Vilja hefja strandveiðar 1. apríl

Strandveiðikerfið var fyrirferðamikið í umræðunni á aðalfundi smábátafélagsins Reykjaness sem haldin var fyrir helgi. Ákveðið var að leggja til við aðalfund LS að í stað 1. maí yrði byrjunartími á strandveiðum færður til 1. apríl á svæði D.  Á fundinum kom fram ánægja með núverandi svæðaskiptingu. Hins vegar var megn óánægja með að ufsi skuli ekki talinn til þorskígilda í heildarafla í stað kílóa eins og nú er.

Á fundinum var rætt um kvótaþak í krókaaflamarki en núverandi reglur gera ráð fyrir að ekkert fyrirtæki í krókaaflamarki sé heimilt að eiga meiri hlutdeild en 4% í þorski, 5% í ýsu og 5% þorskígildum.  Fram kom að þegar lögin voru sett hafi eitt fyrirtæki, Stakkavík, verið yfir þessum viðmiðunarmörkum og hefur Alþingi frestað því að það láti frá sér hlutdeild þannig að hún fari niður fyrir umrædd mörk.   Fundarmenn voru á einu máli um að lagaákvæðið væri ósanngjarnt gagnvart fyrirtækinu og afturvirkni væri vafasöm.  Samþykkt var að beina því til aðalfundar LS að hann beitti sér fyrir því að lögum yrði breytt þannig að fyrirtækið gæti haldið hlutdeild sinni.

Aðalfundur Reykjaness samþykkti og ítrekaði tillögur um takmörkun trollveiða og lokun svæðis vestan Reykjaness.