Að koma upp varahitaveitu skiptir okkur gífurlega miklu máli
– segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku. Ekki mögulegt fyrir einkaaðila að fara í gerð varnargarða. Lífeyrissjóðir eiga helming í fyrirtækinu.
„Við erum ennþá í þeirri stöðu að Svartsengi er þar sem það er og það er ein pípa frá Svartsengi. Við getum fengið hraun aftur yfir hana. Við munum þá bara verða að bregðast við því eins og við erum að gera núna. Til lengri tíma, og þá er ég ekki að tala um mörg ár, verðum við vonandi komin með lághitaveitur hérna við svæðið og mögulegar tengingar við annað háhitasvæði, t.d. Reykjanesið eða það svæði. Þá getum við sagt að hitinn fer ekki af þegar til lengri tíma er litið. Þá er ég ekki bara að tala um sumar og haust af því að við ætlum að bregðast hratt við þessu – og við erum að bregðast hratt við þessu,“ segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, aðspurður um hvort það sé hægt að koma í veg fyrir að heita vatnið fari aftur af þegar gýs í Grindavík.
Það er óhætt að að það sé nýr veruleiki hjá Tómasi og samstarfsfólki hans í HS Orku. Sex eldgos við Grindavík frá mars 2021 og í sjötta gosinu í byrjun febrúar gerðist það sem margir hræddust, að heita vatnið fór þegar logandi hraunið fór yfir Grindavíkurveginn og lögnina í Svartsengi. Við ræddum við Tómas um stöðu mála, hvaða lausnir hann og hans fólk sjái til lausnar. Mikið liggur við því svæðið getur ekki verið heitavatnslaust.
Sjötta gosið á Reykjanesskaga frá árinu 2021 hafði afleiðingar sem margir höfðu hræðst, þegar heitavatnslögn brast og truflanir urðu á rafmagni. Hversu undirbúin voruð þið hjá HS Orku við þessari ógn með heita vatnið?
„Ég myndi eiginlega segja að við höfum verið eins vel undirbúin og við gátum verið, miðað við allt saman. Árið 2021, þegar gosin byrja er farið í mjög mikla undirbúningsvinnu með almannavörnum og undir stjórn almannavarna. Þar eru gerðar tilraunir með leiðigarðana, lagnir í jörðu og ýmislegt annað sem síðan er notað þegar þetta kemur upp svona nærri byggð, bæði þegar gaus í áttina að Grindavík og svo í þessu síðasta gosi.
Við vorum búin að byggja skurð. Markmiðið var að fella lögnina að Fitjum, Njarðvíkurlögnina, alveg í jörð á rúmlega kílómetra kafla. Við vorum búin að byggja tæplega 600 metra skurð og setja lagnirnar ofan í og sjóða saman. Þá gýs, þannig að við vorum á fullu í undirbúningi og hraunið rann yfir núverandi Njarðvíkuræð og yfir skurðinn líka. Við vorum búin að tengja þessa æð ofan í skurðinum, vorum búin að koma vatni á hana en svo gaf hún sig einhverra hluta vegna og það er ekki vitað hvað gerðist því þetta er ennþá undir sem metrum af hrauni.“
Hvenær byrjuðuð þið að undirbúa þessar framkvæmdir? Hefðuð þið þurft að byrja eitthvað fyrr, gátuð þið það?
„Við byrjuðum að undirbúa þær með því að safna að okkur efni, hanna það sem þurfti að gera og ganga frá öllu slíku – en það var í raun ekki fyrr en almannaástand skapast þarna 10. nóvember sem hægt var að fara í allar þessar framkvæmdir undir forræði almannavarna, þetta er þannig ástand. Þá eru varnargarðarnir gerðir og skurðirnir grafnir.
Við vorum hins vegar búin að undirbúa Grindavík, búin að byggja lögn í þá átt og fella hana í jörðu í samstarfi við HS Veitur því þeir eiga stóran hluta af þeirri lögn. Það var búið að vinna það og hraun rann yfir það og það sýndi sig virka þó það virðist vera að hún leki undir hrauninu. Við vorum í miðjum aðgerðum til að undirbúa ef eitthvað svona kæmi upp á.“
Það hefur komið fram gagnrýni, meðal annars af hverju þetta var ekki búið fyrr? Er þetta eitthvað sem hefði verið hægt að gera miklu fyrr?
„Þessir atburðir byrja í raun og veru fyrir þremur árum síðan og þá eru þeir upp við Geldingadali, þá hefst undirbúningur; kortlagning á svæðinu, hönnun á mannvirkjum, tilraunir í hraununum og annað þess háttar. Ég get ekki séð að við hefðum getað verið betur undirbúin, við erum með efni til þess að bregðast við. Vissulega fór heitt vatn af í Reykjanesbæ og á Suðurnesjum en við vorum með allt efni til staðar, það var búið að undirbúa það hvernig farið yrði yfir hraunið, sem vissulega var mikið afrek, og ég get ekki séð að við hefðum getað verið betur undirbúin heldur en við vorum.“
Þannig að þetta er ekki mál sem þið hefðuð getað gert fyrir tveimur árum síðan.
„Í þeirri stöðu þarftu að meta hvar getur hraun mögulega komið upp – og það var ekki hægt að segja það fyrir. Það sem gerist síðan í þessum mikla atburði 10. nóvember, þó þar hafi ekki verið gos þá var þar í raun og veru mjög mikill jarðfræðilegur atburður og Grindavík gliðnar og allt þetta, þá er farið í að byggja þessa varnargarða og menn sjá svona nokkurn veginn eftir hvaða sprungum hlutirnir munu gerast. Sem hefur síðan staðist.“
Ef það gýs innan varnargarðanna, hvernig eruð þið undirbúin fyrir það eða er hægt að undirbúa það?
„Við höfum miðað allan undirbúning fyrst og fremst við það að bjarga fólki, númer eitt, tvö og þrjú, og að vernda eins mikið af mannvirkjum og hægt er. Ef það gýs innan varnargarða þá myndum við náttúrlega fyrst og fremst reyna, fyrir utan að koma okkar fólki á öruggan hátt í burtu og öllum sem þar væri, að tryggja að borholurnar yrðu heilar því það hefur sýnt sig erlendis að ef hraun rennur yfir virkjanir og annað þess háttar, ef að borholur eru varðar strax með möl og sandi þá er hægt að grafa niður á þær fljótt og tengjast aftur. Þannig að við höfum verið að búa til viðbragðsáætlanir hvað þetta varðar. Með það að hægt sé að fara fljótlega í holur aftur eftir að gosi lýkur þá getum við stytt tímann sem líður þangað til hægt er að fara aftur að nota holurnar og í raun og veru jarðhitann.“
Hafið þið skoðað verstu sviðsmyndina, að það myndi bara koma óvænt sprunga eða gos alveg við orkuverið?
„Já, við höfum vissulega gert það og við sáum fyrir að mögulega gæti þetta farið allt undir hraun og þess vegna höfum við verið að undirbúa alls konar aðrar lausnir með hitaveitur, bæði frá Reykjanesi, lághitaveitur og ýmislegt annað – en það sem hefur sýnt sig að eftir þennan atburð 10. nóvember, og þetta staðfesta vísindamenn frá Veðurstofunni, að á svæðinu undir Svartsengi, sá fleki, það hafa ekki orðið neinir jarðskjálftar þar. Það er eins og bergið hafi þéttst mjög mikið þar. Við höfum líka séð þetta í holunum okkar, þannig að það er mat sérfræðinga að það svæði sem er núna innan varnargarðsins sé öruggara og ólíklegra að hraun komi upp þar. Hins vegar er augljóst að þessi Sundhnúkagígaröð er þar sem veikleikinn er og þar kemur kvikan upp. Þess vegna voru garðarnir mikilvægir og veita okkur vernd á þessu svæði, okkar mannvirkjum. Veikleikinn eru lagnir til og frá Svartsengi, það er verið að hækka háspennulínurnar, við erum að ganga frá Njarðvíkuræðinni ofan í jörðu, við erum að láta hanna nýja Njarðvíkuræð sem yrði farin eftir annarri leið, hæst í landi, önnur lögn og lagnastokkur. Þannig að þetta er allt saman eitthvað sem þarf að gera og það hratt – en það sem við getum brugðist hraðast við er einmitt það sem við gerðum, leggja lagnir hratt og örugglega og tengja aftur það sem skemmist.“
Hvað með heita vatnið? Það er það sem flestir voru hræddir við ef það myndi fara, það hefur svo gríðarleg áhrif. Hvaða lausnir eru þar?
„Í grunninn er Njarðvíkuræðin ekkert slæm, ástandið á henni er bara nokkuð gott og við höfum látið gera úttekt á því. Allt viðhald á henni hafði verið gott og það var búið að skipta um fóðringu, kápu utan um hana. Þannig að vandamál sem voru kannski áður, tæring og annað slíkt, það var búið að koma í veg fyrir það. Þannig að við vorum að meta mögulega aðrar hitaveitur, aðrar leiðir, eða þá að setja Njarðvíkuræðina í jörðu og þess vegna gerðum við það, við settum langan kafla ofan í jörðu og munum örugglega reyna að gera það aftur. Síðan þarf að finna aðrar leiðir sem eru fjær því sem hraunrennslislíkön segja. Nú ef að gýs í Eldvörpum þá er ógnin hinum megin frá, þannig að það þarf að passa þetta hvoru tveggja.“
Eruð þið núna að vinna til hliðar með bráðabirgðalausnir? Það hefur verið talað um varmaskiptistöð og katla.
„Já, við erum að vinna að fjölda lausna. Við erum í fyrsta lagi byrjaðir að bora fyrir lághita á Njarðvíkurheiðinni og líka á Romshvalanesi. Svo erum við líka með virkjun á Reykjanesi, við höfum skoðað og hannað hvernig er að setja upp hitaveitu þar. Það er ekki eins augljóst og það hljómar, bæði er mjög lítið af fersku vatni þar vegna þess að allt vatnið sem við fáum úr jarðhitageyminum er bæði fullt af steinefnum og salti og lághitavatnið er líka salt, þannig að með allar lausnir þurfum að finna ferskvatn líka. Við höfum líka verið að horfa til Stóru-Sandvíkur sem mögulegrar hitaveitu. Þannig að við höfum fyrst og fremst horft á lághitaveitur hér við byggð, nærri Fitjatönkunum, verja Svartsengi vel, mögulegar lausnir eins og að hita með kötlum. Við erum að láta smíða afloftara fyrir slíkar lausnir, þannig að það sé hægt að tengja svona katla ef það kemur til. Svo var mjög margt sem kom upp í þessum atburði, sem sýndi sig – eins og HS Veitur brugðust afskaplega vel við og fóru að flytja vatn inn á svæðið í tönkum sem náði að halda þessum ystu byggðum öruggum, sem skiptir máli. Þannig að allt þetta, gott samstarf milli fyrirtækjanna sem hefur alltaf verið og þessar ýmsu lausnir sem við vinnum saman, bæði rafmagnshitun og svo heitavatnshitun, þetta er allt saman blanda af lausnum sem farið er í og er verið að kortleggja.“
Hvað er efst á listanum til að verja heita vatnið núna?
„Við erum búin að verja lögnina sem við lögðum þarna strax. Þannig að það var fyrst farið í það, alveg eins og skot, að verja þessa varalögn sem var lögð. Við erum búin að fá aðrar pípur frá Orkuveitunni og Landsvirkjun ef þetta kemur upp aftur. Þá förum við örugglega í sömu aðgerð. Við erum líka búin að panta utan frá, þannig að þetta er svona fljótlegasta aðgerðin núna í vetur. Til lengri tíma litið vonum við að lághitaveiturnar, sem við erum að byggja hérna, komi til með að anna grunnþörf samfélagsins ef að eitthvað kemur upp á í Svartsengi og það dettur út í einhverja daga eða vikur. Svo eru fleiri mögulegar hitalausnir hérna á svæðinu.“
Þið erum með marga sérfræðinga og það eru til margir sérfræðingar fyrir utan ykkar fyrirtæki. Það hafa verið að gerast hlutir sem jafnvel sérfræðingar hafa ekki verið að sjá fyrir og lausnir jafnvel flóknar. Hvað segja þínir menn?
„Við erum með alveg frábært lið hjá HS Orku í auðlindastýringu. Ofboðslega flotta vísindamenn sem hafa verið í nánu samstarfi við Veðurstofuna og hennar vísindamenn. Saman lesa þau í gögn sem við söfnum úr okkar borholum og Veðurstofan safnar í sínum mælingum. Núna erum við búin að sjá það, með því að fylgjast náið með okkar borholum, að við getum séð fyrr hvenær stefnir í gos. Fyrr en gert var áður og hver mínúta skiptir máli þegar þú ert að reyna að bjarga fólki, koma fólki og mannvirkjum í öruggt skjól. Þannig að það hefur verið mjög merkilegt að fylgjast með því. Svo verð ég líka að segja að hraunið sem rann síðast rann miklu hraðar en við höfðum reiknað með og við erum nú með mjög góð hraunlíkön sem Almannavarnir eru búnar að láta smíða fyrir svæðið í heild sinni og þau hafa spáð vel fyrir hingað til, þannig að þetta var svolítið öðruvísi eðlið á þessu hrauni þó að þetta komi allt úr sama geyminum.“
Talandi um nýja hitaveitu, hugmyndir um sorpbrennslustöð hafa komið upp. Hvað getur þú sagt okkur um þá hugmynd?
„Mér finnst sú hugmynd, þjóðarbrennsla hér í Helguvík, vera mjög góð. Þar yrði til mikill varmi sem hægt væri að nota eins og við gerum í Svartsengi, því við hitum bara upp ferskvatn. Nota þann varma sem myndast þar til að hita upp ferskvatn og hita svæðið í heild sinni eða að hluta til. Ég myndi segja að það er alveg gríðarlega mikilvæg varaveita en samt yrði grunnveita alltaf notuð og þá myndi í raun og veru vera til meiri gufa til að framleiða rafmagn líka, sem okkur vantar líka í Svartsengi. Við notum vissulega gufu sem við gætum notað til rafmagnsframleiðslu til að hita upp vatn þar. Þannig að ég myndi segja að ef mögulegt er ætti að leggja mikla áherslu á að fá slíka brennslu hingað inn á svæðið – fyrir allt landið.“
Þannig að þetta væri í raun orkuver líka?
„Þetta væri orkuver líka og þetta er þannig erlendis – og þetta er ekki eitthvað sem ríkið þarf að byggja. Það eru einkaaðilar, það eru sjóðir sem sérhæfa sig í þessu og það myndu sparast þjóðhagslega miklir fjármunir, því við erum að flytja sorp úr landi fyrir milljarða. Það er eiginlega bara allt gott við svona þjóðarbrennslu hér á þessu svæði.“
Það er líka talað um að langstærsti hluti af sorpi verði til á suðvesturhorninu, þar sem flestir búa eðlilega. Þannig að þetta væri ekki langt að fara í rauninni.
„Nei og við höfum líka krítíska stöðu hér gagnvart t.d. alþjóðlegum flugvelli og varnarsvæði, þannig að koma okkur upp varahitaveitu skiptir okkur gífurlega miklu máli. Við höfum verið þátttakendur í þessu verkefni einmitt vegna þess að Svartsengi hefur verið frábært fyrir svæðið í langan tíma. Það hefur gert það að verkum að það hefur ekki verið rannsakað neitt annað, eins og t.d. lághitinn hérna á svæðinu. Hann hefur ekkert verið rannsakaður frá 1960 og byrjun 1970 áranna. Þannig að við höfum bara treyst Svartsengi.
Við erum í annarri stöðu núna, svæðið er í rosalegri uppbyggingu og við berum skyldur gagnvart íbúum og gagnvart atvinnulífi, þannig að mér finnst svona tækifæri vera eitthvað sem við verðum að skoða.“
Sæir þú HS Orku koma að svona verkefni, sorpbrennslustöð?
„Alla vega að hitaframleiðslunni í slíkri stöðu, klárlega. Við erum ekki sérfræðingar í sorpbrennslu en að framleiða varma og koma honum til skila til HS Veitna sem dreifir honum, við myndum klárlega taka þátt í því.“
Nú hefur komið upp í umræðunni að undanförnu, þegar heita vatnið fór, eignarhaldið á HS Orku. Forsætisráðherra sagði t.d. á Alþingi eftir heimsókn hjá ykkur um daginn að það væri líklega heppilegra að þetta væri í opinberri eigu. Hvað viltu segja um þetta?
„Þetta eru bara pólitískar skoðanir og ég ber bara virðingu fyrir fólki með sínar skoðanir. Eignarhald HS Orku er náttúrlega bara við öll, lífeyrissjóðirnir eiga helminginn í fyrirtækinu og hinn helmingurinn er í eigu bresks innviðafjárfestis sem er líka að höndla með lífeyrissjóðapeninga Breta og fjárfesta víða í svona innviðum og við fáum mjög góðan stuðning frá þeim. Að sama skapi má líka spyrja sig, það verður rafmagnslaust á Vestfjörðum, það verður rafmagnslaust á Vesturlandi á sama tíma og við lendum í þessu. Það er ríkisrekið fyrirtæki, ég get ekki séð að það skipti öllu máli í þessu samhengi. Við erum að eiga við náttúruhamfarir en auðvitað eru þetta bara pólitískar skoðanir. Við erum hins vegar fimmtíu prósent í eigu lífeyrissjóðanna þannig að við erum í almannaeign hvað það varðar.“
Það hefur komið upp í umræðunni 33 milljarða arðgreiðslur í þessu. Þá er verið að benda á að fyrirtækið sem sé að stórum hluta, alla vega til helmings, í eigu útlensks einkaaðila. Og eigendurnir hugsi meira um að taka úr meiri arð.
„Jú, jú, 33 milljarðar eru náttúrulega yfir mjög langt tímabil og miklu lengra en núverandi eigendur hafa tekið þátt í rekstri fyrirtækisins. Stærsti einstaki atburðurinn er í raun og veru þegar hlutabréf HS Orku í Bláa lóninu eru tekin út. Það er stærsti hlutinn. Síðan að núverandi eigendur komu inn, fyrir utan þessa Bláa lóns hluti, hafa verið greiddur þrír og hálfur milljarður út í arð á fjórum árum en við höfum fjárfest fyrir og erum að fjárfesta fyrir 30 milljarða á svæðinu, í innviðum og orkumannvirkjum, og við fáum gífurlegan stuðning frá okkar hluthöfum – og alltaf þegar við höfum þurft að fara í nýjar fjárfestingar þá höfum við fengið hutafjárinnspýtingu frá þeim. Þannig að þetta jafnar sig nú allt út og það er þvert á móti mikill styrkur að eiga svona sterka hluthafa sem hafa stutt okkur í allri þeirri uppbyggingu sem við höfum farið í og ætlum að fara í. Þannig að ég sé þetta ekki sem neitt vandamál.“
Og útlensku aðilarnir, hvernig líst þeim á þessa uppákomu sem er búin að vera undanfarið?
„Þeir eru innviðafjárfestir, sérhæfa sig í svona og hafa séð ýmislegt. Við fáum mjög góðan stuðning frá þeim. Stjórnarmennirnir frá þeim hafa gífurlega reynslu í rekstri orkufyrirtækja, alveg sérstaklega góða reynslu fyrir okkur Íslendinga að fá að njóta. Auðvitað kemur þetta á óvart en þetta er jarðhiti, við erum að eiga við jarðhita og menn gera sér grein fyrir því að þegar þú ert að vinna á háhitasvæði þá getur þetta komið upp. Ég hef ekki fundið fyrir neinu nema bara stuðningi í öllum þeim aðgerðum okkar og bara aðdáun á því hvernig allir hafa brugðist við. Ég er gífurlega stoltur af viðbragði okkar starfsmanna, Almannavarna og samstarfi við aðra aðila á þessum umbrotatímum og mér finnst allir hafa staðið sig mjög vel og við verið eins vel undirbúin og við gátum verið.“
Tvíþætt spurning með varnargarðana. Hver er þín skoðun á þeim og hvernig þeir voru uppbyggðir og hitt sem hefur verið mikið gagnrýnt, af hverju eru fyrirtæki eins og ykkar og Bláa lónsins ekki að taka þátt í kostnaði við gerð þeirra?
„Við erum náttúrulega í almannavarnaástandi og það er Almannavarna að ákveða að gera svona, byggja svona garða og annað slíkt. Það er mjög flókið fyrir fyrirtæki að fara að sækja um leyfi og fara að byggja garða til þess að beina hrauni yfir á annarra manna land eða fasteignir. Ég efast um að nokkuð fyrirtæki fengi leyfi til að gera það. Við í raun og veru höfum ekkert um það að segja hvar garðarnir eru byggðir. Það eru bara gerð líkön sem miða við það að vernda þennan krítíska innvið og persónulega finnst mér Bláa lónið vera krítískur innviður. Við leggjum höfuðáherslu á það í dag að efla túrisma og annar hver túristi kemur þangað. Flestir útlendingar sem ég tala við finnst mjög eðlilegt að það sé varið líka. Að það sé krítískur innviður líka fyrir túrismann en við höfum enga beina aðkomu að því hvar þeir eru lagðir, það eru bara ráðgjafar Almannavarna sem gerar það en við vinnum hins vegar með þeim. Við undurbjuggum með þeim t.d. hvar eru tækifæri til staðar ef til þess kæmi að það þyrfti að byggja garða en það er ekkert augljóst fyrr en menn sjá svona betur hvar mögulega gos kemur upp, og hvað þarf að verja, hvar slíkir garðar eru byggðir eins og við sáum t.d. með Grindavík.“
Þannig að þetta voru alltaf opinberir aðilar sem voru að fara að byggja þessa garða og þ.a.l. á þeirra kostnað.
„Það er þannig sem almannavarnir virka.“
Nú hlýtur að hafa verið skrítið að stýra fyrirtækinu undanfarið, sérstaklega frá 10. nóvember. Þið þurftuð að rýma ykkar húsnæði í Svartsengi, hvernig hefur það verið?
„Það hefur náttúrulega verið mjög sérstakt. Við höfum verið á hrakhólum síðan þá, vorum reyndar að taka í notkun nýja skrifstofu í Reykjanesbæ. Þannig að það er gott að vera komin með góða aðstöðu en við erum hálfpartinn búin að vera í Covid-ástandi, á hrakhólum og ekki með beinar starfsstöðvar því okkar höfuðstöðvar voru í Svartsengi og þar var mjög gott að vera – en húsnæðið þar er ekki talið öruggt eins og staðan er núna, - sjálf skrifstofan en orkuverin hafa staðið sig frábærlega. Þetta hefur bara verið mjög sérstakt og við höfum þurft að leggja mikla áherslu á að vinna saman og halda fólkinu saman. Það hefur gengið mjög vel enda er þetta fyrirtæki þar sem allir eru mjög stoltir af því að vinna hjá HS Orku. Við erum ánægð með það sem við erum að gera, það er góður andi og fólk vill vinna saman, hjálpa til við að leysa þessi vandamál. Þannig að það hefur gengið ótrúlega vel.“
Er Svartsengi þá algerlega fjarstýrt núna eða eruð þið með starfsmenn þar eitthvað?
„Við fluttum allan reksturinn yfir í Reykjanesvirkjun og þaðan er í raun og veru rekstrinum öllum stýrt í dag. Vissulega fer fólk núna inn og vinnur verk í Svartsengi yfir daginn í viðhaldi og öðru slíku, þannig að það eru alla jafna tíu, tólf manns í Svartsengi yfir daginn.“
Það er kannski hægt að segja að það séu búnir að vera að gerast fullt af nýjum hlutum í þínu starfi og ykkar undanfarna mánuði. Þegar þú horfir til baka nokkra mánuði og ár þá er þetta líklega ekki það sem þú gerðir ráð fyrir að myndi gerast?
„Nei, ekki frekar en allir. Við gerðum ekki ráð fyrir að við værum að fara inn í nýtt umbrotatímabil sem gæti varað í einhver ár. Þetta er algerlega nýr veruleiki. Ég kom til starfa hjá HS Orku til að taka þátt í uppbyggingunni og við höfum gert það. Við stækkuðum Reykjanesvirkjun, við erum að stækka Svartsengi og við viljum fara í fleiri verkefni. Það er það sem við höfum áhuga á að gera. Þetta hefur verið meira viðbragðs- og krísustjórnun, það verður að viðurkennast eins og er, og við þurfum að koma því í ákveðinn farveg því þetta er þessi veruleiki sem við erum að lifa við – og tryggja núna öruggan rekstur í Svartsengi og örugga afhendingu á heitu vatni og rafmagni hingað á svæðið.“
Þannig að ertu þrátt fyrir allt þokkalega bjartsýnn?
„Já, maður verður alltaf að vera bjartsýnn. Ég er það en það eru fjölmargir sem eru að hjálpa okkur við að halda svæðinu öruggu og ég er líka mjög þakklátur fyrir það. Fyrir hönd allra hér á svæðinu og fyrir hönd okkar sem rekum fyrirtæki hér á svæðinu. Almannavarnir eru búnar að standa ótrúlega að baki þessara aðgerða allra og standa í ströngu á hverjum degi. Þannig að við erum mjög þakklát fyrir það allt saman, allan þann stuðning.“
Hefur samstarfið við Almannavarnir og lögreglustjóra alltaf gengið vel?
„Alltaf verið til fyrirmyndar og við erum í mjög mikilli samvinnu við þessa aðila. Ég ætla bara að fullyrða það að tími sérfræðinga og stjórnenda á HS Orku síðustu mánuði hefur bara farið í þetta og ekkert annað, allt annað verið á bið, og her manna unnið að þessu núna, undirbúningi og öðru, í þrjú ár – en það er ekki fyrr en atburðurinn gerist að hægt er að bregðast við ýmsum af þessum þáttum.“
Þið eruð búin að vera í vörn en þurfið að vera í sókn líka.
„Já, við þurfum að sækja líka. Við erum að endurbyggja hluta af virkjuninni í Svartsengi og við erum líka nýbúin að taka í gagnið nýja virkjun á Reykjanesi og við erum að bora eftir meiri gufu á Reykjanesi, einmitt til þess að styrkja þá virkjun.“
Þið eruð nýbúin að stækka Reykjanesvirkjun.
„Já og svo erum við búin að fjárfesta í virkjun úti á landi, Fjarðarárvirkjun á Seyðisfirði, þannig að við erum í stækkunarfasa og ætlum ekkert að hætta því.“