Rækjufrystitogari keyptur til Reykjanesbæjar

Magni Jóhannsson útgerðarmaður togarans Breka KE, sem gerður er út frá Reykjanesbæ, hefur keypt rækjufrystitogarann Sunnu SI af Þormóði ramma – Sæbergi. Hann tekur við skipinu 20. janúar næstkomandi. Með því fylgir um 1.000 tonna karfakvóti. Frá þessu er greint á vefnum skip.is

Magni sagði að ætlunin væri að gera Sunnu út til ísfiskveiða með gáma og siglingar í huga en tegundir eins og gulllax og annað yrðu frystar um borð. Togarinn er nú í Póllandi þar sem verið er að setja í hann nýja fiskmóttöku. Einnig er verið að skipta um stálplötur á botni skipsins vegna skemmda sem urðu þegar það strandaði í Hafnarfjarðarhöfn síðastliðið haust.

Magni hefur gert út togarann Breka undanfarin ár, að mestu á leigukvóta, og selt aflann ísaðan í Þýskalandi. Hann sagði að hugmyndin væri að gera Breka áfram út fyrst um sinn með sama hætti og áður. Magni, sem verið hefur skipstjóri á Breka, flytur sig yfir á Sunnu en ekki er ákveðið hver tekur við skipstjórn á Breka.

Sunna SI er tæplega 1.000 brúttótonna skip smíðað árið 1991. Það var lengi vel gert út til rækjuveiða á Flæmingjagrunni auk veiða við Ísland en hefur legið mikið eftir að rækjuveiðarnar urðu óarðbærar.

Mynd: Skip.is / Þorgeir Baldursson