200.000 fermetrar af malbiki
Umfangsmiklum framkvæmdum við malbikun flugbrauta á Keflavíkurflugvelli er lokið. Framkvæmdir hófust í fyrrasumar en báðar flugbrautirnar voru malbikaðar, nýjar flýtireinar lagðar sem munu gera það að verkum að brautirnar nýtast enn betur, öllum raflögnum og flugbrautarljósum var skipt út fyrir díóðuljós sem nota mun minni orku. Sumarið 2016 var hafist handa við norður-suður flugbrautina og nú er vinnu við austur-vestur brautina jafnframt lokið.
Mikið er vandað til verka við malbikunarframkvæmdir á flugvöllum til þess að yfirborðið endist sem best. Ráðast þarf í svona framkvæmd á um 15 til 20 ára fresti. Kostnaður við framkvæmdina er um sjö milljarðar króna en malbikunarhluti framkvæmdarinnar jafnast á við allar malbikunarframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu á einu ári. Malbikaðir voru um 200.000 fermetrar.
Að ofan er innslag Sjónvarps Víkurfrétta um framkvæmdina.