Höfum miklar áhyggjur komi til verkfalls

- Fiskmarkaður í óvissu vegna verkfalls

„Við höfum miklar áhyggjur af framvindu mála komi til verkfalls. Það mun ekki síður koma niður á þeim fiskverkunum sem eiga engan kvóta og versla allt sitt á fiskmörkuðum,“ segir Ragnar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðs Suðurnesja í Fiskifréttum.

Ragnar segir ljóst að samdráttur hjá Fiskmarkaði Suðurnesja yrði gríðarlegur í sjómannaverkfalli því framboð af fiski mun hrynja en stórar útgerðir eins og Þorbjörn, Vísir, Gjögur, Hraðfrystihúsið Gunnvör og Skinney-Þinganes séu með meira en 50% framboðs hjá FMS, þó það sé mest aðrar tegundir en þorksur. Þá muni verð hækka mikið því einhverjir muni þurfa að kaupa til að viðhalda viðskiptasamningum.
Ragnar segir að eitthvað af fiski muni berast inn á markaðina en það verði ekki mikið. Helst verði það aðilar í krókaaflamarkskerfinu sem muni róa harðast og reyna að leigja til sín heimildir ef það gefur til veiða vegna veðurs. Trillusjómenn muni reyna að sækja fisk eins og hægt er en veðrið muni hafa mikið að segja hvernig sú sókn gangi.

Sala á fiskmörkuðum í ágúst og september var sú mesta frá stofnun markaða. Fiskframboð inn á markaði hefur aukist á undanförnum árum og verð á þorski lækkað.