Makrílveisla í Keflavíkurhöfn

Það hefur verið mikið makrílfjör við og í Keflavíkurhöfn síðustu daga og þessum sprettharða fiski verið landað í miklu magni frá bátum og þá hafa stangveiðimenn ekki látið sitt eftir liggja og einnig rifið hann upp.

„Það er búið að vera gaman að vera hér á bryggjunni undanfarið. Menn róta makrílnum upp og svo hefur selur verið hér í sömu veislu. Honum hefur ekki leiðst,“ sagði einn af nokkrum bryggjugestum við VF.

Þegar VF leit við stóð yfir löndun úr bátnum Hlödda VE en sá makríll og frá fleiri bátum hefur farið til vinnslu í Saltveri í Njarðvík. Þá var bátur í höfninni frá Stakkavík í Grindavík á leið til löndunar. Stóð flutningabíll frá fyrirtækinu beið eftir spriklandi makríl. Sem sagt makrílfjör í hæstu hæðum þó verð hafi lækkað og erfiðar gangi að selja hann.

Löndun úr Hlödda VE við Keflavíkurhöfn.

Makrílfjör í blankalogni á sunnudegi í Keflavíkurhöfn.

Selur hefur haldið sig í höfninni síðustu daga, í veislu.

Mannfólkið lætur sig ekki vanta á bryggjuna.

Landað úr Stakkavík í Grindavík. Flutningabíll beið á bryggjunni.

Nóg af makríl, sjá mátti bæjarbúa koma við og taka nokkra fiska í soðið eða á pönnuna.