Þriðjudagur 11. október 2011 kl. 14:48

150 MW frá Landsvirkjun setja allt á fulla ferð í Helguvík

Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, sagði á atvinnumálafundi í Garðinum í gærkvöldi að fái fyrirtækið vilyrði fyrir 150 megavöttum frá Landsvirkjun þá fari framkvæmdir á fulla ferð í Helguvík. Framkvæmdir geta farið af stað þrátt fyrir að niðurstöður gerðardóms í orkusölumálum milli HS Orku og Norðuráls liggi fyrir.

Ragnar sagði að Norðurál hafi viðrað þessa hugmynd við Landsvirkjun í vor en botn er ekki fenginn í málið. Fram kom í máli Ragnars í gær að Landsvirkjun ætli að virkja 1200 til 1500 megavött á næstu 10 árum og því sé Norðurál aðeins að óska eftir litlum hluta af því.

Fjárfestingin í Helguvík er orðin 18 - 20 milljarðar króna og sagði Ragnar sorglegt að horfa á fjárfestinguna án þess að hún skilaði ávöxtun.

Ragnar sagði að gengið hafi verið frá orkuverði við HS Orku árið 2007 en ágreiningur er um túlkun á fyrirvörum í samnignum um orkuverðið. Það sé það mál sem gerðardómurinn í Svíþjóð sé núna með til meðferðar. Niðurstöðu þaðan seinkar enn en dómurinn þarf m.a. að fara yfir 7000 blaðsíður af gögnum í málinu.

Ragnar mætti í ræðustól í gærkvöldi og svaraði fyrirspurn um álversframkvæmdina. Svar Ragnars má sjá í meðfylgjandi myndskeiði frá fundinum í gærkvöldi.