Þriðjudagur 27. janúar 2015 kl. 09:13

90 nemendur útskrifast frá Keili

– sjáið viðtal við Daða Þór dúx

Keilir útskrifaði 90 nemendur úr fjórum deildum þann 16. janúar og hafa þá í allt 1.982 nemendur útskrifast frá skólanum síðan hann hóf starfsemi árið 2007. Þar af hafa 1.201 nemandi útskrifast af Háskólabrú Keilis. Við athöfnina voru útskrifaðir nemendur af Háskólabrú, úr ÍAK einkaþjálfaranámi, grunnnámi í flugumferðarstjórn og atvinnuflugmannsnámi Flugakademíu Keilis.
 
Dúx Háskólabrúar var Daði Þór Þjóðólfsson af Verk- og raunvísindadeild og útskrifaðist hann með hæstu einkunn Háskólabrúar til þessa eða 9,63 í meðaleinkunn. Daði Þór hlaut viðurkenningu frá Keili og Íslandsbanka. Ræðu útskriftarnema fyrir hönd Háskólabrúar flutti Svanur Þór Smárason.
 
Dúx í grunnnámi flugumferðarstjóra var Frosti Guðjónsson með einkunnina 9,63 og hlaut hann gjöf frá ISAVIA. Karl-Emil Pantzar frá Svíþjóð var dúx í atvinnuflugmannsnámi með meðaleinkunnina 9,55 og hlaut hann gjöf frá Icelandair. Ræðu útskirftarnema fyrir hönd Flugakademíu Keilis flutti Jenný María Unnarsdóttir.
 
Hjálmar Árnason framkvæmdastjóri Keilis, Snorri Snorrason skólastjóri Flugakademíu Keilis og Soffía Waag Árnadóttir forstöðumaður Háskólabrúar, fluttu ávarp. Valdimar Guðmundsson söng við undirspil og Björgvins Ívars Baldurssonar gítarleikara.