Mokar upp ýsu á flótta undan þorski

Grétar Þorgeirsson skipsstjóri á Farsæli GK 162 frá Grindavík er á flótta undan þorski og mokar upp ýsu á sama tíma. Frá 1. mars sl. hafa Grétar og hans menn borið um 125 tonn að landi í Grindavík og þar af um 90 tonn af ýsu.


Á fimmtudag í síðustu viku kom Farsæll GK að landi í Grindavík með 25,5 tonn sem er metróður hjá skipinu. Megnið af aflanum var ýsa og það mjög fallegur og góður fiskur, að sögn Grétars. Á föstudeginum komu þeir með 17 tonn úr tveimur hölum, en Farsæll er á dragnót og hefur aðallega verið í Hælsvíkinni undir Krýsuvíkurbjargi. Í dag segist Grétar hins vegar aðallega hafa verið á flótta undan þorski sem virðist vera um allan sjó.

„Það virðist engu máli skipta hvar við setjum út veiðarfæri, það er fiskur um allt,“ sagði Grétar við Víkurfréttir nú síðdegis. Hann var kominn með 12-13 tonn af ýsu og rauðsprettu í dag en eitthvað af þorski en í fyrsta halinu í morgun var a.m.k. eitt tonn af þorski. Þorskkvótinn er að verða búinn en hins vegar er erfitt að dýfa veiðarfæri í sjó og ákveða fyrirfram hvað kemur í pokann.


Grétar segir góða ýsuveiði hafa blossað upp nú í mars og hún sé meiri en í fyrra. Þá sé einnig almennt meira af öðrum fisktegundum einnig. Þorskurinn sé feitur og lifrarmikill. Hann sé hreinlega að springa af lifur. Það sé gott merki um betri tíð í hafinu og þess vegna vill Grétar, og örugglega sjómannastéttin í heild, sjá aukinn þorskkvóta. „Það ætti að vera auðvelt að auka þorskkvótann um 70-80 þúsund tonn,“ sagði Grétar. Hann bindur miklar vonir við yfirstandandi togararall og þætti skrýtið ef niðurstaðan úr rallinu yrði önnur en sú sem allir sjómenn eru að upplifa í dag - að hægt sé að ganga þurrum fótum yfir flóa og firði sem eru fullir af fiski og þar með gjaldeyri fyrir þjóðfélag sem þarf svo virkilega á honum að halda í dag.


Farsæll GK landar öllum sínum afla á markað. Þar eru að fást 280-300 krónur fyrir kílóið af ýsu. Kvótaleigan er hins vegar um 190 krónur fyrir kílóið af ýsu.Efri myndin: Ýsa í kari úr risaróðri Farsæls GK í síðustu viku. Á neðri myndinni flýgur þorskur í þvottakar.

Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson