylgjast með leik hjá þeirra liði í enska boltanum. Þeir feðgar eru harðir stuðningsmenn Man. Utd. og Albert gleymdi ekki að fara í „júnæted“ búninginn. 

„Við pabbi missum helst ekki leiki með okkar liði og við horfum mikið tveir saman. Af annarri ástæðu ákváðu fleiri úr fjölskyldunni að koma líka heim til pabba. Við vorum þar bara í rólegheitum en að auki voru þarna Inga konan mín, Elsa dóttir okkar, Ingólfur mágur og Magga systir, kona hans. Svo sit ég bara í stólnum og er að tala við Ingó sem situr í sófanum við hliðina á mér, lyfti símanum mínum og ætla að sýna honum eitthvað varðandi veiði þegar ég fæ skrýtna svimatilfinningu. Mér sortnar fyrir augun og fæ mikið suð í eyrun. Dett svo út,“ segir Albert þegar hann lýsir því sem var að gerast. 

Snör handtök

Elsa horfir á föður sinn með alvarlegum svip og tekur við: „Pabbi missir símann og leggur höfuðið aftur á bak og það heyrast svona hrotuhljóð frá honum. Ég segi honum að hætta þessu en hann á það til að grínast með ýmislegt. Þá spyr Ingó: „Er ekki allt í lagi Albert?“ Mér leist ekki á blikuna og ákveð strax að hringja í neyðarnúmerið 112 en þá var síminn minn „dauður“ svo Magga, systir pabba hringir. Við Ingó færðum pabba úr stólnum. Hann var ekki með neinn púls og farinn að blána í framan. Ég sá strax að munnurinn á honum var fastur saman því ég var að reyna að opna hann og athuga öndunarveginn, nokkuð sem ég hafði lært á skyndihjálparnámskeiðum. Ég beið ekki boðanna og byrjaði strax að hnoða hann og Magga var í símasambandi við neyðarlínuna,“ segir Elsa.

Albert segir að Eðvald pabbi hans hafi sagt honum síðar að þarna hafi Elsa tekið öll völd á staðnum og skipað þeim fyrir verkum eins og alvöru stjórnandi. Hún segist ekki beint gera sér grein fyrir því en hafi ekki dottið neitt annað í hug en að byrja að hamast á brjóstkassa föðurins. 

„Ég byrjaði bara að hnoða á fullu, taldi upp í þrjátíu og reyndi að blása á milli en það gekk illa því pabbi var með munninn fastan saman. Svo benti konan í neyðarlínunni, sem var í símasambandi að það gæti verið gott að skiptast á að hnoða því það væri erfitt fyrir einn að gera það lengi. Ég sagði bara: „Nei!“ og hélt áfram og sagði afa að reyna blástur á milli hnoða en það var ekki að ganga.“

Þrjú skyndihjálparnámskeið

Elsa hafði farið þrisvar á skyndihjálparnámskeið, einu sinni í Fjölbrautaskólanum og tvívegis í vinnu og segir að það hafi skipt sköpum. 

Hún segist bara hafa farið í einhvern gír. Eins og hún væri að keppa í körfubolta sem hún gerði yngri með góðum árangri með Keflavík. 

Lögreglan kom og lögreglukona tók við af Elsu að hnoða Albert. Stuttu síðar komu sjúkraflutningamenn og tóku við endurlífguninni og gáfu honum hjartastuð og þá rankaði Albert við sér á gólfinu eftir tvö, þrjú stuð. 

„Ég vaknaði til lífsins og áttaði mig á því hvað hafði gerst en fann fyrir miklum verk í brjóstinu eftir allt hnoðið. Ég kannaðist við gaurana sem stóðu yfir mér og fór strax að gantast eins og ég geri oft því þeir voru búnir að klippa Man. Utd. búninginn utan af mér. Ég man að ég sagði við sjúkraflutningamennina á leið í börunum út í sjúkrabíl að ég færi nú ekki aftur í þennan búning og hló,“ segir Albert þegar hann rifjar upp hvernig var að vera kominn „til baka“.

Mikilvæg fyrstu viðbrögð

Albert segist hafa verið ótrúlega heppinn með þessi viðbrögð frá Elsu og sínu fólki og síðan hjálparaðilum sem komu á vettvang. Elsa segir að það hafi líka verið gott hvað þeir sögðu við þau fjölskylduna sem var í sjokki á staðnum. „Þeir spurðu hvað og hvernig þetta hafi gerst til að átta sig á stöðunni og ræddu við okkur, sem róaði okkur,“ segir Elsa.

Albert fór síðan í sjúkrabíl í forgangi á Landspítalann og segir að sjúkraflutningsmaður og læknir hafi verið honum til taks og rætt við hann á leiðinni, sem hafi verið gott. Á Landspítalanum beið hans teymi tilbúið að taka við honum. „Ég var spurður hvort ég gæti sjálfur trillað mér af sjúkrabörunum í rúm sem ég og gat sem var mjög jákvætt. Var síðan þræddur og þá kom í ljós að stubbur í vinstri kransæð var stíflaður. Í þræðingunni var æðin „fóðruð“ og eftir það var ég kominn á beinu brautina. Tveimur klukkustundum síðar var þetta búið og ég kominn í sjúkrarúm á hjartadeild með slatta af slöngum í mér. Það fyllir manni öryggistilfinningu þegar maður upplifir þetta eftir á – hvað þetta gekk allt vel. Ég var bara slakur og rólegur og fannst ég í góðum höndum alls þessa fagfólks.“ 

En hvernig upplifði Elsa öll þessi ösköp?

„Þetta var mjög erfitt en ég man að ég hugsaði bara að ég ætlaði ekki að láta pabba fara þarna. Ég fékk þó sjokk síðar um kvöldið en varð samt betri að sjá hann svona góðan fljótt. Það var ótrúlegt hvað þetta gekk hratt og vel.“

En hvaða máli skiptu viðbrögð Elsu í öllu þessu?

Albert segir að hún geri frekar lítið úr því en viðbrögð hennar í upphafi og allt hnoðið hafi skipt sköpum. Hennar framganga hafi bjargað sér. „Þessi fyrstu viðbrögð skipta öllu máli. Þegar maður upplifir svona þá finnst manni að allir ættu að sækja skyndihjálparnámskeið.“ Elsa tekur undir það og segir gríðarlega mikilvægt að bregðast strax við þegar svona gerist. „Fyrstu þrjár mínúturnar geta ráðið úrslitum hvernig þetta fer. Númer eitt er að fara að hnoða og nógu fast. Mér fannst ég gera of fast og fann einu sinni smá brak í pabba en það eru merki um að það hafi gengið vel að hnoða,“ segir Elsa og Albert bætir við að hann hafi þurft að fá verkjatöflur því hann hafi fundið fyrir verkjum eftir hnoðið og verið með brákuð rifbein. Hlær þegar hann segir frá þessu alvörumáli.

Feðginin segjast ánægð hvað allt hafi gengið vel og fyrstu viðbrögð þeirra á staðnum hafi verið mikilvæg og þar hafi heppni spilað inn í með fleiri á staðnum. Það hefði getað farið verr ef það hefði ekki verið. 

Aðspurður segist Albert ekki hafa fundið neinar viðvaranir áður hvað heilsuna varðar. Hann hafi spilað 9 holur í golfi um morguninn og helgina áður farið í langa fjallgöngu og ekki kennt sér neins meins. Albert fékk svokallað kransæðarof sem er mjög erfitt að sjá fyrir. 

Nýr búningur í hús

Við gerum létt grín að Man. Utd. búningamálum Alberts og spyrjum hvort hann væri búinn að fá nýjan búning. 

„Já, ég var nokkru áður búinn að panta nýjan búning sem kom stuttu eftir atvikið. Ég var að máta hann einn daginn þegar það fjölgaði allt í einu í húsinu. Þá komu allir sem tengdust þessari uppákomu heim mér að óvörum,“ segir Albert og Elsa bætir við: „Við vorum að halda upp á mánaðarafmæli „nýja“ pabba eða Alberts 2.0,“ segir hún og hlær.

Styrkti fjölskylduböndin

Albert var í nokkra daga á spítala og við tók endurhæfing næstu tvo mánuði. Hún gekk vel og okkar maður komst fljótlega í golf og svo lá leiðin á heimavöll Man. Utd., Old Trafford, til að fylgjast með leik í Englandi. Hann byrjaði að vinna tveimur mánuðum eftir atvikið hálfan daginn og stuttu síðar var hann farinn að vinna fullan vinnudag aftur.

Elsa er mikil pabbastelpa og hefur fylgst vel með honum eftir atvikið. Þau voru mikið saman þegar hann var í endurhæfingunni því hún var í námi og mikið heima hjá  þeim í Njarðvík. Hún segir að þetta hafi tekið verulega á. Hún hafi eftir atvikið haft áhyggjur af pabba sínum og oft tékkað á honum heima í endurhæfingunni þegar hann var t.d. að leggja sig. „Þetta var mjög erfitt fyrir mig. Ég þurfti að leita mér hjálpar og enn í dag hugsa ég um þetta á hverjum degi,“ segir hún alvarleg á svip og pabbi hennar segir að atvikið hafi styrkt þeirra samband enn meira og er þakklátur hvað allt gekk vel. 

„Við töluðum mikið um þetta og unnum úr þessu svolítið saman. Hún leitaði sér hjálpar sem var gott hjá henni og það er engin spurning að þetta styrkti fjölskylduböndin hjá okkur. Systir mín og mágur og pabbi sem fylgist enn betur með mér núna. Hann skellti sér með vini sínum til Kanarí og hringir í mig reglulega. Er sífellt að tékka á stráknum,“ segir Albert og hlær. 

Albert fór með flotta köku til sjúkraflutningamanna á Brunavörnum Suðurnesja.



Með fjölskyldunni og hafmeyjunni í jólaferð til Köben í desember. 

Á Old Trafford í haust.