Vísir kaupir búnað frá Marel

Vísir hf. hefur skrifað undir samning við Marel um kaup á vél- og hugbúnaði fyrir vinnslu sína á Djúpavogi. Með þessu er verið að endurnýja gamlan vél- og hugbúnað og einnig verið að bæta inn fleiri skráningarstöðvum í húsinu. Töluverð samþætting mun eiga sér stað á milli Marel-kerfisins og birgðakerfis Vísis, WiseFish, og er þetta liður í því að auka sjálfvirknina þar á milli.

Meðal annars er um að ræða snertiskjái sem verða notaðir í að setja framleiðsluna í pakkningar og skráningarstöðvar til að fylgjast með stöðu á saltfiski og pækillager. Einnig er verið að endurnýja gamla vigtarhausa.

Hugbúnaður, sem verið er að taka í notkun, mun samstilla allar þær vigtar sem verið er að nota í húsinu. Með þessum kaupum er enn frekar verið að tryggja rekjanleika afurða og tryggja að réttar skráningar eigi sér stað á réttum tíma.

Af vefsíðu Vísis